Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 23:33:13 (3306)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:33]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar skattar eru lækkaðir þá er vandamálið það að þá er einungis hægt að lækka hjá þeim sem greiða skatta. Það er ákveðin „dílemma“ sem við stöndum frammi fyrir. Þeir sem greiða lága skatta fá minna út úr því þegar tekjuskattsprósentan er lækkuð en þeir sem greiða háa skatta. Ég fór yfir það í máli mínu að það verður eftir sem áður þannig að þeir sem hæstar hafa tekjurnar greiða hæsta hlutfallið af launum sínum í tekjuskatt.

Ég tel það forgangsverkefni í þessu tilliti að lækka almennu skattprósentuna. Ég tel mig hafa sýnt fram á það með dæmum að við séum að lækka tekjuskatta á hinum vinnandi manni, venjulegu fólki. Hér er alltaf tínt til langlaunahæsta fólkið og fólkið sem greitt hefur svonefndan hátekjuskatt en þegar betur er að gáð þá er hann tiltölulega lágt yfir meðallaunum.

Varðandi þá sem bágust hafa kjörin bendi (Forseti hringir.) ég á þá staðreynd að kaupmáttur þeirra hefur aukist ár frá ári (Forseti hringir.) og það er mikilvægast.