Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 13:51:15 (2321)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[13:51]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sjónarmiðum hv. þingmanns að leggja áherslu á sjálfstæði eftirlitsstofnana og það er það sem ég hef gert alltaf þegar það mál kemur upp í umræðunni. En ég fæ mjög mismunandi skilaboð frá stjórnarandstöðunni í þeim efnum því að annars vegar kemur hv. þingmaður og telur að þetta sé ekki í lagi eins og það er og ýjar greinilega að því að ég sem viðskiptaráðherra sé að hafa áhrif á störf Fjármálaeftirlitsins. Hins vegar fær ég þau skilaboð frá Samfylkingunni að ég eigi alltaf að vera að beina einhverju til Fjármálaeftirlitsins, um að Fjármálaeftirlitið eigi að fara í ákveðna athugun og þar fram eftir götunum.

Þegar ég svara því til að ég telji að það sé ekki mitt hlutverk vegna þess að þarna séu fagmenn á ferð og þeir meti sjálfir hvað þeir setji í forgang og hvernig þeir vinna þá er fundið að því við mig að ég skuli ekki alltaf vera að beina einhverju til þeirra um að fara í þessa og hina skoðunina.

Mér þótti vænt um að hv. þingmaður vildi ekki kannast við að Fjármálaeftirlitið lyti fyrirskipunum frá mér sem viðskiptaráðherra og það var þó gott að hann dró þau orð til baka, en mér finnst að hann sé nánast að ýja að því að eftirlitið fari ekki að lögum. Þegar hann talar svo um að það hafi eitthvað með það að gera að ég hafi staðið fyrir einkavæðingu á bönkunum hvernig Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit á markaðnum, þá er það alveg út í hött að halda slíku fram.