Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 19:14:01 (1906)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[19:14]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er nú nokkuð liðið síðan ég og hæstv. menntamálaráðherra lukum námi og þess vegna er hægt að gera lítið úr þeim tölum sem hér eru uppi með því að reikna þær sem 1.400 kr. á mánuði eða sem 45–47 kr. á dag, ef hæstv. menntamálaráðherra vill. Ég tel að 32.500 kr. fyrir námsmann sé töluverð upphæð. Mig minnir að sú upphæð, reiknuð aftur í tímann, hafi verið tala sem maður horfði í á sínum tíma. Þegar hún hækkar svo um 40%, í 45 þús. kr., þá er hún orðinn verulegur baggi. En það er ekki bara einu sinni sem þetta gjald er greitt, það er greitt á hverju ári þannig að við skulum ekki gera lítið úr því.

Ég þakka svo hæstv. menntamálaráðherra fyrir að minna mig á að ég ætlaði líka að tala um óskir ríkisháskólanna vegna þess að þegar maður sem flytur frumvarp á Alþingi, þingmaður eða ráðherra, fullyrðir í greinargerð að eitthvað sé einhvern veginn verður hann að geta staðið við það. Hann verður að geta sýnt fram á annaðhvort skriflega eða með einhvers konar vitnaleiðslum að það sé svo. Og það sem hæstv. ráðherra hefur sagt um þetta er að hún hafi heyrt það upp úr háskólarektor, þ.e. rektor Háskóla Íslands, að hann hafi beinlínis óskað eftir þessari hækkun, í 45 þús. kr. Ég efa það ekki og er auðvelt að spyrja viðkomandi rektor að því. En ég endurtek spurninguna: Var það þannig að rektor Kennaraháskólans og skólameistari Háskólans á Akureyri, að þeir yfirmenn hafi líka beðið um þessa upphæð? Ég vil biðja menntamálaráðherra að svara því hér og nú hvort þeir hafi gert það og síðan er hægt að athuga hvernig það passar við það sem þeir segja. Það stendur hér, forseti, í öllum þremur frumvörpunum „Er það í samræmi við óskir ríkisháskólanna …“ og það er eðlilegt að biðja hæstv. menntamálaráðherra um að svara því hvernig þessar óskir komu fram og hverjir báru þær fram.