Bifreiðagjald

Þriðjudaginn 30. nóvember 2004, kl. 17:24:26 (2462)


131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:24]

Jón Gunnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hann er skrýtinn þessi stöðugleiki ríkisstjórnarinnar. Við höfum heyrt það aftur og aftur í tengslum við fjárlög að hér ríki svo mikill stöðugleiki að leitun sé að öðru eins á byggðu bóli, sérstaklega í Vestur-Evrópu. Síðan, þegar ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra eru að safna fyrir skattalækkuninni sem búið er að kynna, þá er komið með þau rök að verðlagshækkunin frá ári til árs sé svo mikil að nauðsynlegt sé fyrir okkur að hækka öll gjöld sem ríkisstjórninni hefur dottið í hug að leggja á. Á tveimur dögum höfum við séð ansi miklar hækkanir á gjöldum sem margir hverjir mundu kalla skatta.

Það sem er kannski verst við þá skatta sem nú er verið að hækka, svona almennt, er að þetta eru skattar sem fæstir komast undan að greiða. Það sama á við um bifreiðagjöldin, alveg burt séð frá því hvort menn hafa háar eða lágar tekjur, hver fjölskyldustærðin er o.s.frv., því flest þurfum við að eiga bifreiðar. Við könnumst öll við þegar greiðsluseðillinn fyrir bifreiðagjöldin kemur þá munar um þann skatt á hverja fjölskyldu, og fyrir fjölskyldur sem hafa lág laun hlýtur að muna meira að þurfa að borga bifreiðaskattinn vegna þeirrar hækkunar sem nú er verið að innleiða en fyrir fjölskyldur sem hafa hærri laun.

Það sem við erum búin að upplifa á undanförnum dögum er ekkert annað en skattahækkun, skattahækkanir á hverjum einasta tekjulið sem ríkið og hæstv. fjármálaráðherra hefur yfir að segja og eins og oft hefur komið fram í málflutningi Samfylkingar, þá er verið að safna upp í skattalækkunina sem verið er að lofa hinum almenna skattborgara, og dugir ekki einu sinni til ef við horfum til ársins 2005.

Bíllinn og allt sem honum tengist er afskaplega þægilegur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Það vill nú svo til að það eru ekki fáir skattar sem eru lagðir á bílinn og bifreiðaeigendur. Ef við kíkjum aðeins í fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2005 og rennum yfir tekjuhlið þess, þá kemur í ljós, virðulegi forseti, að áætlað er að vörugjald af innfluttum ökutækjum verði, áætlað á rekstrargrunni, 5.587 millj. kr., fimm og hálfur milljarður. Vörugjald af bensíni 2.040 milljónir. Sérstakt vörugjald af bensíni, ekki það sama og ég var að tala um, heldur sérstakt vörugjald af bensíni, tæpar 6.300 milljónir. Talið er að bifreiðagjöldin, sem talað er um að hækka í fjárlagafrumvarpinu, gefi ríkissjóði 3.221 milljón og þungaskatturinn, sem er önnur gerð af bifreiðagjöldum, 3.323 milljónir. Ef við tökum bara þessi gjöld saman, þá eru þetta yfir 20 milljarðar kr. í áætlun fjárlaga fyrir árið 2005. Og þá er ekki á nokkurn hátt tekið tillit til virðisaukaskatts af ökutækjum en við vitum að með þeirri miklu fjölgun ökutækja sem hefur verið, hefur hann verið að skila verulegum tekjum í ríkissjóð.

Hv. þingmönnum stjórnarliðsins verður tíðrætt um að nauðsynlegt sé að hækka alla þessa gjaldaliði, hvort sem það eru aukatekjur ríkissjóðs, bifreiðagjöldin sem hér um ræðir, eða allar aðrar tekjur, að hækka þær með þróun verðlags. Í umræðunni í gær, um breytingar á verði tóbaks og sterks áfengis, heyrðum við mjög haldið á lofti að með því að hækka ekki gjald á léttvín og bjór, þá væri í raun verið að lækka það. Ég hef reyndar ekki heyrt að bjórinn í Áfengisverslun ríkisins hafi lækkað neitt í morgun, ég held að hann kosti það sama og hann kostaði í gær, þannig að í krónutölu er ekki verið að lækka útsöluverð á bjór. En þeir sem halda þessum rökum fram, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur gert mjög stíft, verða líka að taka umræðuna um persónuafsláttinn. Þá umræðu verður að taka um leið og því er haldið fram að hækka verði öll gjöld ríkisins með verðlagi. Hv. þm. Pétur Blöndal verður að taka þá umræðu sem hann átti við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, um persónuafsláttinn. Þetta má ekki vera sjálfvirkt, hv. þm. Pétur Blöndal hefur sagt það margoft, það á ekki að hækka skatta þannig að það sé einhver sjálfvirk verðlagshækkun, það þarf að taka ákvörðun um að hækka skatt í hvert einasta skipti, meðvitaða ákvörðun og það er það sem ríkisstjórnin er að gera, hún er að taka ákvörðun um að láta öll þessi gjöld fylgja verðlagsþróun að einhverju leyti (HBl: Ekki að öllu leyti …) … ekki að öllu leyti, við skulum vera sanngjarnir, hv. þm. Halldór Blöndal, við skulum vera sanngjarnir þegar við förum yfir þetta. (HBl: Svara rétt …) Hér er talað (Forseti hringir.) um að verið sé að hækka bifreiðagjaldið ...

(Forseti (GÁS): Forseti vildi eingöngu geta þess að hv. þingmaður hefur orðið.)

Þakka þér fyrir, hæstv. forseti, en ég þarf enga hjálp við að ræða við þingmenn hér í salnum ef þeir kalla fram í, nema þeir yfirgnæfi mig, þá mun ég þiggja að forseti slái í bjölluna.

Hér er verið að hækka þetta og talað um verðlagshækkanir upp á 3,5% en vísitala neysluverðs hefur hækkað um 7% frá þeim tíma sem verið er að miða við. Gleymum því nú ekki að í gær var ríkisstjórnin að hækka vísitölu neysluverðs um 0,08%, tæplega 0,1% með hækkun á sterku víni og tóbaki. (HBl: En þá ýkti þingmaðurinn ...)

En ef við ætlum að vera í þessari umræðu þá verða menn líka nauðsynlega að tala um tekjur, álögurnar á skattborgarana. Það vita allir sem það vilja vita að með því að frysta persónuafsláttinn eins og gert var á tímabili og hann fylgdi ekki verðlagi þá hækkuðu hér skattar verulega og þeir hækkuðu mest á þeim sem minnst höfðu vegna þess að skattleysismörkin nýttust ekki því fólki eins og áður. Þetta verða hv. þingmenn stjórnarliðsins að viðurkenna því að svona er þetta og ekkert öðruvísi.

Aðeins um bifreiðagjöldin og vanda sveitarfélaganna. Ég hef alltaf undrað mig á því með alla þessa skatta á ökutæki af hverju ríkið situr eitt og sér að sköttum á ökutæki. Ég hef verið í sveitarstjórn í tæp 20 ár og ég kannast við hvað það kostar að leggja götur og ég kannast við hvað það kostar að halda við þessum götum vegna slits sem á þeim verður við það að bifreiðar aka um götur sveitarfélaganna. Af hverju í ósköpunum velta menn því ekki fyrir sér að hluti af þessum sköttum á bifreiðaeign landsmanna gangi til sveitarfélaga? Hvaða sanngirni er í því þegar við skoðum rök ríkisstjórnar fyrir nauðsyn þess að skattleggja bíla að það sé til að viðhalda vegakerfinu, þó þeir fjármunir sem teknir eru undir því yfirskyni fari náttúrlega aldrei í vegakerfið, hvaða sanngirni er þá í því að sveitarfélögin með allt sitt vegakerfi njóta einskis af bifreiðagjöldum eða öðrum gjöldum á bílaeign landsmanna? Væri ekki vert að þegar hv. þm. Pétur Blöndal kemur upp í andsvar á eftir að hann velti því aðeins fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt að þeir sem nota borgi og að þeir borgi til þess sem verður fyrir kostnaði? Mér hefur heyrst hv. þingmaður einmitt vera að tala um slíkt.

Aðeins um þær hækkanir sem nú er verið að boða. Hér eru 120 millj. kr. í viðbót við þær hækkanir sem voru í gær.

Í frumvarpi til fjárlaga segir um vörugjöld af bensíni og síðan olíugjald, með leyfi forseta:

„Síðastliðið vor voru á Alþingi samþykkt lög um olíugjald og kílómetragjald. Breytingin felst fyrst og fremst í því að tekið er upp olíugjald á dísileldsneyti og núverandi þungaskattskerfi er lagt niður. Jafnframt er tekið upp sérstakt kílómetragjald á ökutæki 10 tonn og þyngri, önnur en ökutæki til fólksflutninga. Olíugjaldið er 45 krónur á hvern seldan dísillítra. Þessi lög taka gildi um mitt ár 2005. Áætlaðar tekjur af olíugjaldi á árinu 2005 eru um 1.870 millj. kr. Olíugjaldið er markaður tekjustofn sem rennur til Vegagerðarinnar. Vörugjöld á hvern seldan bensínlítra eru tvenns konar, annars vegar almennt vörugjald af bensíni sem er 11,35 krónur og rennur í ríkissjóð og hins vegar sérstakt bensíngjald sem er 30,90 krónur og rennur til Vegagerðarinnar. Við upptöku olíugjalds verður breyting á þessum fjárhæðum.“

Nú skora ég á hv. þm. Pétur Blöndal að hlusta vel.

„Við upptöku olíugjalds verður breyting á þessum fjárhæðum. Almenna vörugjaldið af bensíni lækkar um 2,06 krónur á hvern seldan lítra og sérstaka vörugjaldið af bensíni hækkar um sömu fjárhæð. Þessi breyting er gerð til að koma í veg fyrir að Vegagerðin verði fyrir tekjutapi vegna þessarar kerfisbreytingar. Gert er ráð fyrir að áætlaðar tekjur af bensíni verði rúmlega 8,3 milljarðar króna. Í tekjuáætlun er auk þess gert ráð fyrir að hækkun gjalda muni skila 350 millj. kr. í viðbótartekjum í ríkissjóð á árinu 2005.“

Þarna eru 350 milljónir í viðbótartekjur í ríkissjóð á árinu 2005 vegna hækkunar gjalda á bifreiðaeigendur. Þarna er ekki verið að tala um bifreiðagjaldið. Þarna er ekki verið að tala um 120 milljónirnar sem við erum að ræða hér. Þarna er um aðra hækkun að ræða.

Það verður bara að segjast eins og er, virðulegi forseti, að þessi endalausa hrina hækkana af hálfu fjármálaráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar og þeirra hv. þingmanna sem hana styðja er í raun alveg óskiljanleg. Á sama tíma og menn koma hér og berja sér á brjóst og segja að þeir séu að lækka skatta sem aldrei fyrr, missa sig í hrifningu í ræðustólnum yfir skattalækkunum ríkisstjórnarinnar þá er komið hér dag eftir dag með hækkanir upp á hundruð milljóna. Ég get alveg lofað hv. þm. Pétri Blöndal því að í þetta skipti munum við halda utan um þessar tölur. Í þetta skipti munum við halda utan um þessar krónur og þær verða færðar til gjalda og tekna og þegar upp verður staðið í lok árs 2005 verður þetta borið saman, skattalækkunin svokallaða sem ríkisstjórnin er að bjóða upp á og svo allar þær hækkanir sem verið hafa frá því að kosið var á árinu 2003.

Það versta við þetta allt saman er að fæstir komast undan því að greiða þessi gjöld sem verið er að hækka svona mikið á svona mörgum stöðum. En tekjuskattslækkunin sem búið er að boða á næsta ári kemur að langmestu leyti, eins og margoft er búið að fara yfir, hátekjufólki nánast eingöngu til góða og því er enn verið að færa skattbyrðarnar frá þeim sem meira hafa til þeirra sem minna hafa.