Bifreiðagjald

Þriðjudaginn 30. nóvember 2004, kl. 18:46:09 (2485)


131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:46]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson er sár og hann gat ekki einu sinni komið og svarað þeirri einföldu spurningu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði hann að. Hann er svo sem búinn að ganga í gegnum ýmislegt undanfarna tvo daga, hv. þm. og formaður Alþýðuflokksins. Það er búið að upplýsa að Samfylkingin hefur tekið upp utanríkisstefnu Alþýðubandalagsins og skattastefnu þess.

Þegar hv. þm. var í þingflokki Alþýðuflokksins átti tekjuskatturinn ekki að vera hærri en 35%, virðulegi forseti. Það er farið. Nú berjast menn með oddi og egg gegn öllum skattalækkunum. Svo kemur þingmaðurinn upp og segir að það eigi að kalla hlutina réttum nöfnum en það er búið að afhjúpa hér í umræðunni að það sem þeir hafa kallað skattahækkanir er eitthvað allt, allt annað.

Hann var svo ótrúlegur að fara að ræða borgarstjórn Reykjavíkur og segir hér, virðulegi forseti, að ég hafi haldið einhverja ræðu um leikskólamál í borgarstjórn Reykjavíkur sem hefði verið á allt öðrum nótum en ræður mínar hér. (Gripið fram í: Spurðu ...) Nei, nei, hv. þm. sagði að ég hefði haldið ræðu. Og ég spyr hv. þm. og vil gjarnan fá svar við því, hann getur ekki talað sig út úr því, hvaða ræðu er hann að vísa í? Hvað er maðurinn að fara, hv. alþingismaður Guðmundur Árni Stefánsson? Því hann upplýsti að hann væri búinn að hlusta á margar ræður um leikskólamál sem ég hefði haldið í borgarstjórn Reykjavíkur og ég vildi gjarnan fá að vita hvað það er nákvæmlega í þeim ræðum sem er í ósamræmi við það sem við erum að ræða hér í dag.