Afleiðingar verkfalls kennara

Mánudaginn 15. nóvember 2004, kl. 15:12:05 (1455)


131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:12]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég vænti þess að allir hv. þm. geti sammælst um að þetta mál verði best leyst með því að fara að lögum, í þessu máli sem öðrum. Það liggur fyrir að Alþingi Íslendinga hefur sett ramma um málið. Það kann að vera að ekki líki öllum þau lög en það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að allir virði lög í landinu. Enginn hefur tekið umboð af samningsnefndunum. Þær halda því. Þær eru að ræða saman. Í gærkvöldi kom fram tilboð hjá ríkissáttasemjara um að greiða bæði eingreiðslu og byrjunarhækkun. Þetta mál verður ekki leyst nema á grundvelli laga og ég vænti þess að allir hv. þm. geti hvatt deiluaðila til þess að starfið í skólunum hefjist og að farið verði að þeim lögum sem hafa verið sett í landinu.