Skuldastaða heimila og fyrirtækja

Fimmtudaginn 02. desember 2004, kl. 10:47:30 (2493)


131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:47]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrir að taka þetta mál til umræðu. Það mikla framboð sem fólkinu í landinu stendur nú til boða af lánsfé mun að líkum enn þá auka skuldsetningu heimilanna. Þeir möguleikar sem nú eru til upp á 90% eða allt að 100% fjármögnun íbúðarkaupa gera jafnframt kröfu til þess að fólk og lánastofnanir vandi mjög til allra áætlanagerða um greiðslu afborgana.

Lítið má út af bera í áætlunum um þjóðarhag svo að verðtryggð lán verði ekki venjulegum launþegum þungur baggi að bera og borga áratugi inn í framtíðina. Menn eru með langtímalánum að veðsetja lífskjör sín og greiðslubyrði í óvissu um hvað framtíðin beri í skauti sér. Greiningardeild Landsbankans telur að greiðslubyrði af lánum til heimilanna í landinu séu að jafnaði 20–25% af ráðstöfunartekjum þeirra. Þessa greiðslubyrði telja þeir að sjálfsagt megi lækka niður fyrir 20% af ráðstöfunartekjum með endurfjármögnun og nýjum lengri lánum.

Eins og áður sagði verður mikil skuldsetning ávallt varasöm. Fólkið og fyrirtækin í landinu eru nú þegar mjög skuldsett og eins og horfir um viðskiptahalla á næstu árum má lítið út af bera. Hátt verð á stóriðjuframleiðslu getur breyst og jafnan hefur verið erfitt að spá um verðþróun á þeirri vöru sem og sjávarafurðum okkar. Olíuverðið og framleiðslan eru með slíkri óvissu að spár á þeim markaði hafa nánast ekkert gildi. Þótt fasteignaverð hér á landi, sérstaklega á suðvesturhorninu, hafi hækkað nánast stöðugt undanfarin ár eru dæmi um allt aðra þróun, m.a. frá nágrannalöndum okkar. Varfærni er þess vegna lykilorð við núverandi aðstæður og brýnt er að stjórnvöld og við sem erum í stjórnmálum hvetjum ungt fólk sérstaklega til aðhalds og sparnaðar.