Afleiðingar verkfalls kennara

Mánudaginn 15. nóvember 2004, kl. 15:07:52 (1453)


131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:07]

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Enn er ástandið nánast óbærilegt og það er komið á daginn sem varað var við í umræðunum fyrir helgi að sú lausn sem gripið var til dygði ekki til að skapa vinnufrið í skólunum. Enn er málið óleyst og enn er það í hnút.

Ítrekað hefur verið leitað til tveggja ráðherra út af málinu og lausnirnar hafa ekki verið — eins og við í stjórnarandstöðu vöruðum við — nægilega góðar til þess að hægt væri að búast við því að menn sem voru búnir að vera í verkfalli svo lengi mættu til starfa án þess að fá uppbætur. Nú bendi ég á að þetta mál er að sjálfsögðu í höndum viðsemjenda kennara, þ.e. sveitarfélaganna, og ég beini þeim eindregnu áskorunum til þingmanna, hvar í flokki sem þeir standa, að beita sér gagnvart þeim sem starfa í umboði þeirra, umboði stjórnmálaflokkanna í sveitarstjórnum, til þess að þetta mál verði leyst. Það er óþolandi að skólastarf sé lengur í uppnámi. Ég vil benda á að þrátt fyrir góðan vilja hæstv. menntamálaráðherra til að bæta upp það sem tapast hefur, og sem ég þakka fyrir, verðum við að hafa í huga að vinnuþol nemenda er takmarkað. Nemendur eru ekki eitthvert ílát sem hægt er að troða í þangað til út úr flæðir. Það verður að gæta þess að því lengri sem tíminn verður, þeim mun erfiðara verður að bæta þeim hann upp. Kannski er orðið of langt um liðið til að skaðinn verður bættur, a.m.k. ekki á einum vetri. Þetta þarf að hafa í huga.

Ég vil ítreka það og beina til allra flokka hér að menn beiti áhrifum sínum í sveitarstjórnum landsins til að þetta verði leyst hið allra fyrsta þar sem lagasetning sú sem gerð var nú fyrir helgi dugði ekki til, og það sýndi sig.