Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 19:47:34 (3247)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:47]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður tók alveg rétt eftir fyrri hlutanum af því sem ég var að ræða um í sambandi við áhættuþættina sem núna eru til staðar og eru miklir. Ég viðurkenni t.d. að ég var undir nokkrum áhrifum af því að hlusta á sérfræðinga á fundi í morgun sem fóru rækilega yfir þetta, áhættuþættina út frá rekstri fjármálastofnana, áhættuþættina fyrir þjóðarbúið í heild sinni vegna greiðsluflæðisins til og frá landinu og annað í þeim dúr. Þar ræddu þeir hreinskilnislega um það að gríðarlegur viðskiptahalli af því tagi sem við búum við getur orðið meiri háttar hausverkur vegna þess að hann þarf að fjármagna jafnóðum, það verður að slá fyrir honum. Ef allt í einu þorna þær lindir sem hafa þýtt fjármagnsflæði til landsins á móti viðskiptahallanum eru menn í miklum vanda. Þetta eru ósköp einfaldlega staðreyndir. Það er líka veruleiki og staðreynd að við erum lítið, opið og tiltölulega óvarið hagkerfi. Við erum ákaflega lítið, opið hagkerfi með sjálfstæðan gjaldmiðil og lítinn gjaldeyrisvarasjóð. Þótt hann hafi styrkst talsvert á undanförnum missirum er hann samt mjög lítill þegar við höfum í huga hátt útflutnings-/innflutningshlutfall í hagkerfinu miðað við stærð þess.

Þetta eru bara staðreyndir, veruleikinn. Hins vegar skjátlast hv. þingmanni þegar hann dregur af því að ég bendi á þessar hættur þá ályktun að ég vilji endilega fara til baka í einhverjar allt aðrar áttir, til hafta í gjaldeyrisviðskiptum eða annars slíks. Það er ekki svo. Ég tók þátt í því, og studdi meira að segja og sat í ríkisstjórn sem létti hömlum af verslun með gjaldeyri og hef alls ekkert verið í neinum ágreiningi um það. Auðvitað hlytum við að þróa hagkerfi okkar að þessu leyti hvað varðaði utanríkisviðskipti, gjaldeyrisviðskipti og annað í sömu áttir og önnur lönd. Það er ekki neinn grundvallarágreiningur um það. Ég var ekki endilega alltaf sammála einstökum skrefum sem voru tekin í því en ég hef gaman af því að minna sjálfstæðismenn á það að það var vinstri stjórnin sem sat hér við völd frá (GÞÞ: … seinni spurningin …) 1988 til — ég skal svara seinni spurningunni í næsta andsvari ef ég má. Ég hef bara tvö tækifæri. Það yrði að sjálfsögðu ekkert lögmál að tekjur (Forseti hringir.) hækkuðu ekki með hækkun skattprósentna. Auðvitað fer það allt eftir því (Forseti hringir.) á hvaða róli menn eru í því hver áhrifin eru.