Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 14:29:24 (2161)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:29]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér hafa átt sér stað nokkur orðaskipti um forsendur fjárlaga ársins 2004 og hvaða forsendur ríkisstjórnin lagði upp með um vöxt samneyslu á því ári. Hinn gamli og glöggi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sagði að tölfræði segði sögu. Það er alveg rétt hjá honum. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004 koma fram hvaða forsendur voru lagðar til grundvallar í fjárlögum þess árs og hvaða breytingar eru gerðar í frumvarpinu til fjáraukalaga. Þar kemur fram með skýrum hætti að samneysla árið 2004 átti að vaxa um 1%. Fjáraukalögin gera ráð fyrir að hún vaxi um 1,5%. Tölfræðin segir sögu og hún segir að vöxturinn var vanáætlaður um 50%, hvorki meira né minna. Ég ætla að leyfa mér að skilja eftir frumvarp til fjáraukalaga í pontunni þegar hv. þm. kemur upp til að fara yfir þetta, þannig að hann sjái þetta svart á hvítu. Ég ætla að biðja hann um að skilja það eftir þegar ég kem upp í seinna andsvar mitt.