Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 15:04:54 (3161)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:04]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, ég tel að forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna í skattamálum sé rétt og hef útlistað það og fært fyrir því rök af hverju það er.

Tökum aftur upp barnabæturnar, 2,4 milljarðar kr. fara núna aukalega í barnabætur. Við erum að hækka bótafjárhæð, við erum að hækka tekjuskerðingarmörkin og við erum að lækka skerðingarhlutfallið. Þetta tel ég vera gríðarlega mikilvæga leið til þess að jafna stöðuna og koma til móts við tekjulága í landinu.

Hv. stjórnarandstaða hefur gagnrýnt að við séum í aðgerðum sem gagnast fyrst og fremst eignafólki og hátekjufólki. Þetta er ekki rétt. Ef við tölum bara um eignarskattinn kemur hann sér vel fyrir eldri borgara og við höfum farið í gegnum stöðu eldri borgara í landinu, þeir hafa ekki breið bök. Fram kom í umsögnum Landssambands eldri borgara í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að þeir eru mjög meðmæltir breytingunni, vildu reyndar helst fá hana strax um áramótin. Landssamband eldri borgara talaði fyrir hönd fólks sem hefur lítil laun og telur forgangsröðun okkar vera rétta. Ég ítreka því orð mín að við höfum forgangsraðað rétt.