Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 14:50:47 (2965)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit við fjármálastarfsemi.

320. mál
[14:50]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að blanda mér í umræðuna þegar þetta mál er nú tekið til 2. umr. eftir yfirferð í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég lét þá skoðun mína í ljósi í efnahags- og viðskiptanefnd að ég teldi miður að aldrei ynnist tími í þessari ágætu nefnd til að fara yfir ýmsar skýrslur og úttektir sem fylgja með þessu frumvarpi um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit við fjármálastarfsemi. Til dæmis kemur fram mjög ítarleg skýrsla um þróun og horfur á fjármálamarkaði sem svo sannarlega hefði verið ástæða til að ræða í því mikla umróti sem er á fjármálamarkaðnum. Það mál var því miður rætt á mjög stuttum tíma og ekki gafst neinn tími til að ræða þessa ítarlegu skýrslu um fjármálamarkaðinn, þróun og horfur. Er það miður.

Ég ræddi nokkuð um það við 1. umr. þessa máls og vil þá bíða til betri tíma með að ræða það ítarlega í þeirri tímaþröng sem þingið er komið í við afgreiðslu mála.

Það er alveg ljóst að Fjármálaeftirlitið líkt og aðrar eftirlitsstofnanir, Samkeppnisstofnun og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, er mjög illa í stakk búið til þess að takast á við viðfangsefni sín. Þeim er þröngur stakkur skorinn fjárhagslega og í mannskap. Í þeim öru breytingum sem eru á atvinnu- og fjármálamarkaðnum eru sífellt að bætast aukin verkefni og auknar kvaðir á þessar stofnanir með ýmsum laga- og reglugerðarbreytingum sem verið er að samþykkja. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, virðulegi forseti, að þetta eru kannski einar mikilvægustu stofnanir þjóðfélagsins, Fjármálaeftirlitið, Samkeppnisstofnun og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, til þess að hafa eftirlit með því að hér sé farið að leikreglum og lögum og reglum í þessu samfélagi. Ég hef lýst þeirri skoðun minni áður að ég tel að hverri einustu krónu sem varið er í þessar eftirlitsstofnanir sé vel varið og skili sér margfalt aftur í heilbrigðara og betra samkeppnisumhverfi sem er jú þegar upp er staðið það sem við viljum sjá til hagsbóta fyrir alla landsmenn og neytendur.

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins kemur fram að þó að Fjármálaeftirlitið styðji frumvarpið eins og það er úr garði gert telur það rétt að taka fram að í áætlun þeirri sem frumvarpið er byggt á sé ekki gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi formlegum skyldum að gegna í eftirliti með því að farið verði að reikningsskilastöðlum Alþjóðareikningsskilaráðsins. Í undirbúningi er frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga þar sem lagt er til að innleidd verði ESB-reglugerð um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

Hér segir orðrétt í umsögn Fjármálaeftirlitsins:

„Frumvarp sama efnis var lagt fram á síðasta vorþingi, en þar var gert ráð fyrir að ársreikningaskrá hefði þetta eftirlit með höndum. Fjármálaeftirlirlitið vill einnig taka fram að það hafði ekki forsendur til að leggja fullnaðarmat á áhrif lagabreytinga á verðbréfa- og vátryggingamarkaði, sem í undirbúningi eru og fyrirhugað er að taki gildi á næsta ári. Eðlilegt er að taka áhrif þessara breytinga á rekstur Fjármálaeftirlitsins til nánari umfjöllunar þegar endanleg frumvörp koma til umfjöllunar.“

Fjármálaeftirlitið bendir sem sagt í umsögn sinni á að því sé þröngur stakkur skorinn og að enn séu að flytjast á það verkefni með lögum sem hafa verið samþykkt hér á Alþingi sem fram koma á næsta ári og ekki hefur verið tekið tillit til í rekstrinum eða því frumvarpi sem við fjöllum hér um um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Seðlabankinn telur ástæðu til að fara yfir mikilvægi þessarar eftirlitsstofnunar í nokkuð ítarlegri umsögn af þeirra hálfu. Hann segir, með leyfi forseta:

„Þær miklu breytingar sem orðið hafa á innlendum lánamarkaði á seinni hluta þessa árs þýða jafnframt að Fjármálaeftirlitið þarf að beina sjónum sínum enn frekar að áhættustýringu bankanna en gert hefur verið til þessa.“

Þetta er ásamt fleiri atriðum sem Seðlabankinn var með þar sem vitnað er til mikilvægis í breytingu á löggjöf um innlendan fjármálamarkað sem mun leggja auknar skyldur á herðar Fjármálaeftirlitsins. Hann dregur síðan eftirfarandi ályktun, með leyfi forseta:

„Í ljósi framansagðs má jafnvel álykta að rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir komandi ár sé fullhófleg.“

Þetta eru þeir aðilar í þjóðfélaginu sem eru að hvetja til aukins aðhalds í ríkisbúskapnum miðað við stöðu í verðbólguþróun og efnahagsmálum. Þeir segja að rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir komandi ár sé fullhófleg. Auðvitað gera þessir aðilar, t.d. Seðlabankinn, sér fullkomlega ljóst mikilvægi þess að Fjármálaeftirlitinu sé gert kleift að sinna verkefnum sínum í þeirri stöðu sem fjármálalífið er í, í þeirri miklu útlánaþenslu sem er hjá bönkunum o.s.frv.

Ég taldi ástæðu til að leggja áherslu á þetta tvennt og skal ekki tefja umræðuna miklu frekar. Ég vildi þó benda á fleira sem mér hefði fundist fyllsta ástæða til að skoða nánar en það er nú svo mikill hraði á öllum málum hér í þinginu og í nefndum þingsins að það er ekki tími til að taka upp alla þá þætti sem menn annars vildu þegar skoðað er grannt ofan í þessi mál. Hér kemur umsögn frá Samtökum fjárfesta, almennra hlutabréfa og sparifjáreigenda og þau óska eftir að koma meira að þessum málum. Þau segja, með leyfi forseta:

„Samtökin vilja minna á nauðsyn eftirlits viðskiptavina. Það eru umboðsmenn skuldara í sumum fjármálastofnunum en eigendur sparifjár og annars sparnaðar þurfa að sækja rétt sinn með erfiðismunum og er þá gjarnan mikilvægum þáttum haldið leyndum fyrir sparifjáreigendum eða jafnvel haldið fram að þeir séu ekki aðilar að málum eins og í samskiptum við Fjármálaeftirlitið. Samtök fjárfesta sendu iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti greinargerð um kostnað við að halda starfsmann til að geta sinnt umsögnum og öðrum hagsmunamálum sparifjáreigenda. Samtökin vilja ítreka að þau óska eftir að fá tekjur á svipaðan hátt og Fjármálaeftirlitið til þess arna.“

Virðulegi forseti. Ég tel að í því umróti sem núna er á fjármálamarkaðnum þar sem menn eru með viðvörunarbjöllur á lofti varðandi stöðu fjármálakerfisins sé full ástæða til þess að Samtök fjárfesta komi meira að þessum málum til þess að gæta hagsmuna sparifjáreigenda og innstæðueigenda en þeir hafa haft tök á til þessa. Hvet ég til þess að viðskiptaráðherra skoði þá beiðni sem hér liggur frammi.

Ég tel líka ástæðu til þess, úr því að ég er að tala hér um Samtök sparifjáreigenda, að það verði skoðað mjög gaumgæfilega af efnahags- og viðskiptanefnd hver staða Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta er og hvort Fjármálaeftirlitið hafi gert athugasemdir við stöðu sjóðsins með tilliti til tryggingaverndar, áhættustýringar eða annarra þátta sem lúta að fjárhagslegri stöðu sjóðsins út frá öryggi innstæðueigenda. Ég hef lagt fram fyrirspurn þar að lútandi og spyr m.a. viðskiptaráðherra hvort tillögur hafi komið frá Fjármálaeftirlitinu til að styrkja fjárhagsstöðu sjóðsins eða eftirlit með honum.

Maður hugleiðir einmitt þegar menn eru með þessar viðvörunarbjöllur á lofti að það er mikið um útlán. Margir benda á hin Norðurlöndin sem gengu í gegnum fjármálakreppu fyrir nokkrum árum og það væri vert að við huguðum að innstæðu eigenda. Að því lýtur önnur fyrirspurn sem ég hef flutt, fyrir utan fyrirspurn um tryggingarsjóðinn. Ég vil vita hvernig tryggingavernd innstæðueigenda er háttað hérlendis samanborið við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, hver sé meðalinnstæða einstaklinga í viðskiptabönkum og sparisjóðum og hversu margir eiga innstæður, annars vegar undir og hins vegar yfir þeirri lágmarkstryggingavernd sem lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta kveða á um. Einungis er tryggð innstæða sparifjáreigenda að 1,7 millj. kr. meðaleign ef kemur til skakkafalla í bankakerfinu.

Ég hef einmitt lagt fyrirspurn fyrir ráðherrann um hvort hann telji rétt í ljósi aðstæðna á fjármálamarkaði að grípa til aðgerða til að treysta betur stöðu innstæðueigenda og hvort hann telji að öryggi þeirra sé nægjanlega tryggt komi til alvarlegra skakkafalla hjá innlánsstofnunum þannig að þær geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart innstæðueigendum.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins nefna í lokin það sem ég lét koma fram í efnahags- og viðskiptanefnd, að ég tel að við eigum að huga að því hvort ekki sé rétt að Fjármálaeftirlitið sé fjármagnað á annan hátt en frá eftirlitsskyldum aðilum. Ég tel það hefta sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins að eftirlitsskyldir aðilar fjármagni það. Eftirlitsskyldir aðilar telja sig með því hafa meiri ítök í Fjármálaeftirlitinu en ég tel æskilegt. Ég tel að sjálfstæði þess væri betur tryggt ef ríkið fjármagnaði Fjármálaeftirlitið. Við fórum aðeins yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd að í nokkrum ríkjum, einum fimm ríkjum í Evrópu tel ég að hafi verið, greiðir ríkið allan kostnað við fjármálaeftirlit. Í tveim ríkjum greiðir ríkið helming á móti eftirlitinu en ég tel að við ættum að vera í hópi þeirra ríkja sem greiða allan kostnað af fjármálaeftirliti og tel það styrkja stöðu þess gagnvart eftirlitsskyldum aðilum ef svo er. Ég vil láta þessi verða lokaorð mín.