Fjárlög 2005

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 11:00:38 (2296)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:00]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er eitthvað undarlegt á ferðum sem við höfum ekki fengið skýringu á við 2. umr. um fjárlög. Fjárlaganefnd Alþingis Íslendinga gerir það að tillögu sinni að sérgreindur liður sem Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur haft í utanríkisráðuneytinu verði framvegis almennur liður merktur Mannréttindamál. Hér er verið að fara í fótspor hæstv. dómsmálaráðherra sem gerði þessa breytingu á fjárlagalið dómsmálaráðuneytisins sem heyrði til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það er allsendis án útskýringa eða rökstuðnings að þessi breyting er gerð og meðan svo er mótmæli ég því að hún skuli gerð og vísa í tillögur sem ég bar upp og talaði fyrir í gær en mæli gegn því að þessi liður sé samþykktur og segi því nei.