Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 22:34:48 (3279)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:34]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ber meiri virðingu fyrir hv. þm. Kristjáni L. Möller en svo að ég kaupi þetta svar hans. Það lá alveg fyrir í ræðu hans að hann var á móti afnámi eignarskattsins vegna þess að það kom fyrirtækjum og einstaklingum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu betur en á landsbyggðinni.

Ástæðan fyrir því að á höfuðborgarsvæðinu er kannski greiddur meiri eignarskattur en á landsbyggðinni er sú að hér þarf að greiða meira fyrir eignirnar. Það hlýtur að nýtast fyrirtækjum á landsbyggðinni vel að þurfa að greiða minna fyrir eignirnar, það segir sig sjálft, þannig hlýtur þetta að jafnast út á ýmsa vegu. Ef menn ætla að fara að finna einhvern flöt á slíkum hlutum þá eru menn komnir í sérkennilegar æfingar.

Ég spurði hv. þingmann hins vegar: Hvað varð um áherslur á lækkun jaðarskatta hjá Samfylkingunni? Í kosningabaráttunni tókumst við á við frambjóðendur Samfylkingarinnar víðs vegar, í fjölmiðlum og annars staðar, og alltaf var talað um að þeir ætluðu að lækka jaðarskatta. Hvað varð um það mál, hv. þingmaður?