Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 10:02:52 (3084)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:02]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og fleiri lögum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ragnheiði Snorradóttur, Guðmund Thorlacius, Sigurð Guðmundsson, Benedikt Valsson og Fjólu Agnarsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Sigurð Óla Kolbeinsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Indriða Þorláksson og Gunnlaug Júlíusson frá ríkisskattstjóra, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins, Benedikt Davíðsson og Helga K. Hjálmsson frá Landssambandi eldri borgara, Ólaf Ólafsson og Stefaníu Björnsdóttur frá Félagi eldri borgara í Reykjavík, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Eddu Rós Karlsdóttur frá Landsbanka Íslands, Arnór Sighvatsson og Markús Möller frá Seðlabanka Íslands, Elínu Pálsdóttur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og Guðjón Bragason frá félagsmálaráðuneyti.

Í frumvarpinu eru lagðar til skattalækkanir sem koma til framkvæmda í áföngum á árunum 2005 til 2007. Mestu munar um lækkun á tekjuskattshlutfalli manna um 4% auk afnáms eignarskatts á einstaklinga og lögaðila. Frumvarpið er 144 greinar auk gildistökuákvæðis og skiptist í 52 kafla. Meginefni frumvarpsins er að finna í I. kafla þess sem er lækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga um 4% í áföngum, hækkun á viðmiðunarfjárhæðum laganna, hækkun á barnabótum, afnám eignarskatts á einstaklinga og lögaðila, og breytingar vaxtabóta, auk breytinga á framkvæmd laganna. Hvað varðar hið síðasttalda ber helst að nefna að þegar fram fer rannsókn við embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins eða hjá ríkislögreglustjóra á skattskilum aðila er lagt til í frumvarpinu að heimild til endurákvörðunar skuli reiknast frá byrjun þess árs þegar rannsókn hófst en nú er miðað við tímann þegar endurákvörðun fer fram.

Í öðrum köflum frumvarpsins er fyrst og fremst að finna ákvæði um lagasamræmingu sem nauðsynleg er vegna niðurfellingar eignarskatts.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu er varða brottfellingu tilvísana í eignarskattsákvæði núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt þar sem annaðhvort hefur ekki verið tekið tillit til breytinganna sem frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi eignarskatta eða þær tillögur sem koma fram í frumvarpinu eru ekki fullnægjandi að mati nefndarinnar. Þá er og lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins hvað varðar óþarfa tilvísun og uppsetningu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í þingskjali 598.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Ásta Möller og Siv Friðleifsdóttir.

Herra forseti. Mig langar til að bæta við nokkrum orðum frá eigin brjósti. (Gripið fram í: Fagnaðarlátum.) Það er í fyrsta lagi að þetta er mikill hamingjudagur (Gripið fram í.) vegna þess að við erum að móta þjóðfélagið til framtíðar. Það er hlutverk þingmanna að setja ramma um þjóðfélagið í nútíð og til framtíðar og þær breytingar sem hér er verið að gera munu hafa áhrif til áratuga til hagsældar fyrir þessa þjóð.

Vil ég þar fyrst og fremst nefna eignarskattinn sem hverfur, herra forseti, hann hverfur hreinlega. Það er vissulega mikil breyting til framtíðar. Þá er gert ráð fyrir því að tekjuskattar fari hratt lækkandi á næstu þremur árum, hratt lækkandi, um 4%. Það er líka stefnumótun til framtíðar. Það er eitthvað sem mun móta þetta þjóðfélag næstu áratugina á þessari öld. Sú breyting mun verða til þess að fólki er ekki lengur refsað fyrir að vinna og sýna dugnað og snilli og mennta sig, heldur er það hvatt til að afla meiri tekna öllum til hagsbóta, fólkinu sjálfu og þjóðfélaginu í heild. Þá er ekki síst að nefna hækkun á barnabótum sem gerir það að verkum að þetta frumvarp er félagslega mjög í lagi. Það bætir stöðu þeirra sem verst eru settir, barnafólks og þeirra sem hafa lágar tekjur sem gerir það að verkum að þetta frumvarp er félagslega mjög réttlátt.

Þær breytingar sem hér er verið að gera til mótunar á íslensku þjóðfélagi til framtíðar eru til þess fallnar að gera það samkeppnishæfara í samkeppni þjóðanna þannig að velferð haldi áfram að vaxa. Þær eru þáttur í röð á breytingum sem gerðar hafa verið. Vil ég þar fyrst og fremst nefna fjármagnstekjuskattinn sem er veruleg einföldun og samræming á öllum fjármagnstekjum og hefur gert það að verkum að atvinnulífið hefur tekið á flug sem aldrei fyrr — er a.m.k. einn þáttur í því — og hefur aflað ríkissjóði stóraukinna tekna þó að í mörgum fjármagnstekjum hafi skatturinn lækkað umtalsvert. Það vill nefnilega oft þannig til að þegar skattáþján er aflétt af klárnum tekur hann á sprett.

Þá má nefna erfðafjárskattinn sem var mjög þungur og mjög flókinn en er núna afskaplega einfaldur og léttur, herra forseti. Hann er svo einfaldur að ég get sagt það bara hér og nú hvernig hann er. Fyrsta milljónin í dánarbúi er skattfrjáls, svo einfalt er það, og restin með 5%, svo einfalt er það. Það er alveg sama hvernig tengsl erfingja og hins látna voru. Þetta eru allir erfiðleikarnir við að muna það.

Svo er hátekjuskatturinn aflagður. Það er búið að leggja hann af og hann deyr út á næstu tveimur árum. Allar þessar aðgerðir eru í þá veru að móta það þjóðfélag sem við búum í til framtíðar. Þetta er mjög vogað skref og framtíðarvísandi af hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er vissulega hamingjudagur.

Í umræðunni undanfarna daga hafa menn verið uppteknir af því að kíkja á fölnuðu laufblöðin í sverðinum í skóginum en þeir sjá ekki trén, hvað þá að þeir sjái skóginn sem blómstrar og er iðjagrænn sem aldrei fyrr. Nei, menn eru að skoða einstök laufblöð og eru uppteknir alveg hreint allan daginn af því, enda get ég vel ímyndað mér að það sé erfitt að vera í stjórnarandstöðu í dag, það sé erfitt að gagnrýna þessar ráðstafanir nema náttúrlega hjá þeim þingmönnum sem vilja meiri skatta, sem hafa það sem stefnumið að jafna tekjur, hvað sem það kostar.

Herra forseti. Þetta er mikill hamingju- og hátíðardagur og nú stefnir allt saman í að þetta verði jafnvel að lögum á morgun og þá verður enn meiri hátíðardagur í þessu þjóðfélagi.