Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 16:04:11 (1955)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:04]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er búin að vera fróðleg umræða. Í hnotskurn snýst málið um það að ríkisstjórnin ræður hér meiri hluta þings, setur fram stefnu sína og mun sjálfsagt ná henni fram, enda hefur reynslan verið sú að ríkisstjórnin hefur sjaldnast hlustað á rök stjórnarandstöðunnar í þeim málum sem snúa að sköttum og útfærslu þeirra. Það virðist vera grundvallarágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna allra um það hvernig eigi að nota skattkerfið, m.a. til þess að styrkja afkomumöguleika og stöðu þeirra sem hafa lægstar tekjur í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin hlustar sem sagt ekki á rök stjórnarandastöðunnar um það að hugsanlega megi útfæra þær tillögur sem ríkisstjórnin er með í skattamálum öðruvísi en gert er í frumvarpinu sem við ræðum hér.

Þó að hér hafi verið eytt nokkuð löngum tíma í rökræður af hálfu stjórnarandstöðunnar og ég muni nú einhverjum mínútum bæta þar við, þó að ekki verði það mjög langt, á ég satt að segja ekki von á að það muni hafa mikil áhrif til þess að ríkisstjórnin hugsi sig um varðandi framsetningu á þeirri stefnu sem hér er boðuð í skattalækkunum og aðgerðum í fjármálum.

Ég sagði í örstuttu andsvari að út af fyrir sig gæti sá sem hér stendur og minn flokkur tekið undir þau sjónarmið sem sett eru fram fyrir seinni hluta þessa kjörtímabils varðandi barnabætur og það sem snýr að barnafólki. Ég hefði hins vegar talið eðlilegt að þær hefðu komið til framkvæmda fyrr og þá jafnar yfir þetta ferli. Að því gefnu að ríkisstjórnin hlusti hvorki á rök mín né annarra í stjórnarandstöðunni um að útfæra megi þá prósentulækkun sem á að koma á næsta ári til tekjujöfnunar og meira réttlætis með því að horfa frekar til hækkunar á persónuafslætti sem mundi hækka skattleysismörk meira, þ.e. þeir 4 milljarðar sem gert er ráð fyrir að það kosti á næsta ári væru notaðir til þess að hækka skattleysismörkin, á ég ekki von á því að ríkisstjórnin taki undir málflutning okkar. Miðað við það að ríkisstjórnin keyri þetta algjörlega fram eins og það hefur verið sett fram af hálfu hennar, og hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir, hefði ég a.m.k. viljað benda á að full ástæða væri til að barnabæturnar væru öðruvísi upp settar, þ.e. breytingar á þeim sem eiga að verða að mestum hluta á árunum 2006 og 2007, en er í þessu fruvmarpi.

Það hefði auðvitað verið til mótvægis við útfærsluna á tekjuskattslækkuninni, 1% á næsta ári, 1% árið 2006 og síðan 2% árið 2007, ef barnabæturnar og breytingar á þeim hefðu komið strax til framkvæmda á næsta ári og forgangsröðunin kannski verið sú að 50% yrðu látin koma til framkvæmda á næsta ári, 30% á árinu 2006 og 20% á árinu 2007. Það væri dálítið til mótvægis við þá uppsetningu sem er á tekjuskattshliðinni að þessu leyti þar sem því er ekkert á móti mælt að prósentulækkun í tekjuskattinum færir þeim sem eru með hærri tekjurnar mun meiri tekjur í krónutölu en þeim sem hafa lægri tekjurnar og meiri byrði. Þetta er auðvitað útfærsluatriði og menn þurfa að skoða það.

Við í mínum flokki teljum hins vegar að það hefði verið mun gæfulegri leið að láta þá fjármuni sem ætlað er að nota til skattalækkana á næsta ári renna yfir í persónuafsláttinn og hækka þar af leiðandi skattleysismörkin. Það hefði þýtt að á næsta ári hefðu þær breytingar leitt til þess að launþegar allir, milljón króna maðurinn sem 120 þús. króna maðurinn eða hvað við viljum miða við, hefðu fengið svipaða krónutölu í hærri rauntekjum. Það hefði leitt til jöfnuðar. Ég hefði talið eðlilegt hlutverk í þessum skattalagaútfærslum að reyna að laga tekjur þeirra sem hafa þær lægstar í þessu þjóðfélagi, laga rauntekjur þeirra með því að hækka skattleysismörkin. Það hefði verið auðvelt ef til þess hefði staðið vilji en það er því miður ekki framsetningin í þessu frumvarpi.

Ríkisstjórnin hefur valið að fara þá leið að lækka tekjuskattinn um 1% á árinu 2005, 1% 2006 og síðan um 2% á árinu 2007. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar að koma upp í pontu og segja að menn megi ekki tala um breytingarnar á hátekjuskattinum af því að það séu lög. Hvers konar bull er þetta? Auðvitað tala menn um það lagaumhverfi sem við erum í og sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Þetta er allt hluti af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti hér ágætlega áðan sem þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið að berjast fyrir.

Ég hef marglýst því yfir að ég teldi það ekki áherslumál varðandi skattalagabreytingar að lækka sérstaklega tekjuskatt á þeim sem hafa yfir 450 þús. kr. á mánuði eins og gert er núna með áframhaldandi niðurfellingu á hátekjuskattinum. Hann mun lækka úr 4% á þessu ári í 2% á næsta ári og síðan hverfa algjörlega. Ég hefði talið miklu nær að stuðla að auknum jöfnuði með því að horfa til þess að nota skattkerfið til að jafna tekjur fólks í þessu þjóðfélagi.

Það er að mínu viti okkur til skammar að þeir sem hafa hér allægstu tekjurnar skuli greiða skatta. Það ætti ekki að vera svo, enda eru þeir með tekjur undir því sem talið er eðlilegt til framfærslu. Það er heldur ekki eðlilegt að ellilífeyrisþegar greiði skatta af bótunum, svo dæmi sé tekið.

Með því að hækka persónuafsláttinn og hækka þar af leiðandi skattleysismörkin hefði verið hægt að ná þeim markmiðum að lægstu tekjuhóparnir og þeir sem eru á bótum í þjóðfélagi okkar, hvort sem við köllum það ellilífeyrisbætur eða örorkubætur, greiddu almennt ekki tekjuskatta. Það hlýtur líka að vera svo, hæstv. forseti, að þegar stefnan er mótuð á hv. Alþingi um það hvað þessar bætur eigi að vera hljótum við að verða að taka tillit til þess að bæturnar eigi að lágmarki að duga til þess að fólk geti skrimt. Það getur varla verið að við hér á hv. Alþingi tökum ákvörðun um að hafa bæturnar lægri en það.

Hvers vegna er þá fólk látið greiða tekjuskatt af slíkum upphæðum? Það fæ ég hreinlega ekki skilið. Ég átta mig ekki á því hvers vegna hæstv. ríkisstjórn vill ekki útfæra breytingarnar í þá veru að þeir sem lægri hafi tekjurnar fái meiri lagfæringu en gert er með því að fara hér í prósentulækkun á tekjuskattinum.

Það er ekki hægt að villa þjóðinni sýn með því að setja þessar tillögur fram í prósentuformi. Fólk veit meira í þessu þjóðfélagi en svo að slíkt blekki nokkurn mann. Það er algjörlega rétt sem hér hefur verið sagt að maðurinn sem hefur milljón kr. í tekjur á mánuði fær miklu fleiri krónur í vasa sinn eftir þessar skattalagabreytingar en lágtekjumaðurinn.

Allt er þetta samspil ákveðinna breytna og auðvitað mun prósentulækkunin hafa einhver áhrif á það hvað við köllum frítekjumark eða lágmarksfrítekjurnar og skattleysismörk. En ég og minn flokkur settum það fram í okkar kosningabaráttu að við teldum að það væri rétt að horfa til þess á næsta kjörtímabili að hífa upp persónuafsláttinn og þar af leiðandi skattleysismörkin. Menn geta svo deilt um það í hversu miklum áföngum það hefði átt að vera. En ég er eindregið þeirrar skoðunar að þeir 4 milljarðar sem á að nota á næsta ári í þessa skattkerfisbreytingu hefðu átt að koma beint inn í persónuafsláttinn og hækka hann.

Það er vissulega svo og eðlilegt að stjórnmálaflokkar, hverjir svo sem þeir eru, vinni að því að ná fram þeim stefnumálum sem þeir hafa kynnt sem kosningamál og að flokkarnir reyni að standa við loforð sín. Það eru ríkisstjórnarflokkarnir að gera með því sem hér er verið að boða. Það breytir hins vegar ekki því að ég tel að sú útfærsla sem hér er verið að leggja upp með sé óréttlát gagnvart mjög stórum hópi Íslendinga og að ekki sé á það bætandi að draga í sundur enn frekar með þeim sem hafa hærri tekjurnar í þjóðfélaginu og þeim sem hafa lægri tekjurnar. Ég tel að þar eigi að stuðla frekar að jöfnuði.

Það er ljóst að draga mun til þess að beita þurfi ákveðnu aðhaldi. Það er boðað í fjárlagafrumvarpinu og hefur verið boðað m.a. með niðurskurði á samgöngubótum og að þar verði skorið verulega niður. Ég hef áður sagt það í þessum ræðustól að þenslunni sem menn eru hér oft að ræða væri misskipt á landi hér. Ég hef ekki orðið mjög var við þá þenslu sem menn eru að forðast í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæminu, enda hafa menn rætt það í fleiri flokkum en mínum hvað sé til ráða á því landsvæði. Okkur í Norðvesturkjördæminu mun auðvitað finnast að harkalega verði að okkur vegið ef sú þensla sem sums staðar mælist hér á landi mun bitna harkalega á afar nauðsynlegum framkvæmdum þar. En það er annað mál sem við getum rætt nánar við fjárlagaútfærsluna síðar.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér að tekjuaukinn yrði varla allur notaður í eyðslu. Það er kannski þess vegna sem útfærslan er með þessu lagi, að þetta sé látið koma í meira mæli fram hjá þeim sem hafa hæstu tekjurnar og þá hugsað til þess að þeir sem ekki þurfa nauðsynlega á þessu að halda geti bætt við sig bankabókunum eða lagt þetta fyrir. Það kann vel að vera. En ég ítreka þá skoðun okkar í Frjálslynda flokknum að við viljum nota skattkerfið til þess að auka jöfnuð í þjóðfélaginu. Við teljum að það hefði átt að vera markmið við þessar skattalagabreytingar. Það er ekki ásættanlegt að mínu viti að þeir sem hæstar hafa tekjurnar í þjóðfélaginu fái tífalt fleiri krónur í sinn vasa en þeir sem lægstar hafa tekjurnar við þessar breytingar. Það er markmið sem ég vil ekki skrifa upp á.

Ég sagði það í upphafi máls míns að því miður réði ríkisstjórnin hér málum og niðurstöðu á hv. Alþingi og að sjaldnast væri hlustað á rök stjórnarandstöðunnar í einhverjum málum. Ég hygg að það muni nú því miður verða niðurstaðan í þessu máli að þrátt fyrir það sem hér hefur verið fært fram af stjórnarandstöðunni og þrátt fyrir það sem menn hafa rætt varðandi það að útfærslan nýtist betur hátekjufólkinu en lágtekjufólkinu þá muni ríkisstjórnin ekki hlusta á þau rök og ekki fallast á neinar breytingar á þessum frumvörpum. Hvers vegna dreg ég þá ályktun? Það er vegna þess að það hefur jafnan verið svo að þó svo að stjórnarandstaðan hafi komið með ágætisábendingar og tillögur í málum sem hafa snúið að frumvörpum ríkisstjórnarinnar, sérstaklega ef það snýr að fjármálum og öðru slíku, þá hefur slíkum framsetningum af hálfu stjórnarandstöðunnar yfirleitt verið stungið ofan í skúffu af stjórnarflokkunum og ekki verið tekið tillit til þeirra raka sem við höfum fært fram í málunum.

Virðulegur forseti. Hér eru stjórnarflokkarnir að uppfylla sín kosningaloforð. Þær áherslur sem við í stjórnarandstöðuflokkunum lögðum upp með í kosningabaráttunni munu ekki nást fram með því að þessu máli fáist breytt. Sennilega munum við ekki ná því fram að breyta viðhorfinu í þjóðfélaginu nema stjórnarskipti verði í landinu. Það verður sennilega niðurstaðan í þessu máli. Ég sé ekki að af undirtektum stjórnarliða við þær athugsemdir sem þegar hafa komið fram, megi merkja að til standi að breyta nokkrum sköpuðum hlut í þessu frumvarpi.

Ég hef bent á að ef það ætti nú að keyra málið fram eins og það er, óbreytt, varðandi tekjuskattsbreytinguna þá væri þó alla vega til bóta að færa barnabótakaflann fram og láta hluta af honum koma til framkvæmda þegar á næsta ári. Þá tel ég einnig rétt — og það skulu vera mín lokaorð við þessa umræðu nú — að taka meiri hlutann af lagfæringu á barnabótunum þegar á næsta ári og síðan minnsta hlutann á árinu 2007 til að örlítið meira mótvægi verði við það sem annars er verið að leggja til með þessum breytingum, þ.e. að færa þeim sem tekjuhæstir eru og hafa besta afkomuna mun fleiri krónur en hinum.