Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Þriðjudaginn 07. desember 2004, kl. 14:41:03 (2837)


131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:41]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í engu svaraði hæstv. ráðherra spurningum mínum.

Fyrir það fyrsta er nám í Sjómannaskólanum, bæði stýrimanna- og vélstjóranámið, á framhaldsskólastigi þannig að það svarar í engu spurningunni um þetta rekstrarform við skóla á háskólastigi. Ég ítreka því spurninguna: Af hverju var það valið, til hvers á það að leiða? Ekki í hvað á að nota arðinn.

Hitt sem ég spurði hana um og hún kom ekkert inn á var: Af hverju er tæknifræðinámið tekið út úr öðru námi á háskólastigi þannig að það bjóðist einungis hér eftir, verði frumvarpið að lögum, í einkareknum skóla gegn verulegum skólagjöldum? Af hverju fer ekki fram heildstæð úttekt og umræða um allt nám á háskólastigi áður en tæknifræðinni er mismunað með þessum hætti þannig að ekki sé hægt að stunda nám í tæknifræði nema gegn verulegum skólagjöldum í einum einkareknum háskóla?

Ég tek svo undir það að lokum að hinir sjálfstæðu skólar hafa hleypt miklu lífi í háskólanám okkar en það verður að vera rétt að málum staðið og það má ekki mismuna einni námsgrein miðað við aðra.