Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 15:58:56 (2177)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:58]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að tala hlutina niður. Ég er að tala um hlutina eins og þeir eru og blasa við öllum sem horfa raunsætt á málið. Ef við tölum um Síldarminjasafnið er gott að rifja það upp að þegar það bað um 1 tonn eða 1½ tonn til að fá að veiða var það ekki hægt vegna þess að kvótakerfið er svo heilagt hjá Framsóknarflokknum að þeir eru tilbúnir að grafa meira að segja sína eigin heimabæi niður. (Gripið fram í.) Það sem við höfum bent á og mun örugglega verða Siglufirði og öllum sjávarútvegsbyggðum landsins til bjargar er að opna atvinnugreinina.

Siglfirðingar lifa ekkert á snjóflóðavörnum. Hv. þingmaður ætti að fara að gera sér grein fyrir því. Þeir lifa á því að sækja sjóinn. Þannig hefur atvinnulífið verið á Siglufirði og ég tel að hv. þingmaður ætti að fara að kynna sér á hverju landsbyggðin lifir. Hún lifir ekki á snjóflóðavörnum eða söfnum, heldur þarf að fara að opna fyrir nýliðun í atvinnugreinum landsbyggðarinnar.