Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 11:13:03 (3109)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:13]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ákaflega sjaldgæft að þingmenn segi eitt í einni ræðu og breyti svo afstöðu sinni í ræðu sem haldin er tveimur mínútum síðar. Hv. þm. sagði í seinni ræðu sinni alveg blákalt að það væri ekki Framsóknarflokkurinn sem legðist gegn því að matarskatturinn væri lækkaður. Hvað sagði hún undir lok fyrri ræðu sinnar? Hún sagði það alveg svart á hvítu að lækkun matarskattsins væri ekki forgangsmál hjá Framsóknarflokknum. Einmitt vegna þess að það er ekki forgangsmál hjá Framsóknarflokknum leggst flokkurinn þvert gegn því að matarkostnaður íslenskra heimila lækki um 5 milljarða. Það er ekki hægt að hlaupa frá því.

Svo vil ég óska hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur til hamingju með það að hún er núna að ná til baka fjórðungi þess ránsfengs sem Framsóknarflokkurinn plokkaði af barnafólki á árunum 1995–2003. Það tekur þá sennilega um fjögur kjörtímabil að ná því öllu.