Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 23:57:01 (2274)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[23:57]

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð sérkennileg upplifun fyrir varaþingmann að gera hér öðru sinni stuttan stans á Alþingi í miðri fjárlagagerðinni. Fyrir réttu ári þótti mér ýmislegt undarlegt og jafnvel aðfinnsluvert í þeim framgangsmáta og ég verð að segja eins og er að því miður finnst mér ástandið ekki hafa skánað. Þvert á móti hafa vinnubrögðin, í það minnsta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem ég á sæti í þessa dagana, versnað svo um munar.

Fyrir réttu ári sat ég á fundum í efnahags- og viðskiptanefnd og þar fengum við til okkar gesti, fulltrúa hagsmunasamtaka og við fengum umsagnir frá aðilum sem við tókum tillit til meðan nefndin var að sinna því hlutverki sem henni er falið við fjárlagagerðina, þ.e. að fara yfir og gefa umsögn um tekjuhliðina til fjárlaganefndar.

Fyrir réttu ári skiluðu bæði meiri og minni hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar ítarlegu áliti á tekjuöflun ríkissjóðs á árinu 2004 fyrir 2. umr.

En nú er öldin önnur. Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar á bls. 18 er birt álit minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar á tekjugrein frumvarpsins. Þar eru vinnubrögð sem uppi hafa verið í nefndinni átalin harðlega þar sem minni hlutinn telur að mun ítarlegri skoðun hefði þurft að fara fram á tekjugreininni, en hún var tekin til umræðu í nefndinni þennan sama dag og áliti skyldi skilað, reyndar aðeins með nokkurra klukkutíma fyrirvara.

Minni hlutinn fór fram á að tekjugreinin yrði send til umsagnar til Seðlabanka, til hagdeildar ASÍ og til Hagfræðistofnunar en við því var auðvitað ekki hægt að verða því að það átti að skila umsögninni fyrir hádegi þennan sama dag.

Minni hlutinn benti á að ýmislegt væri athugavert við þessa tekjugrein og það væri ekki víst að hún mundi standast tímans tönn, ekki einu sinni fram yfir næstu mánaðamót, en þá er von á nýrri spá frá Seðlabankanum og eftir áramót er von á nýrri þjóðhagsspá. Loks bentum við á að nýframkomin skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar lægju ekki fyrir við þessa afgreiðslu og umfjöllun um þau og áhrif þeirra á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2005 væru ekki séð. Ekkert af þessum atriðum kom til athugunar í nefndinni. Af þessum sökum taldi minni hlutinn ekki forsendur til þess að skila efnislegu áliti fyrir þá umræðu sem hér fer fram.

Ég verð að segja að þetta eru hreint undarlega ótrúlega léleg vinnubrögð hjá meiri hlutanum. Það er ekki nema von að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur Blöndal, skuli ekki hafa verið viðstaddur þessa umræðu í dag. (Gripið fram í.) Var hann hér í dag? Þá biðst ég forláts. Ég hef ekki orðið vör við hann í salnum þann tíma sem ég hef setið og hann hefur svo sannarlega ekki verið hér í kvöld og ekki hefur hann tekið til máls, því hef ég fylgst með.

Virðulegur forseti. Þetta er ekki eina atriðið sem gerð hefur verið athugasemd við í vinnubrögðum við gerð fjárlaga að þessu sinni. Þannig er það eins og bent hefur verið á úr þessum stól hrein afturför að fjárlaganefnd skuli nú aftur vera farin að ráðstafa í sínum ranni safnliðum fjárlaga í stað þess að leita til fagnefnda þingsins og fá umsagnir þeirra. Og aftur gerist það sem harðlega var átalið hér á síðasta ári að forstöðumenn ríkisstofnana fá ekki að kynna málefni sinna stofnana og rekstur þeirra fyrir fagnefndum eða fjárlaganefnd nema í gegnum túlk eða miðil sem reyndar heitir ráðuneyti.

Þannig er ljóst, virðulegur forseti, að framkvæmdarvaldið hefur með augljósum hætti yfirtekið eftirlits- og fjárveitingavald Alþingis með ríkisstofnunum og í reynd fjárlagagerðina í heild. En formaður fjárlaganefndar lýsti því við upphaf umræðunnar í dag að nú væri ætlunin að endurskoða vinnubrögð við fjárlagagerðina og er það vel.

Ég ætla ekki að fjalla meira um vinnubrögðin að sinni en ég verð þó að taka undir með þeim félögum mínum fyrr í kvöld sem hafa bent á hversu lítið ráðherrar hafa verið viðstaddir umræðuna, en hún hefur í rauninni einkennst af því að stjórnarþingmenn hafa stært sig mikið af fyrirhuguðum skattalækkunum á hátekjufólk meðan áfram skal haldið skattpíningu á þá sem lifa á strípuðum töxtum og á atvinnuleysisbótum. Það er alveg ljóst fyrir hvaða tekjuhópa þessar skattalækkanir eru gerðar, þar skal enn hinum efnameiri hyglað á kostnað þeirra sem minna hafa.

Ég vil leyfa mér að vitna í álit miðstjórnar ASÍ vegna þessara skattaáforma en þar segir, með leyfi forseta, að Alþýðusambandið telji að sé svigrúm til skattalækkana fyrir hendi hefði átt að nýta tækifærið og auka tekjujöfnun í skattkerfinu. Tillögur Alþýðusambandsins um meiri hækkun skattleysismarka, lægra skattþrep á lágar tekjur og lækkun virðisaukaskatts á matvæli væru tekjujafnandi andstætt tillögum ríkisstjórnarinnar um afnám hátekjuskatts, flata lækkun skattprósentunnar og afnám eignarskatts.

Þarna tekur miðstjórnin undir þau varnaðarorð sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft uppi vegna þessara skattatillagna og það á eftir að koma í ljós þegar útreikningar munu liggja fyrir á þessum tillögum að þetta er því miður rétt spá.

ASÍ fagnar verulegri hækkun barnabóta sem tekjujafnandi aðgerð og undir það má vissulega taka. Stjórnarþingmenn hafa í dag stært sig af því að nú eigi að hækka barnabætur, að vísu ekki eins og lofað var fyrir síðustu kosningar, ekki með því að afnema tekjutenginguna að fullu og alls ekki með því að framlengja barnabætur til 18 ára aldurs. Nei, það er sko langt í frá, en þetta er þó skref í rétta átt. En ég verð því miður, virðulegi forseti, að segja að þetta eina ljós í myrkri skattstefnu ríkisstjórnarinnar er þannig vaxið að aðeins er verið að skila hér hluta af ránsfeng, ránsfeng sem tekinn var með vaxandi tekjutengingu barnabóta á sínum tíma og smiðshöggið á þá þróun var rekið á kjörtímabili ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar 1995–1998 þegar tekjutengingu barnabóta var komið á að fullu. Þessi ríkisstjórn hefur verið að skila því til baka í áföngum og það er gott en það þarf bara meira til að koma.

Herra forseti. Það er langt liðið á kvöldið. Ég ætla aðeins að fjalla um tvær tillögur þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, annars vegar um nær því tvöföldun framlaga til safnasjóðs og hins vegar um að stöðva fjárveitingar til svokallaðrar Íslenskrar friðargæslu og tryggja að þær fari í raunverulegt hjálpar- og friðarstarf á ófriðarsvæðum.

Ég ætla að byrja á að fjalla um breytingartillögu á þskj. 451 sem fjallar annars vegar um 23 millj. kr. hækkun til endurbóta húsa í vörslu Þjóðminjasafnsins, sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur gert hér góða grein fyrir, og hins vegar um 54 millj. kr. hækkun á safnasjóði sem ég vil fara nokkrum frekari orðum um, enda er mér málið vel kunnugt og nokkuð skylt.

Safnalög nr. 106/2001 voru sett til þess að treysta uppbyggingu safnastarfs í landinu og til þess að hafa eftirlit með þeim fjármunum sem ríkið veitir til safnastarfs. Með safnalögum var ákveðið að setja á stofn safnaráð sem skyldi vera samráðsvettvangur safnastarfs, bæði listasafna, minjasafna og náttúrusafna. Safnaráð skyldi líka hafa eftirlit með söfnum sem hljóta ríkisstyrki og úthluta styrkjum úr safnasjóði til þessara safna. Tillagan gengur út á, eins og ég sagði, að næstum því tvöfalda framlagið í Safnasjóð úr 66 millj. kr. í 120 millj. kr.

Við skulum rifja aðeins upp hver var tilgangurinn með safnasjóði. Hann er í rauninni sá sami og var þegar settur var á laggirnar Kvikmyndasjóður svo eitthvað sé nefnt, að tryggja jafnræði hvað varðar aðgang að opinberu fé, gagnsæi við úthlutun þess og faglegt eftirlit með rekstri styrkþega og ráðstöfun opinberra styrkja.

Mönnum til upplýsingar veitir safnaráð tvenns konar styrki, annars vegar rekstrarstyrki til safna sem uppfylla kröfur laganna um að teljast söfn og hins vegar verkefnastyrki til setra, til sýninga og til safna. Stofnframkvæmdir eru samkvæmt lögunum eftir sem áður á ábyrgð menntamálaráðuneytis og Alþingis.

Það er ekki sannfærandi að fjórum árum eftir þessa metnaðarfullu lagasetningu og þegar á þriðja hundrað milljóna króna er veitt til þessara mála í tillögum fjárlaganefndar skuli ekki vera hægt að hækka framlag til safnasjóðs milli ára um eina einustu krónu, og það er mjög miður. Umsóknir hjá safnasjóði fyrir næsta ár nema nú tæpum 200 millj. kr. en fjárframlög til safnsins hafa í rauninni lítið hækkað í þessi fjögur ár. Fyrsta árið, 2002, var það 58 millj., það var aftur 58 millj. árið 2003, árið 2004 var það 66 millj. og samkvæmt tillögu sem hér liggur fyrir skal það vera óbreytt á næsta ári.

Ég vil segja hv. þingmönnum það að upphafsfjárveitingin, 58 millj. kr., var á sínum tíma þannig til komin að 53 millj. komu í raun af því sem áður hafði verið hjá menntamálaráðuneytinu til þess að veita rekstrarstyrki til minjasafna í landinu, 5 millj. til sömu hluta komu frá umhverfisráðuneyti. Það að þessar fjárveitingar hafa staðið í stað og að þeim skuli vera ætlað að dekka ekki aðeins rekstrarstyrki til allra minjasafna í landinu heldur einnig til listasafna og náttúrusafna og þar að auki verkefnastyrki til þessara sömu safna og setra og sýninga þýðir í rauninni beinan niðurskurð á rekstri minjasafnanna, aðallega, í landinu og hefur, eins og ég sagði, leitt til þess að það er í rauninni ekkert til skiptanna handa hinum söfnunum sem starfa á sviði lista og náttúrugripa. Þetta var ekki ætlunin með þessum metnaðarfullu lögum, hæstv. forseti.

Ég vil því skora á hv. þingmenn og meiri hlutann í fjárlaganefnd að endurskoða afstöðu sína því eins og ég sagði áðan liggja umsóknir um tæpar 200 millj. kr. fyrir safnasjóði og 120 millj. mundu gerbreyta stöðunni og örva nýsköpun í faglegu safnastarfi í landinu.

Virðulegi forseti. Ég er 1. flutningsmaður að tillögu sem er á þskj. 441. Það er tillaga, eins og ég sagði áðan, sem er ætlað að tryggja að allir fjármunir sem Alþingi samþykkir að veita til alþjóðlegs hjálparstarfs og friðargæslu fari til þeirra hluta en ekki til hernaðarstarfa.

Á þingskjalinu er lagt til að 140 millj. kr. verði bætt við fjárlagalið 03-391 þannig að 25 millj. bætast við framlag til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, 25 millj. bætast við framlag til UNIFEM og 90 millj. bætast við liðinn Mannúðarmál og neyðaraðstoð, sem er liður 1.30. Á móti verði fellt niður framlag í liðinn Íslensk friðargæsla undir fjárlagalið 03-401.

Það er álit okkar flutningsmanna að hægt sé að koma fyrir í liðnum Mannúðarmál og neyðaðstoð allri þeirri eiginlegu friðargæslu sem Íslendingar nú sinna í stríðshrjáðum ríkjum svo sem störfum tveggja lögreglumanna og eins fjölmiðlafulltrúa í Bosníu-Hersegóvínu, starfi fjölmiðlafulltrúa í Kosovo og tveimur borgaralegum sérfræðingum á Sri Lanka auk jafnréttisfulltrúa UNIFEM í Kosovo sem er á sérstökum fjárlagalið. Ef einhver eiginleg friðargæsla fer fram hjá liði Íslendinga á Kabúl-flugvelli er líka hægt að koma henni fyrir innan þessa fjárlagaliðar enda, virðulegur forseti, er ekki gert ráð fyrir því að fjárveitingar til friðargæslu lækki. Þvert á móti er, eins og ég sagði áðan, gerð tillaga um að borgaraleg friðargæsla og hjálparstarf aukist sem nemur kostnaði við þá stríðsleiki sem nú eru stundaðir á Kabúl-flugvelli í nafni Íslands.

Íslensk friðargæsla hefur verið mikið til umræðu, einkum eftir þá eðlisbreytingu sem varð á henni skömmu eftir formlega stofnun friðargæslunnar, þegar stjórn Pristina-flugvallar var tekin yfir af Íslendingum haustið 2002 sem var ári eftir að þessi friðargæsla var sett formlega á laggirnar. Sú eðlisbreyting var enn frekar staðfest þegar Íslendingar tóku við stjórn Kabúl-flugvallar á miðju þessu ári og það sýnir sig í því að þá voru 17 Íslendingar í störfum þar en aðeins sjö annars staðar í stríðshrjáðum ríkjum á vegum Íslensku friðargæslunnar. Þetta 17 manna lið, sem er 70% mannafla friðargæslunnar, er klætt í felubúninga eyðimerkurhernaðar, það er vopnað, bæði hríðskotabyssum og marghleypum, það hefur hlotið hernaðarþjálfun, það ber hertitla og það lýtur heraga og stjórn ofursta.

Bent hefur verið á að NATO skilgreinir þessa sveit sem hermenn í sínu liði. Hæstv. forsætisráðherra hefur þrætt fyrir það og kallar þá borgaralega hjálpar- og friðargæslumenn. Hæstv. utanríkisráðherra hefur hins vegar svarað því til í þessum sal að liðið hafi réttarstöðu hermanna NATO ef svo ber undir. Því er það, virðulegur forseti, að í hugum margra ríkir mikill vafi á að lagastoð sé fyrir því að halda úti þessari liðssveit enda hafa Íslendingar ekki her. Þeir eru einnig til sem telja þessa starfsemi einfaldlega brot á íslenskum lögum og bent hefur verið á það áður í þessum sal af hv. þm. Ögmundi Jónassyni að í 114. gr. almennra hegningarlaga segir, með leyfi forseta:

„Hver, sem ræður menn innan íslenska ríkisins til erlendrar herþjónustu, skal sæta fangelsi allt að 2 árum.“

Mér er spurn: Skyldi hæstv. utanríkisráðherra vera undanþeginn þessu lagaákvæði? Um það hefur verið spurt og verður spurt svo lengi sem á hans snærum er vopnuð liðssveit hernaðarbandalags úti í heimi, alveg sama hvað hann og aðrir kjósa að kalla þá sveit.

Það hefur verið bent á það, virðulegur forseti, að skilin á milli friðargæslu og hersveita verða að vera mjög glögg vegna þess að ef svo er ekki þá eru friðargæslumenn settir í mikla hættu. Óljós skil á milli starfa hermanns og friðargæsluliða eru því lífshættuleg, ekki aðeins fyrir íslenska friðargæslumenn heldur einnig fyrir aðra, svo sem starfsmenn Rauða krossins og Sameinuðu þjóðanna. Enda erum við alltaf aftur og aftur að heyra fréttir af því að hjálparstarfsmenn verða fyrir árásum, og það er ömurlegt til þess að vita, virðulegi forseti, að við eigum sem þjóð þátt í því að valda slíkum ruglingi og slíkri hættu með þeim feluleik sem er í gangi varðandi hina svokölluðu Íslensku friðargæslu. Sprengjuárásin í Kabúl í síðasta mánuði var glöggt dæmi um þetta. Það er ljóst að a.m.k. gera Afganir engan greinarmun á þessum herklæddu, herþjálfuðu og vopnuðu Íslendingum og öðrum hermönnum NATO á svæðinu.

Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að rifja upp lýsingu íslensks kvikmyndagerðarmanns, Friðriks Guðmundssonar, í DV, sem er að vinna að heimildarmynd um íslensku sveitina, eins og hann kallar hana, af viðhorfi heimamanna því að hún er mjög sláandi. Hann segir frá því í blaðaviðtali sl. sumar hvernig hann ekur í gegnum Kabúl með íslensku sveitinni og þeir eru neyddir til að stoppa. Það er einhver fyrirstaða á veginum og fyrir aftan þá er stór hertrukkur og hann er líka stopp. Það verður þrúgandi þögn í jeppanum hjá þeim, en sem betur fer losna þeir úr prísundinni án þess að til átaka komi. En í millitíðinni kemur lítill 8 ára drengur að bílnum. Hann réttir upp höndina, myndar með henni skammbyssu og hleypir af á ökumann jeppans. Og þetta, segir heimildarkvikmyndagerðarmaðurinn, er einkennandi fyrir viðhorf heimamanna til þessarar sveitar okkar.

Við skulum ekki auka frekar á þennan rugling á milli hernaðar og friðargæslu. Við skulum kalla hlutina réttum nöfnum. Við skulum tryggja að það fjármagn sem Alþingi veitir til friðargæslu fari til friðargæslu og ekki til annarra hluta. Til þess, virðulegi forseti, er þessi tillaga flutt.