Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 11:45:33 (2307)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjáröflun til vegagerðar.

366. mál
[11:45]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir litlu frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu er lagt til að tímabundin heimild til undanþágu frá greiðslum þungaskatts fyrir bifreiðar sem í tilraunaskyni nota annan orkugjafa en bensín, dísilolíu eða annað eldsneyti unnið úr olíu verði framlengd til 30. júní 2005. Undanþáguheimild þessari er sem sé ætlað að gilda áfram til þess tíma er ég gat um, 30. júní 2005, en þá, 1. júlí 2005, taka gildi ný lög um olíugjald og kílómetragjald o.fl., nr. 87/2004, sem leiða til þess að gildandi lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, falla úr gildi. Því er um það að ræða að brúa sex mánaða bil sem ella hefði skapast varðandi þá undanþágu sem hefur verið í gildi í þessum lögum um nokkurt árabil. Frumvarpið snýr að tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöldin svo nokkru nemi verði það að lögum.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.