Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 22:02:08 (2264)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[22:02]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Já, við erum hér að ræða fjárlagafrumvarpið við 2. umr. Ég er að hugsa um að byrja á því að fara yfir þau álit sem ég á aðild að, álit sem send hafa verið fjárlaganefnd frá annars vegar menntamálanefnd og hins vegar umhverfisnefnd en í þeim tveim nefndum á ég sæti.

Kannski áður en ég byrja að fara yfir þau álit langar mig til að segja að vinnubrögðin við þetta fjárlagafrumvarp eru að nokkru leyti önnur en verið hafa undanfarin ár. Þar á ég fyrst og fremst við það að umsóknir frá félagasamtökum, stofnunum, félögum og einkaaðilum sem hafa komið til fjárlaganefndar og heyra undir viðkomandi fagnefndir hafa ekki farið þá leið sem þessar umsóknir hafa farið hingað til. Með því er ég að segja að menntamálanefnd Alþingis hefur ekki fengið að sjá þær umsóknir sem fjárlaganefnd hefur fjallað um varðandi menningarstarf, uppbyggingu gamalla húsa á landsbyggðinni, endurbyggingu eikarbáta, svo að eitthvað sé nefnt, ekki heldur neinar umsóknir frá félagasamtökum sem hingað til hafa allar ratað inn á borð þessara fagnefnda. Menntamálanefnd hefur hingað til getað haft mjög góða yfirsýn yfir það sem er að gerast hjá félagasamtökum, einkaaðilum og í menningarhéruðum úti um allt land en í þetta sinn hefur menntamálanefnd ekki þá yfirsýn sem ég tel nauðsynlega.

Hið sama má segja um umhverfisnefnd. Við höfum ekki lengur yfirsýn. Með þessu háttalagi hefur umhverfisnefnd ekki yfirsýn yfir það hvernig stöðu frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfismála er t.d. háttað, hvernig fjárveitingar til þeirra hafa þróast eða hverjar beiðnir þeirra hafa verið þetta árið. Ég tel það afar bagalegt, hæstv. forseti, og tel þetta hafa gert hv. þingmönnum sem starfa í fagnefndunum afar erfitt að gera sér grein fyrir því sem hér liggur á borðum okkar í formi breytingartillagna frá meiri hluta fjárlaganefndar.

Ég ætla annars að byrja á áliti sem fylgir bæði nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar og líka nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Þetta er álit sem ég rita ein undir og er frá minni hluta umhverfisnefndar. Þar gagnrýni ég það að í þetta sinn láðist að kalla til umhverfisnefndarinnar forstöðumenn stofnana sem heyra undir málasvið nefndarinnar og úr því að ekki reyndist tími til að kalla þessa forstöðumenn fyrir nefndina óskaði ég eftir því að þær helstu stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið sendu umhverfisnefnd minnisblöð sem gæfu okkur einhverjar upplýsingar um það hvernig fjármálum þeirra væri háttað og hver staða stofnananna væri. Við fengum minnisblöð frá þeim stofnunum sem ég óskaði eftir, þ.e. frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Skipulagsstofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands og Samtökum náttúrustofa. Álit mitt byggir á minnisblöðum frá þessum stofnunum.

Það kemur auðvitað í ljós þegar minnisblöðin eru skoðuð að þessar stofnanir eiga allar við umtalsverðan rekstrarvanda að etja. Ég tel afar nauðsynlegt að fjárveitingavaldið taki afstöðu til þeirra upplýsinga sem því hafa verið gefnar við skoðun þessara mála og við meðferð fjárlaganefndarinnar.

Því miður kemur ekkert fram í breytingartillögum frá meiri hluta nefndarinnar sem kveikir einhverja von í brjósti mínu um það að staðan verði leiðrétt hjá þessum stofnunum.

Ég tel í fyrsta lagi Náttúrufræðistofnun Íslands afar illa stadda. Það sannar stjórnsýsluendurskoðun sem Ríkisendurskoðun er að láta framkvæma á stofnuninni að beiðni hennar sjálfrar. Fjárhagsstaða hennar er afar vel rakin í nýrri mjög svo veglegri ársskýrslu stofnunarinnar, enda hélt hún ársfund sinn fyrir einungis örfáum dögum. Í ávarpi í þessari ársskýrslu rekur forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands þennan fjárhagsvanda og segir m.a., með leyfi forseta:

„Nú er svo komið að stofnunin er ekki aðeins með verulegan uppsafnaðan fjárhagsvanda, heldur er hún einnig með of veikan fjárhagsgrunn fyrir þá skertu starfsemi sem í gangi er. Starfsfólki hefur fækkað það mikið og fjárhagur er orðinn svo bágur að stofnunin nær ekki lengur að sinna lögbundnum verkefnum sínum með fullnægjandi hætti.“

Hæstv. forseti. Það er auðvitað grafalvarlegt þegar stofnun á borð við Náttúrufræðistofnun Íslands, sem er einn af máttarstólpum náttúruverndar á Íslandi, þarf að syngja slíkan sultarsöng í ársskýrslu sinni. Það er alveg með ólíkindum að ekki skuli vera hægt að koma til móts við þessar grunnþarfir stofnunarinnar, stofnunar sem við þó erum að mæra hér þegar ber á góma málefni eins og náttúruverndaráætlun, gerð náttúrukorta eða vistfræðikorta. Meira að segja stóriðjufíklarnir í ríkisstjórninni tala stöðugt um vöktun á þessu og hinu hvað varðar náttúru og áhrif framkvæmda mannsins á náttúruna. Og hver á að annast þessa vöktun? Það er að stórum hluta Náttúrufræðistofnun Íslands en stofnunin fær bara enga fjármuni til að sinna þessum verkefnum.

Það er svo illa komið að ársverkum á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fækkað svo að þau verða færri á þessu ári, 2004, en þau voru fyrir fimm árum. Hvað segir þetta um áherslur ríkisstjórnarinnar um málefnin sem heyra undir þessa virðulegu stofnun?

Það er gott og blessað og virkilega ber að fagna því að Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar skyldi hafa fengið úrbætur í húsnæðismálum. Það var sannarlega orðið tímabært. Því er fagnað í ársskýrslu stofnunarinnar en að sama skapi er því ekki fagnað hvernig ástandið er í Reykjavíkursetrinu. Það hefur verið í bráðabirgðahúsnæði í u.þ.b. hálfa öld. Húsnæðismálasaga Náttúrufræðistofnunar er náttúrlega orðin svo sorgleg að það er eiginlega ekki hægt að rekja hana. Hún hefur oft verið rakin hér úr þessum stóli og á málþingum og ársfundum stofnunarinnar þannig að það er ekki þörf á að lengja umræðuna hér með því að vera að fara frekar yfir hana en í sannleika sagt er ástandið svo bágborið að ekki verður lengur unað við þetta. Ríkisstjórn sem telur sig vera þess umkomna að hæla sér og hreykja af fjölgun friðlýstra svæða, stækkun þjóðgarða og guð veit hvað á ekki að koma svona fram við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Hún á heldur ekki að koma svona fram eins og hún gerir við Umhverfisstofnun Íslands sem er annar máttarstólpi undir náttúruvernd á Íslandi. Það er nákvæmlega sama sagan þar upp á teningnum. Umhverfisstofnun sendir okkur minnisblað. Í því kemur fram að fjárlaganefnd hafi beinlínis láðst að reikna með fjárveitingu vegna verndaráætlunar fyrir Mývatnssveit sem þó var gert ráð fyrir í lögum nr. 97/2004, sem sagt í lögum frá þessu ári, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Hv. þingmönnum hér í þessum sal ætti að vera í fersku minni sú lagabreyting sem við gerðum sl. vor og við vissum það öll sem sitjum í þessum sal að þessum breytingum áttu að fylgja fjármunir. Þeir komu ekki í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þeir komu ekki í breytingartillögum meiri hlutans við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið.

Hæstv. forseti. Þetta bara verður að leiðrétta. Þetta eru náttúrlega mistök og ekki hægt að flokka það undir neitt annað því að við erum nýbúin að samþykkja þessa breytingu á lögunum.

Einnig skortir fjárveitingu til Umhverfisstofnunar vegna dýraverndarmála. Ég gerði það að umtalsefni hér í ræðu minni við fjárlagaumræðuna fyrir ári og óskaði eftir því að hæstv. umhverfisráðherra beitti sér fyrir því að í fjárlögum fyrir 2005 yrðu þessi mál leiðrétt og dýraverndarmálum yrði komið í það horf sem sómi væri að innan Umhverfisstofnunar. Það hefur heldur ekki verið gert. Enn eru veigamiklir hlutir látnir dankast í þessum málaflokki.

Það er líka nauðsynlegt að ríkisstjórnin standi við stóru orðin um átak í uppbyggingu þjóðgarða og friðlýstra svæða en það er auðvitað Umhverfisstofnun sem ber hitann og þungann af því öllu saman og nauðsynlegt að henni sé gert kleift að standa þannig að málum að sómi sé að.

Náttúruverndaráætlunin okkar, nýsamþykkta, útheimtir líka talsvert aukin fjárframlög en þeirra sér ekki stað í fjárlagafrumvarpinu svo að nokkru nemi. Doðranturinn fíni, náttúruverndaráætlunin sem við samþykktum hér nýverið, kemur til með að verða rykfallið plagg uppi í hillum Umhverfisstofnunar ef ekki verður breyting á.

Skipulagsstofnun sendi umhverfisnefnd líka minnisblað. Þar eru hlutir eins og óraunhæf sértekjukrafa sem reyndar má líka nefna hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Ég skil ekki af hverju fjárveitingavaldið þarf alltaf að búa til óraunhæfar sértekjukröfur á stofnanir sem er algerlega fyrirséð hversu mikla möguleika eiga á að afla sér sértekna. Algerlega fyrirséð. Samt leyfir fjármálaráðuneytið sér, og eflaust með samþykki umhverfisráðuneytisins, að búa til sértekjukröfur sem eru út úr öllu korti og standast enga skoðun í raunveruleikanum. Þetta á eins og ég segi bæði við um Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Það verður líka að hafa í huga að stofnanir eins og Skipulagsstofnun geta alls ekki haft nein áhrif á sértekjur sínar. Það er ekki eins og þessar stofnanir geti bara framleitt einhverjar vörur og selt á markaði. Það er ekki um það að ræða. Eins og ég segi, þetta er fullkomlega fyrirséð og algerlega vitað í dag að sértekjukrafan á báðum þessum stofnunum er óraunhæf og að undir þeim kröfum geta stofnanirnar ekki staðið. Það þýðir að auknir fjármunir verða að koma til beint af fjárlögum.

Veðurstofa Íslands er þannig sett að veðurþjónustan og úrvinnsla veðurgagna er komin niður fyrir ásættanlegt lágmark að mati forstöðumanns stofnunarinnar. Það er auðvitað ekki tilhlýðilegt að maður þurfi að lesa þannig umsögn frá stofnun sem er að fá nýja lagaumgjörð. Hæstv. umhverfisráðherra fór fögrum orðum um gildi þessarar stofnunar í ræðu fyrir örskömmu á Alþingi og svo eru efndirnar í fjárlögunum þær sem við getum litið hér.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um náttúrustofurnar, hæstv. forseti. Þar tel ég að Alþingi fari á svig við sína lögbundnu skyldu en þessar náttúrustofur starfa samkvæmt lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Í 10. gr. þeirra laga segir hvorki meira né minna en það að framlag ríkisins til hverrar stofu — þó að þær séu á ábyrgð sveitarfélaganna hvað varðar rekstur er framlag ríkisins samkvæmt lögunum fjárhæð „sem nemur launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri fjárhæð sem er allt að jafnhá þeirri fjárhæð“, þ.e. launaupphæðinni.

Hvernig er þetta efnt? Frumvarpið gerir ráð fyrir 7,9 millj. á hverja náttúrustofu, þ.e. tæpum 4 millj. þá í laun og líka tæpum 4 millj. í rekstur. Nú segja stofurnar að 4 millj. nái sannarlega ekki að dekka laun og launatengd gjöld vegna forstöðumanns, það vanti 3,8 millj. kr. upp á að framlagið til hverrar stofu standi undir því sem því er ætlað samkvæmt lögunum. Hver einasta stofa þarf að verða af tæpum 4 millj. og þar sniðgengur ríkisstjórnin lög sem hér hafa verið sett, á hinu háa Alþingi. Samkvæmt lögum ætti framlagið til hverrar náttúrustofu að vera 11,7 millj. en ekki 7,9 eins og það er. Ekki er gerð nein tilraun milli umræðna til að breyta þessu þó að búið sé að benda fjárlaganefnd skýrt og skorinort á að hér sé verið að fara á svig við lög.

Í stað þess bætir fjárlaganefnd 5 millj. á hverja stofu í sérverkefni sem er svo sem gott og gilt og þessar stofur þurfa auðvitað að hafa stuðning hins opinbera til að taka að sér ákveðin verkefni, hver í sinni heimabyggð. Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum hér, virðulegi forseti, hversu atvinnuskapandi þau verkefni eru sem þessar náttúrustofur standa fyrir. Þetta eru uppsprettur atvinnutækifæra í heimabyggð, þær eru í landshlutunum öllum og þeim hefur fjölgað. Það verður bara að sjá til þess að þær fái byr í vængina og geti staðið þannig að málum að sómi sé að.

Nokkur orð um safnliðina sem heyra undir umhverfisráðuneytið í fjárlögunum. Það er afar kúnstugt, virðulegi forseti, að fjárlaganefndin skrifaði tvö bréf til umhverfisnefndar í október, annað dagsett 12. október og hitt 18. október. Fyrra bréfið var til að tilkynna umhverfisnefnd að óskað væri eftir því að hún gerði tillögur um skiptingu safnliða sem heyrðu undir ráðuneyti umhverfismála en hið síðara, sem var ritað sex dögum síðar, tilkynnti nefndinni að fjárlaganefnd hefði skipt um skoðun og nú væri ekki óskað eftir því að umhverfisnefnd gerði tillögu um skiptingu safnliðanna. Engin rök voru færð í þessu síðara bréfi fyrir ákvörðuninni. Engin rök. Umhverfisnefnd fékk ekkert að vita.

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta finnst mér þessi hringlandaháttur vera til marks um það að fjárlaganefnd sé í miklu ráðaleysi í þessari umsýslu sinni. Ég vil minna á að í 25. gr. þingskapalaga er þess getið að fjárlaganefnd geti vísað verkefnum til fastanefndar. Það fyrirkomulag hefur viðgengist hér á Alþingi allt síðasta kjörtímabil, ég sit hér mitt sjötta þing þannig að ég get talað af einhverri reynslu um þetta. Ég veit til þess að þetta fyrirkomulag var tekið meðvitað upp að fyrirmynd norrænu þjóðþinganna. Íslenskum þingmönnum sem þau heimsóttu þótti þetta verklag til fyrirmyndar og vildu innleiða það hér. Það var gert með góðum rökum en þegar það var síðan afnumið voru engin rök. Ekki nokkur.

Eins og ég segi hafa fagnefndirnar sem sagt fengið til umsagnar þær umsóknir sem fjárlaganefnd berast um stuðning við félög og einstaklinga á viðkomandi málasviði en nú er horfið frá því. Það gildir um aðrar nefndir þingsins líka eins og ég gat um í upphafi máls míns, t.d. hjá menntamálanefnd sem hefur haft umfangsmikið starf á hendi hvað þetta varðar. Ég vil meina að þetta geri störf nefndanna fátækari því að ég tel okkur þingmenn sem störfum á ákveðnum málasviðum missa yfirsýn þegar við missum þennan hluta starfsins út af borðum okkar.

Ég mæli hins vegar með því í grunninn að þeim úthlutunum af safnliðum sem hafa verið þær úthlutanir sem fagnefndirnar hafa haft umsagnarrétt yfir — ég hef talað fyrir því áður og tala fyrir því enn að þessum úthlutunum verði komið í einhvern formlegri farveg en þann að fjárlaganefnd ein sýsli um þetta og útdeili peningum á safnliðum án þess að það séu nokkrar kríteríur eða nokkur fagleg skoðun á verkefnunum sem um ræðir. Ég tel að hér þurfi að gera mikla bragarbót til þess að vel megi fara. Það væri eðlilegt að stofnaðir yrðu einhvers konar sjóðir með faglegri yfirstjórn sem mundi þá auglýsa eftir styrkjum, einu sinni til tvisvar á ári, þannig að þeir aðilar sem hafa með höndum verkefni sem gætu heyrt undir þær kríteríur sem settar yrðu gætu sótt um. Þeir vita þá hverjar reglurnar eru sem sjóðirnir starfa eftir, vita um úthlutanirnar, hvenær þær færu fram, og þannig væri hægt að tryggja eftir föngum að öllum væri ljós framgangsmáti styrkveitinganna. Þar með ættu allir jafnan aðgang að fjármununum og jafnan möguleika á að hreppa stuðning til þeirra verkefna sem væri verið að vinna að í það og það skiptið.

Einnig mætti hugsa sér, virðulegi forseti, að hluti af því fé sem fjárlaganefnd hefur úthlutað rynni óskipt til stofnana á viðkomandi sviði, t.d. vil ég nefna fjármunina sem fara í að endurgera gömul hús eða gamla eikarbáta. Þeir gætu þá farið beint í gegnum húsafriðunarnefnd. Mér er kunnugt um að eftir daginn í dag, eftir að ég hef lesið allar breytingartillögurnar frá meiri hluta fjárlaganefndar, hefur einmitt verið haft samstarf við húsafriðunarnefnd með alla þá styrki sem varða verndun gamalla húsa. Er það vel. Hins vegar er spurning hvort sá framgangsmáti, að þetta sé gert á borði fjárlaganefndar, sé endilega sá eini rétti.

Það má segja að það sé skref aftur á bak í þessari vinnu að fagnefndirnar skuli sviptar umsagnarréttinum. Ég tel það kannski sérstaklega vera í menntamálanefnd þar sem umfang þessa starfs hefur verið talsvert mikið. Að mínu mati var afar bagalegt að tapa yfirsýninni sem glataðist við það.

Ég rita líka, hæstv. forseti, undir sérálitið, þ.e. minnihlutaálit í menntamálanefnd. Það heitir í gögnum álit frá 2. minni hluta menntamálanefndar. Meiri hlutinn náði ekki að vera meiri hluti þegar álitin voru afgreidd frá nefndinni þannig að 1. minni hluti og 2. minni hluti menntamálanefndar skiluðu álitum. Hv. þm. Jón Bjarnason fór í sínu máli yfir ákveðna þætti í áliti sínu þannig að ég tíunda það ekki svo nákvæmlega. Þar á ég fyrst og fremst við tillögur sem koma frá stjórnarandstöðunni núna á þingskjölum sem lúta að breytingum á framlögum til framhaldsskólanna og framlögum til opinberu háskólanna.

Það er afar mikilvægt, hæstv. forseti, að einhverjar skýringar komi frá stjórnarmeirihlutanum á því hvers vegna verið er að fara með þeim hætti — ég vil segja að það sé ákveðin aðför í gangi að bæði framhaldsskólunum og hinum opinberu háskólum. Það hefur verið ágætlega rökstutt í ræðum þeirra hv. stjórnarandstöðuþingmanna sem sitja í fjárlaganefndinni og hafa talað hér í dag og það er eins vel rökstutt í þeim gögnum sem liggja hér að baki og í því áliti sem ég hef nefnt.

Ásamt mér rita undir þetta álit 2. minni hluta í menntamálanefnd hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir og Mörður Árnason. Ég nýt þó nokkurrar sérstöðu í þessu áliti þar sem ég hef sérstakar athugasemdir við afgreiðslu safnliðanna. Í áliti mínu segir að mér þyki afgreiðsla safnliðanna handahófskennd og að ég telji fráleitt að hverfa aftur til þess tíma er fagnefndin var útilokuð frá því að sjá styrkumsóknir þær sem fjárlaganefnd bárust til ýmissa menningartengdra verkefna.

Ég auglýsi eftir því að ég hefði gjarnan viljað fá að fylgjast með hvernig stuðningur við verk á borð við Nýsköpunarsjóð tónlistar þróaðist, verk sem Tónskáldafélag Íslands hefur leitað eftir stuðningi við. Sömuleiðis Leikminjasafn Íslands, svo að eitthvað sé nefnt. Vitna ég þar til minna eigin orða í áliti menntamálanefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004. Þetta ráðslag fjárlaganefndarinnar er afar gagnrýnivert, alveg eins og það ráðslag að ráðuneytin skuli banna forstöðumönnum ríkisstofnana að senda fjárlaganefnd erindi eða óska eftir að koma fyrir fjárlaganefnd til að skýra stöðu stofnana sinna.

Þegar nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar er skoðað, hæstv. forseti, dett ég niður á nokkur atriði sem mig langar til að gera athugasemdir við.

Það má eiginlega ítreka þau orð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon viðhafði um tóma ráðherrabekki í sinni ræðu. Auðvitað fyndist manni eðlilegt að maður fengi að spyrja hæstv. ráðherra út úr og ég hef satt að segja talsvert margar spurningar til bæði hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra. Hvorug situr hér inni og reyndar eru ráðherrabekkirnir alveg galtómir, eins og þeir eru búnir að vera hér lengst af í dag. Það er skammarlegt að hæstv. ráðherrar skuli koma svona fram. Þetta er vinnulag sem er að versna. Þetta var ekki jafnslæmt og nú, þetta versnar orðið ár frá ári.

Ég hefði haft gaman af að spyrja bæði hæstv. menntamálaráðherra og hv. formann fjárlaganefndarinnar út í stuðning við myndlistarskóla sem hafa fengið stuðning undir liðnum Framhaldsskólar – almennt. Þar fær Myndlistarskólinn á Akureyri 2 millj. kr. hækkun til framlags. Það er fínt og ég fagna því. Það verður þó að segjast eins og er að aðrir myndlistarskólar sækja um nákvæmlega það sama. Myndlistarskólinn í Reykjavík skrifar afar sympatískt bréf til fjárlaganefndarinnar þar sem farið er yfir húsnæðismál skólans, framkvæmdir í skólanum, það hvernig kennslan hefur verið að eflast og hvernig þau hafa reynt að fjármagna aukin umsvif með hækkun skólagjalda. Svo kemur afskaplega hógvær ósk í lokin á því bréfi þar sem stjórn Myndlistarskólans í Reykjavík fer þess á leit við fjárlaganefnd Alþingis að skólanum verði veitt framlag úr ríkissjóði upp á 6,4 millj. kr., annars vegar til uppbyggingar á húsnæði skólans og hins vegar til að rétta af fjárhag fornámsdeildarinnar. Fornámsdeildin er eins og við vitum mjög mikilvæg deild til að undirbúa nemendur undir nám á háskólastigi. Úr fornámsdeild Myndlistarskólans í Reykjavík kemur fjöldinn allur af nemendum sem fer í myndlistardeildir Listaháskóla Íslands.

Ég vil fá að vita hvers vegna Myndlistarskólinn á Akureyri, sem hefur líka skrifað hógvært og huggulegt bréf, fær en ekki Myndlistarskólinn í Reykjavík. Mér finnst ekki hægt að gera svona upp á milli skóla sem eru að vinna á sama sviði, hvor í sínum landshlutanum, hafa báðir jafnmikið til síns máls og eru báðir með jafnhógværar óskir. Ég skil ekki þessa mismunun. Ég hefði viljað leggja hér spurningar fyrir a.m.k. hv. þm. Magnús Stefánsson, formann fjárlaganefndar, til að fá einhverjar skýringar á þessu. Við hv. alþingismenn megum ekki láta segja það um okkur að við förum hér í manngreinarálit.

Hæstv. forseti. Ég er alltaf að missa gögnin mín, ég bið afsökunar á því hvað mér helst illa á þeim en það eru svo mörg gögn sem mig langar til að vitna í og þau gögn sem eru að detta hér úr höndum mínum heyra líka til menntamálanefnd. Svo að þau hætti að detta ætla ég bara að taka þann hluta ræðu minnar núna.

Sá hluti ræðu minnar fjallar um húsasafn Þjóðminjasafns Íslands.

Húsasafn Þjóðminjasafnsins fær sérgreinda fjárveitingu upp á 55 millj. kr. Alþingismönnum er kannski ekki nægilega vel kunnugt um þetta safn sem þó er mikið að vöxtum og dreift úti um allt land. Þjóðminjasafnið er á bls. 87 í frumvarpinu og þar stendur að endurbætur húsa í vörslu Þjóðminjasafnsins fái 55 millj. kr. Árið 2001 var húsasafn Þjóðminjasafnsins skorið niður úr 65 millj. í 55 millj. Árið 2001 var menningarár UNESCO, menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það ár hefði fjárveitingavaldið á Íslandi auðvitað átt að hækka verulega framlagið til húsasafns Þjóðminjasafnsins en það var skorið niður um 10 millj. Þeim niðurskurði hefur verið viðhaldið þannig að húsasafn Þjóðminjasafnsins fær núna þriðja árið í röð einungis 55 millj. kr.

Á sama tíma veitir fjárlaganefnd fjárveitingar til uppbyggingar gamalla húsa vítt og breitt um landið og eins og ég sagði áðan er það vel. Þau hús sem þar eru á listanum eru öll þess verðug að fá fjármuni frá hinu opinbera en ég ætla bara að vekja athygli á því til þess að það sé alveg hreint og skýrt og hv. alþingismönnum sé það ljóst að í húsasafni Þjóðminjasafnsins eru hin eiginlegu menningarverðmæti þegar gömul hús eru annars vegar, þjóðargersemar Íslendinga. Hvaða hús eru það? Jú, það eru torfbæirnir okkar og torfkirkjurnar, hlöðnu klukknaportin og þær byggingar sem vindur og vatn eiga virkilega greiða aðkomu að, byggingar sem þurfa verulega mikið viðhald, eru dreifðar úti um allt land og veita fólki vítt og breitt um landið atvinnu.

Nú er svo komið að þessar eðlu byggingar, þær byggingar sem húsasafn Þjóðminjasafnsins hefur í vörslu sinni, grotna niður. Á meðan þessar 55 millj. eru ekki hækkaðar fara þessi hús að láta verulega á sjá. Til að menn átti sig á því hvaða hús um er að ræða get ég nefnt bara af handahófi Glaumbæ í Skagafirði, Víðimýrarkirkju, Grenjaðarstað í Aðaldal, sæluhús við Jökulsá á Fjöllum, Staðarkirkju á Reykjanesi, Vopnafjarðarhús í Árbæjarsafni, hér úti á Seltjarnarnesi er Nesstofa við Seltjörn, (Gripið fram í: Keldur.) Keldur. Svona mætti áfram telja. Það má fara vítt og breitt um landið. Sómastaðir við Reyðarfjörð. Bænahúsið á Núpsstað er nú eitt hús sem þarf á því að halda að vel sé við haldið og vel gert við. Svona mætti eins og ég segi áfram telja, hæstv. forseti. Þetta er hluti af menningargersemum okkar, meira að segja gersemar sem hefur verið haft á orði að gætu átt heima á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur verið vinsælt umræðuefni, bæði hér í þessum ræðustóli og eins hjá hæstv. ráðherrum upp á síðkastið. Við erum hreykin af því að Þingvellir skyldu hafa komist á heimsminjaskrá. Við erum hreykin af því að eiga torfbæi sem mögulega gætu átt heima á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. En þeir eiga kannski ekki þann möguleika miklu lengur ef við sinnum ekki betur en við gerum því sjálfsagða hlutverki okkar að efla húsasafn Þjóðminjasafnsins.

Til að gefa þingmönnum og þingheimi tækifæri á að gera bragarbót höfum við hv. þingmenn, ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, flutt breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þar sem við gerum ráð fyrir að endurbætur húsa í vörslu Þjóðminjasafnsins fái hækkun sem nemur 23 millj. kr. Fyrir þessari breytingartillögu er gerð grein á þskj. 451.

Sömuleiðis erum við þar með hækkun til safnasjóðsins sem hefur það lögbundna hlutverk að safnaráð á að veita til byggðasafna, minjasafna og safna og sýninga vítt og breitt um landið fjármuni eftir ákveðnum reglum. Safnasjóður er mjög merkilegur sjóður sem var stofnaður með safnalögunum. Mikil umræða var um hann þegar við fórum hér í gegnum öll safnalögin okkar fyrir einum þremur árum síðan. Ég veit að ég þarf ekki að hafa mörg orð um það við hv. þingmenn hversu mikilvægur sá sjóður er og hversu mikilvægt starf safnaráð hefur verið að vinna.

Ég vil segja að væntingar okkar sem unnum frumvörpin í menntamálanefnd til þessa safnasjóðs eru farnar að dala þar sem fjármunir til hans hafa ekki fylgt þeim væntingum sem nefndin hafði þegar safnasjóður var settur á laggirnar með þessum nýju lögum. Við gerum það að tillögu okkar, Álfheiður Ingadóttir og ég, að safnasjóður fái aukið fjármagn og það verulega. Við gerum í breytingartillögu okkar ráð fyrir að hækkunin verði 54 millj., úr 66 sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir þannig að sjóðurinn ætti þar með að hafa 120 millj. úr að spila. Það er ekki ofrausn vegna þess að þessa stundina liggja fyrir safnasjóði umsóknir upp á rúmar 200 millj. kr., allt afskaplega þörf verkefni.

Eflaust fær fjöldinn af þeim verkefnum svo sem einhvern stuðning núna í gegnum fjárlaganefnd en eins og við vitum veitir fjárlaganefnd hér yfir 200 millj. kr. í alls kyns menningartengd og safnatengd verkefni. Mér sýndist miklu skynsamlegra að koma þessum verkefnum fyrir undir safnaráði. Mér fyndist það á þann hátt vera tryggt að öll verkefni lytu faglegri umsjá og að umsóknirnar væru þá allar vegnar með sömu mælistiku. Þetta er ræða sem ég hef haldið áður úr þessum ræðustóli og ætla svo sem ekki að lengja mál mitt með því að hafa hana lengri að sinni.

Aðra breytingartillögu frá mér er t.d. að finna á þskj. 450, hæstv. forseti. Þar fjalla ég um breytingar á tveimur fjárlagaliðum, annar heyrir undir utanríkisráðuneytið og hinn undir dómsmálaráðuneytið. Hér er ég að sjálfsögðu að tala um Mannréttindaskrifstofu Íslands. Í þessum sal hafa orðið talsverð átök, vil ég segja, um málefni Mannréttindaskrifstofu Íslands eftir að ljóst varð að dómsmálaráðuneytið gerði ekki lengur ráð fyrir nafngreindu fjárframlagi til Mannréttindaskrifstofunnar í því fjárlagafrumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Það var í hæsta máta óviðeigandi og undarleg ráðstöfun að mínu mati og gerði ég athugasemdir við það hér og átti orðastað við hæstv. dómsmálaráðherra um þau mál. Ég gagnrýndi það að Mannréttindaskrifstofan skyldi vera tekin út af sakramentinu, og fjárlagaliðnum upp á 4 millj. kr. í staðinn breytt í almenn framlög til mannréttindamála.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um rökstuðninginn sem hæstv. ráðherra hafði fyrir þessum gjörðum sínum en eins og ég segi endaði hann með háværum mótmælum úti í samfélaginu. Hvað gerist svo í dag? Þegar við lesum breytingartillögurnar frá meiri hluta fjárlaganefndar uppgötvum við að undir lið utanríkisráðuneytisins kemur allt í einu breytingartillaga þar sem viðfangsefnið undir lið 190 Ýmis verkefni hjá utanríkisráðuneytinu nr. 1.23 breytist úr Mannréttindaskrifstofu Íslands í Mannréttindamál, almennt.

Hæstv. forseti. Hvað er hér á ferðinni? Hefur fjárlaganefnd tekið þá ákvörðun að breyta fjárlagalið utanríkisráðuneytisins sem tilgreindur var á Mannréttindaskrifstofu Íslands á sama hátt og hæstv. dómsmálaráðherra sá til þess að fjárlagaliðnum var breytt undir dómsmálaráðuneytinu?

Ég spyr hv. þingmenn í fjárlaganefnd og hv. þm. Magnús Stefánsson sérstaklega: Hverju sætir þessi breyting?

Ég gagnrýni hana harðlega því að með þessum breytingum erum við að svipta Mannréttindaskrifstofu Íslands þeim föstu framlögum sem hún hefur haft undanfarin ár. Hún hefur starfað í tíu ár og gegnt mikilvægu hlutverki í mannréttindamálum. Hún hefur starfað óháð og hún er eins konar regnhlífarsamtök yfir þau samtök sem starfa á sviði mannréttindamála. Sem slík er hún algerlega nauðsynleg, bæði til að samræma ákveðinn þátt þeirra starfa sem þeir aðilar sem aðild eiga að henni eru að vinna með, sömuleiðis bara til þess að gefa okkur umsagnir hér á hinu háa Alþingi um frumvörp og þingsályktunartillögur sem við erum að sýsla með sem lúta að mannréttindamálum.

Þess utan er þessi skrifstofa fulltrúi Íslands í norrænu og alþjóðlegu mannréttindastarfi. Það væri mikill álitshnekkir fyrir Ísland ef þessari skrifstofu væri ekki lengur tryggt framlag á fjárlögum og það yrði að draga úr þessum samstarfsverkefnum sem stofan hefur sinnt á alþjóðavettvangi.

Stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands sendi í dag frá sér áskorun til okkar, hv. þingmanna á Alþingi Íslendinga, þar sem við erum beðin að beita okkur fyrir því að framlagið til Mannréttindaskrifstofunnar verði ekki skert frá fyrra ári. Í áskoruninni sem ég tel ástæðu til að lesa hér orðrétt segir, með leyfi forseta:

„Enn fremur er alvarlega vegið að sjálfstæði skrifstofunnar þegar ákvörðun um framlag hennar hefur verið færð frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins. Hér getur skapast sú undarlega staða að skrifstofan sæki um beinan styrk til þess yfirvalds sem lagt hefur fram frumvarp þar eða skýrslu sem skrifstofan þarfnast fjármagns til að fjalla um. Stjórn Mannréttindaskrifstofunnar telur nauðsynlegt að framlag til hennar komi frá hæstvirtu Alþingi til að sjálfstæði hennar sé yfir allan vafa hafið.“

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir hvert orð sem hér stendur. Þetta er algerlega nauðsynlegt. Við verðum að breyta þessu. Við getum ekki afgreitt fjárlögin á þeim nótum að Mannréttindaskrifstofan sé farin út sem sérgreindur liður á fjárlögunum.

Við getum breytt þessu með því að samþykkja breytingartillögu frá mér sem er á þskj. 450, þar geri ég ráð fyrir að undir utanríkisráðuneytinu verði sérgreind fjárveiting til Mannréttindaskrifstofu Íslands, ekki upp á 4 millj., heldur upp á 6 millj. sem er hækkun um 2 millj. frá fjárlagafrumvarpinu. Að auki geri ég ráð fyrir því að Mannréttindaskrifstofa Íslands fái sérgreinda fjárveitingu upp á 6 millj. frá dómsmálaráðuneytinu. Þar bý ég til nýjan lið, 1.95, vegna þess að ég tel eðlilegt að dómsmálaráðuneytið hafi jafnframt úr að spila þeim 4 millj. til almennra verkefna á sviði mannréttindamála til úthlutunar til þeirra aðila sem gætu mögulega sótt um í slíkan sjóð. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur haft á orði að hann muni vilji setja úthlutunarreglur fyrir slíkan sjóð og setja sjóðstjórn yfir. Af þeim potti gæti t.d. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands fengið hlutdeild. Hún er önnur mikilvæg stofnun sem vinnur á sviði mannréttindamála en á eðli málsins samkvæmt, sem hefur verið rakið hér af öðru tilefni, ekki fulla samleið með Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það er því eðlilegt að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hafi tækifæri til þess að sækja um í einhvern sérgreindan sjóð sem ætlaður er til verkefna á sviði mannréttindamála.

Ég tel afar nauðsynlegt að hv. þingmenn hugleiði þær breytingartillögur sem ég hef nú talað fyrir.

Þá tala ég fyrir breytingartillögu á þskj. 449 frá mér og hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Þetta er endurflutningur á tillögu sem við fluttum á síðasta ári og varðar Ríkisútvarpið. Við teljum enn afar mikilvægt að efla innlenda dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu. Við höfum reynt að fylgjast vel með fjárhag Ríkisútvarpsins á seinni árum og sjáum vel að þar vantar svigrúm til að efla metnaðarfulla innlenda dagskrárgerð. Meðan lífeyrisskuldbindingar hafa verið að að hækka á stofnuninni og skuldbindingar aðrar sem hún ber á bakinu eru jafnþungar og -erfiðar og raun ber vitni er ekki um það að ræða að stofnunin hafi aflögu fjármuni til að setja í innlenda dagskrárgerð. Því leggjum við til að útvarpið fái sérgreinda fjárveitingu upp á 140 millj. kr. og gerum ráð fyrir að það fé verði eyrnamerkt innlendri dagskrárgerð. Þá erum við ekki eingöngu að tala um innlenda dagskrárgerð í sjónvarpi, við teljum ekki síður mikilvægt að Ríkisútvarpið, hljóðvarp hafi umtalsverðum fjármunum úr að spila til þess að halda áfram sínu gífurlega öfluga og mikilvæga menningarstarfi.

Sömuleiðis er í þessari breytingartillögu ósk um styrkingu dreifikerfisins sem Ríkisútvarpið nýtir og notast við. Þar gerum við ráð fyrir 70 millj. kr. framlagi sem við teljum afar nauðsynlegt. Eins og við öll vitum sem í þessum sal störfum er enn þá þannig háttað með dreifikerfi Ríkisútvarpsins að sjónvarp nær ekki nægilega vel inn í alla dali og alla firði á Íslandi. Það eru upp undir 100 heimili á landinu sem njóta ekki enn í dag eðlilegra útsendinga ríkissjónvarpsins.

Ég hef sömuleiðis breytingartillögu á þskj. 441 en þar er ég ásamt hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og læt henni eftir að mæla fyrir þeirri tillögu sem lýtur að þróunarmálum og alþjóðlegu hjálparstarfi.

Í menntamálunum er eitt atriði sem ég vil nefna áður en ég yfirgef mennta- og menningarmálin. Það eru vangaveltur mínar við þessa umræðu sem lúta að Náttúruminjasafni Íslands, nýju höfuðsafni á sviði náttúrufræða. Samkvæmt lögum eigum við eftir að stofna eitt af höfuðsöfnum okkar. Höfuðsöfnin eru samkvæmt lögum Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands en náttúruminjasafnið hefur enn ekki verið stofnað og ekki eru ætlaðir fjármunir í fjárlagafrumvarpinu til þess að undirbúa stofnun safnsins. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfðu hugsað sér að koma með breytingartillögu við þessa umræðu sem gerði ráð fyrir að fjármunir yrðu settir til þessa undirbúnings en í atganginum við undirbúning umræðunnar fórst fyrir að útbúa þá breytingartillögu en ég vil engu að síður geta þess hér að við gerum ráð fyrir að leggja hana fram á milli 2. og 3. umr. þannig að það kemur frá okkur tillaga upp á 20 millj. kr. þar sem við gerum ráð fyrir að Náttúrugripasafn fái undirbúningsframlag og vildi ég geta þess hér í framhjáhlaupi þó að breytingartillagan hafi ekki enn verið orðuð eða lögð fram á blaði.

Mig langar til að nefna hér málefni sem lýtur að Listasafni Íslands. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því, og reyndar samkvæmt yfirlýsingu frá hæstv. menntamálaráðherra sem kom ekki alls fyrir löngu, að á næsta ári verði byrjað að skrifa listasögu Íslands. Það segir í fjárlagafrumvarpinu að Listasafn Íslands fái 10 millj. kr. vegna rekstrarkostnaðar og útgáfu á íslenskri listasögu á 20. öld sem miðað er við að komi út í fjórum bindum. Reyndar eitthvað málum blandið — til rekstrarkostnaðar og útgáfu á íslenskri listasögu á 20. öld. Ég fagna þeirri ákvörðun hæstv. menntamálaráðherra að það skuli eiga að skrifa þessa listasögu en ég vil jafnframt taka undir gagnrýni Sambands íslenskra myndlistarmanna sem kom fram í opnu bréfi til hæstv. menntamálaráðherra og hefur verið sent okkur þingmönnum, a.m.k. þingmönnum í menntamálanefnd, þar sem tillögu hæstv. menntamálaráðherra er fagnað en jafnframt höfð nokkur varnaðarorð um þessa ákvörðun. Í því opna bréfi er spurt hvernig skrifa eigi íslenska listasögu, eftir hverju skuli farið. Þar leiða menn líkur að því að safnaeign listasafnanna væri sennilega sá efniviður sem nota ætti í uppbyggingu slíkrar sögu og ætti að vera mikilvægasti grunnurinn undir slíkar listfræðirannsóknir. Í ljósi þess væri eðlilegt að þeir peningar sem ætlaðir væru til ritunar listasögunnar færu einmitt til Listasafns Íslands. En þá skulum við skoða eitt. Hvernig hafa fjármunir Listasafns Íslands verið í gegnum tíðina til kaupa á listaverkum? Þar hefur staðan, satt að segja, verið ansi bágborin, hæstv. forseti, því að í heil 13 ár, á árunum 1991–2003, fékk Listasafn Íslands sömu upphæðina. Öll árin, 1991–2003, var engin hækkun, 12 millj. kr. á ári. Síðasta ár var sú upphæð skorin niður um 10%, skorin niður í 10,8 millj. kr. Í frumvarpinu sem við fjöllum um, í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2005, er innkaupafé safnsins óbreytt frá síðasta ári, þ.e. 10,8 millj. kr. Myndlistarmenn segja að ekki þurfi djúpan skilning á fjármálum til að sjá að með slíkt innkaupafé sé útilokað fyrir safnið að uppfylla þó ekki væri nema lítið brot af þeim söfnunarskyldum sem því eru lagðar á herðar og svo hefur í rauninni verið um mjög langan tíma, virðulegi forseti. Af þeim sökum, segja myndlistarmennirnir, er safneign Listasafns Íslands verulega takmörkuð heimild fyrir skrásetjara íslenskrar listasögu. Þeir sem taka verkið að sér eiga því ekki létt verk fyrir höndum.

Hæstv. forseti. Listasafn Íslands, sem er ein merkasta menningarstofnun okkar, er 120 ára gamalt um þessar mundir. Samband íslenskra myndlistarmanna stingur þess vegna upp á að þau merku tímamót í sögu listasafnsins verði notuð til að tryggja safninu í framtíðinni möguleika á að sinna helstu skyldum sínum með nokkrum sóma. Fyrir hönd stjórnar Sambands íslenskra myndlistarmanna er óskað eftir því í hinu opna bréfi til menntamálaráðherra Íslands að hæstv. ráðherra fylgi þeim góðu áformum sínum, um ritun íslenskrar listasögu, úr hlaði með tímabærri leiðréttingu á fjármagni til innkaupa fyrir Listasafn Íslands. Það mundi að mati SÍM, Sambands íslenskra myndlistarmanna, auðvelda sagnariturum framtíðarinnar starfið til muna. Hv. fjárlaganefnd er örugglega kunnugt um þetta bréf, það birtist í fjölmiðlum, en hvað sjáum við í breytingartillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar varðandi málið? Ekki stafkrók. Engin aukning til Listasafns Íslands, ekkert sagt um ritun listasögunnar, enn einungis 10,8 millj. kr. til innkaupa á næsta ári. Ég vil að það komi fram að þetta er auðvitað eitthvað sem við þurfum að ræða nánar í þessum sal og komum eflaust til með að gera. En það er synd þegar svo stórar upphæðir fara spjalda á milli í fjárlagafrumvarpinu að ekki skuli vera til fjármunir til að listasafnið geti staðið nægilega vel að sínum málum við listasöguritunina, sem kannski ætti að vera í höndum einhverra fleiri en listfræðinga Listasafns Íslands, kannski ætti að víkka verkefnið út og láta meira fjármagn í ritun íslenskrar listasögu á 20. öld og dreifa því verki víðar en til Listasafns Íslands. Ég hreyfi þeirri hugmynd hér og kem til með að halda þeirri umræðu vakandi í náinni framtíð.

Að lokum vil ég nefna í menningargeiranum nokkuð sem ég tel að hljóti bara að hafa verið mistök sem fólgin eru í því að Leikminjasafn Íslands, sem er nýtt safn sem í raun og veru er bara stofnað á pappírunum og hefur stjórn og ötulan starfsmann sem annast málefni þess, á ekki húsnæði og er þess vegna ekki með fast heimilisfang eða fastan sýningarsal, en þetta safn, Leikminjasafn Íslands, fékk á fjárlögum yfirstandandi árs tvær sérgreindar upphæðir. Annars vegar 1 millj. kr. til rekstrar og hins vegar 3 millj. kr. til sýningahalds. Meðal þess sem þetta merka safn hefur staðið fyrir er sýning á konunglegum mublum, mublum Reumert hjónanna, þ.e. mublum sem Poul Reumert, eiginmaður Önnu Borg, hafði í búningsherbergi sínu í konunglega danska leikhúsinu en sýning á þessum mublum stendur nú yfir í Þjóðminjasafni Íslands og er samvinnuverkefni milli leikminjasafnsins og Þjóðminjasafnsins.

Í tillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir að Leikminjasafn Íslands fái áfram 1 millj. kr. til rekstrar en hin línan, 3 millj. kr. til sýningahalds, virðist hafa dottið niður þannig að ég bið hv. þingmenn í fjárlaganefnd að skoða hvort leikminjasafnið eigi ekki að fá 3 millj. kr. í viðbót, þ.e. til sýningahalds, svo það geti haldið áfram að byggja upp grunn fyrir öflugt safn leikminja á Íslandi. Ég tek fram að safninu hafa verið að berast mjög góðar gjafir, virkilega dýrmæt einkasöfn á síðasta ári, og það er orðið mjög forvitnilegt fyrir okkar leikhúsþjóð að fara að sjá eitthvað af þeim munum sem safninu hafa verið að berast en til þess þarf auðvitað fjármuni til sýningahalds þannig að í allri þeirri súpu sem nú er verið að deila út til safna og safnaverkefna getur ekki verið að okkur muni um 3 millj. kr. til sýningahalds fyrir Leikminjasafn Íslands.

Hæstv. forseti. Ég er að koma að lokum ræðu minnar en ég ætla ekki að yfirgefa ræðustólinn án þess að nefna frétt sem barst á öldum ljósvakans til okkar í dag og tengist umferðarþingi sem haldið er í dag, frétt sem gengur út á það að hæstv. samgönguráðherra ætli að ráðstafa 400 millj. kr. í þágu umferðaröryggis á næsta ári. Ég fagna þeirri frétt sannarlega en um leið ætla ég að gagnrýna hæstv. samgönguráðherra. Hvenær ætlar hæstv. ráðherra að hætta að halda þing af þessu tagi, umferðarþing, á þingdegi eins og þessum? Þingið stendur í tvo daga, í dag og á morgun. Allir þingmenn eru búnir að vera uppteknir frá því klukkan hálfellefu í morgun við fjárlagaumræðu. Það veit hæstv. samgönguráðherra jafn vel og við hin sem sitjum í þessum sal. Á morgun er líka þingfundur sem hefst klukkan hálfellefu og stendur allan daginn. Hvenær ætla hæstv. ráðherrar að sýna Alþingi Íslendinga tilhlýðilega virðingu og búa svo um hnúta að þingmenn geti sótt slík þing? Auðvitað ættum við að fjölmenna á þing af þessu tagi, umferðarþing. Auðvitað ætti öll samgöngunefnd að sitja á umferðarþingi í allan dag. Það hefur hún auðvitað ekki gert, hún hefur verið meira og minna í þessum sal, í þessu húsi að sinna skyldustörfum sínum. Þetta er samskonar gagnrýni og við viðhöfðum á hæstv. umhverfisráðherra í fyrra þegar umhverfisþing var haldið og þingmönnum var gert ókleift að sækja það þing. Næst þegar hæstv. samgönguráðherra ætlar að tilkynna okkur um átak í þágu umferðaröryggis krefst ég þess að það verði gert á degi sem hv. alþingismenn geta sótt umferðarþing.

Svo fer maður náttúrlega að skoða töluna, 400 milljónir á ári næstu fimm árin. Ú-la-la, þetta er rosalegt. Hæstv. samgönguráðherra segir á umferðarþinginu að markmið þingsályktunar frá Alþingi sem samþykkt var í apríl 2002 séu þess efnis að við eigum að fækka alvarlegum umferðarslysum um 40% til ársins 2012 og markmið okkar hafi ekki náðst. Á það hefur verið bent í þessum sal. Ráðherrann segir í ræðu sinni að það hafi að vísu tekist að bæta umferðarmenninguna í þéttbýli og fækka banaslysum í þéttbýli. Þetta á auðvitað að lesast Reykjavík, en hæstv. samgönguráðherra á mjög erfitt með að viðurkenna að Reykjavíkurborg hafi sett umtalsverða fjármuni í umferðaröryggismál og haft árangur sem erfiði en sannleikurinn er auðvitað sá að í Reykjavík hefur tekist að fækka alvarlegum umferðarslysum á síðustu tíu árum eftir að farið var að vinna markvisst í þágu umferðaröryggis í borginni. Á síðustu tíu árum hefur borgin sett um 10 milljarða í breytingar á umferðarmannvirkjum og málefni sem beinlínis tengjast umferðaröryggi og það hefur dregið mjög úr fjölda alvarlega slasaðra og látinna í umferðinni í Reykjavík en það sama verður ekki sagt um landið allt. Það er auðvitað á ábyrgð hæstv. samgönguráðherra að breyta þar um. En þegar nánar er skoðað er alveg greinilegt að stór hluti þessara 400 millj. kr. er þegar til staðar í þessum málaflokki. Mér sýnist þegar ég skoða þetta að það séu ekki nema 165 millj. sem eru nýir peningar inn í þetta umferðaröryggisátak hæstv. ráðherra. Mér sýnist því hæstv. ráðherra vera að slá um sig með peningum sem eru nú þegar til staðar og hafa ekki reynst okkur nægilega drjúgir til að fækka slysum þannig að ég er ekki viss um að viðbótin, 165 millj. á ári næstu fjögur eða fimm árin, sé nóg til þess að ná markmiðum umferðaröryggisáætlunar.

Ég vildi aðeins nefna þetta í fáum orðum í lok máls míns af því að það er þessi dagur og verið er að halda umferðarþing og ég hefði svo gjarnan viljað sitja það því ég tel okkur þingmenn eiga fullt erindi á það þing og hafa margt til málanna að leggja og ekki síður á margt að hlusta frá því ágæta fólki sem starfar að umferðaröryggismálum í dag.

Hæstv. forseti. Ég held að ég geti lokið máli mínu. Ég á einungis eftir að taka undir ágætar ræður hv. þingmanna Jóns Bjarnasonar og Steingríms J. Sigfússonar sem hafa talað á undan mér frá þingflokki Vinstri grænna. Þeir fóru ofan í stóru drættina í sjónarmiðum okkar í þessu efni og er óþarfi að endurtaka þá hér svo ég læt máli mínu lokið.