Fjáraukalög 2004

Þriðjudaginn 30. nóvember 2004, kl. 14:15:35 (2433)


131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:15]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur greinilega ekki fylgst vel með eða áttað sig á því um hvað umræðan snýst. Við erum að ræða fjárlög þessa árs og framkvæmd þeirra. Þau voru samþykkt í desember fyrir um ári síðan, fjárlög fyrir þetta ár. Til þess að leiðrétta fjárlög fyrir árið 2004 eru flutt fjáraukalög, fjáraukalög við fjárlög ársins 2004. Þess vegna ræðum við hér saman fjárlögin og framkvæmd þeirra og þau fjáraukalög sem lúta að því þannig að hv. þingmanni sé það ljóst.

Síðan tökum við umræðu um fjárlög fyrir árið 2005, 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2005 verður tekin á föstudaginn kemur.

Varðandi það að ríkið sé að hvetja sveitarfélögin til að selja eignir er skemmst að minnast þess þegar ríkið hvatti sveitarfélög á Vestfjörðum til að selja Orkubú Vestfjarða, nánast stillti þeim upp við vegg vegna skuldastöðu þeirra. Orkubúið var verðmætasta eignin þeirra. Hvernig sjáum við stöðuna núna á Ólafsfirði? Þar er fjárhagsstaða mjög erfið. Ef um raunverulega samábyrgð væri að ræða kæmi ríkisvaldið þar að með fjármagn, annaðhvort á breiðum grunni eða sértækt, til að bjarga því að Ólafsfirðingar þyrftu ekki að fara að selja hitaveituna sína. Þetta eru sameiginleg verkefni og við erum samábyrg fyrir velferðarkerfinu, ríki og sveitarfélög, og annar aðilinn getur ekki setið hjá og horft á þegar hinn aðilinn, í þessu tilviki sveitarfélögin, á í svona erfiðleikum. Þar er ríkið að bregðast skyldu sinni.