Fjárlög 2005

Laugardaginn 04. desember 2004, kl. 11:29:24 (2764)


131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:29]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ríkið á ekki að greiða heiðurslaun til listamanna. Rökin eru í fyrsta lagi: Stjórnmálamenn eiga ekki að skera úr hverjir eru góðir listamenn og hverjir eru slæmir, það er ákvörðun fólksins í landinu sem það sýnir með því að kaupa og njóta listaverka. Menningu á ekki að stýra ofan frá enda gaf það slæma raun í Sovét.

Í öðru lagi: Listamenn eiga ekki að þakka og þóknast stjórnmálamönnum.

Í þriðja lagi: Þegar listamenn hafa öðlast þann sess að vera gjaldgengir á lista yfir heiðurslaun eru þeir yfirleitt komnir á græna grein og þurfa ekki á styrk að halda.

Ég sakna þess listamanns á þessum lista — ef menn vilja veita heiðurslaun — sem heitir Björk Guðmundsdóttir. Hún er sá listamaður sem hefur selt íslenska menningu víðast og fyrir mesta peninga og ætti skilið að vera þarna. Ég legg til að á næsta ári fái hún eina krónu á mánuði því hana munar ekkert um þetta, samtals 12 krónur, og geti fengið það fyrir fram allt árið. Ég segi nei.