Afleiðingar verkfalls kennara

Mánudaginn 15. nóvember 2004, kl. 15:23:13 (1461)


131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:23]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það síðasta sem við þurfum á að halda nú er að menn komi upp í þessa pontu og reyni að slá pólitískar keilur, innihaldslausar með öllu.

Að sjálfsögðu hefur það fyrir löngu komið fram í máli mínu að við erum þegar byrjað að vinna að því hvernig við ætlum með markvissum hætti að bæta börnum þessa lands upp þann tíma sem þau hafa glatað í skólanum vegna þess verkfalls sem hefur verið í samfélaginu. Að sjálfsögðu er sú vinna löngu hafin, en hún verður unnin og er unnin í samvinnu við sveitarfélögin. Þannig eru líka lögin í landinu svo menn hafi það á hreinu. Sú vinna á sér stað og hún er á fullu um þessar mundir.

Ég vil sérstaklega geta þess að stjórnarandstaðan hefur sagt, og kom það m.a. fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að enn og aftur væri eina lausnin, til þess að koma til móts við kennara, að bæta sveitarfélögunum upp fjárhagstjónið. (Gripið fram í.)

Ég hef lengi spurt að því og velt fyrir mér hvers vegna hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar með alla sína félaga í sveitarstjórnum landsins hafa ekki talað við þá og spurt þá af hverju þeir samþykktu ekki tillögur KHÍ til skammtímasamnings á sínum tíma svo að sveitarfélögunum gæfist tóm til að ræða við ríkið og gera upp sín á milli. Nei, það spyr enginn í dag af hverju sveitarfélögin samþykktu ekki skammtímasamninginn á sínum tíma til þess að þeim gæfist tóm til að gera upp á milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég vil ítreka það sem hefur komið hér fram, að sjálfsögðu ganga allir út frá því að kennarar sem aðrir borgarar landsins fari að lögum. Ég bið þess engu að síður, í ljósi þess ástands sem hefur verið í samfélaginu að undanförnu, í ljósi þeirrar lagasetningar sem var ekki skásti kosturinn í stöðunni, að menn sýni stillingu og ákveðinn skilning á því ástandi sem kom upp í samfélaginu í dag. (ÖJ: Það er nú erfitt þegar hallað er réttu máli.)