Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 23:54:44 (3311)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:54]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gaf mér ekki greinargóð svör í svari sínu. Okkur vantar tekjur eins og ég kom inn á áðan í fyrra andsvari mínu. Við stefnum inn í stóran skaða fyrir atvinnuvegina í landinu. Verðbólguþróunin er alvarleg og það er ekki verið að grípa til réttra aðgerða til þess að mæta henni. Seðlabanki Íslands hækkar stýrivextina með tilheyrandi afleiðingum fyrir atvinnuvegina í landinu. Á sama tíma hefur núverandi ríkisstjórn þann möguleika að nýta bindiskyldu sína og takmarka innstreymi fjármagns til viðskiptabankanna sem fyrst og fremst leiðir af breytingum á fasteignamarkaði í landinu. Við eigum að róa umhverfið á sama tíma og við boðum lækkanir á sköttum upp á 22 milljarða.

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann annarrar spurningar og ég vænti svars núna. Það vill svo til að sjávarútvegurinn í landinu aflar okkur nærri helmings tekna. Sér hv. þingmaður tækifæri í því að breyta íslenskum sjávarútvegi að einhverju leyti, til að mynda að endurskoða aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar Íslands sem hefur haldið tekjum íslensks sjávarútvegs í heljargreipum síðan sú stofnun fékk þau völd sem hún heldur utan um í dag? Eigum við möguleika á því að auka veiðiálag og dreifa því jafnframt á bolfiskstofna við landið á næstu missirum eður ei? Eða erum við að horfa fram á jafngelda sjávarútvegsstefnu á næstu árum og núverandi stjórnarflokkar hafa haldið utan um síðustu 20 árin?