Bifreiðagjald

Þriðjudaginn 30. nóvember 2004, kl. 18:17:43 (2475)


131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:17]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Oft þegar menn verða rökþrota þá fara þeir um víðan völl og tala um hitt og þetta.

Ég var að spyrja hv. þingmann um (Gripið fram í.) eitt ákveðið gjald sem lagt er á með skattalögum: Ef það er óbreytt í verðbólgu, hækkar það eða lækkar að raungildi? Ef verðbólgan er 7% og gjaldið hækkar um 3,5%, er það raunlækkun eða raunhækkun? Ég var að spyrja hv. þm. að þessu.

Ég var ekki að spyrja um álögur á skattgreiðendur. Ég var ekki að spyrja um eitthvað allt annað. Ég fékk svar við einhverju allt öðru.

Það að tekjur ríkissjóðs geti hækkað meira en hækkun á skattinum er vel þekkt. Ég nefndi fyrr í umræðunni lækkun á tekjuskatti fyrirtækja, sem lækkaður var úr 50% í 30% og síðan niður í 18%. Var það skattahækkun, herra forseti, eða skattalækkun? Tekjur ríkissjóðs af þeim skatti stórjukust en þar var samt ekki skattahækkun. (Gripið fram í.) Það er samt ekki skattahækkun þegar tekjur ríkissjóðs hækka vegna þess að umsvifin vaxa. Það er ekki skattahækkun. Þegar umsvifin vaxa og tekjur ríkissjóðs aukast af þeim sökum þá er það ekki skattahækkun. Ég ætla að biðja menn að rugla ekki saman tekjum ríkissjóðs og skatti á einstaklinga. Ég ætla að biðja menn um að rugla því ekki saman.

En ég spurði: Ef ákveðið gjald hækkar um 3,5% í 7% verðbólgu er það þá raunlækkun eða raunhækkun? Ég vil fá skynsamlegt og rökstutt svar.