Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 23:20:18 (3294)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:20]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er búið að setja nefnd í virðisaukaskattinn. Það á því að bæta við skattalækkun í virðisaukaskatti ofan á þá 22–23 milljarða kr. sem eiga að koma til framkvæmda 2007. Ég spyr: Er pláss fyrir þá hamingju líka þegar menn treysta sér ekki til að fara í neinar skattalækkanir á fyrstu tveimur árum þessa kjörtímabils hjá þessari ríkisstjórn? Treysta menn sér samt til þess að bæta við þá 22 eða 23 milljarða kr. sem búið er að taka ákvörðun um?

Hv. þingmaður vildi ræða um efnahagsmálin. Trúir hann því sjálfur, ef það er ekki hægt að láta neina skattalækkun koma fram á því ári sem er að líða og ekki á næsta ári, að hægt sé að kasta inn 26–27 milljarða kr. skattalækkun á árinu 2007?