131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:13]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar afskaplega mikið til að fá hv. þingmenn til að segja að þetta gjald hækki að raungildi. Ég vildi að hv. þingmaður segði alþjóð að þetta gjald sé að hækka að raungildi þegar fyrir liggur að verðbólgan er 8,4% og gjaldið er hækkað um 3,5%. Mig langar mikið til þess að hv. þingmaður lýsi því yfir í eitt skipti fyrir öll að gjaldið hækki að raungildi. Þá veit öll þjóðin hvernig hv. þingmenn Samfylkingarinnar hugsa.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Er gjaldið að hækka að raungildi eða að lækka? (Gripið fram í: Síðan hvenær?) Síðan 1. janúar 2002. Það er það sem um er að ræða. Það hefur ekki hækkað síðan það hækkaði þá. Allar fyrri pólitískar ákvarðanir um að hækka eða lækka þetta gjald koma þessu máli ekki við.

Ég vil bara fá svar við þessu eina: Hefur þetta gjald hækkað eða lækkað að raungildi síðan 1. janúar 2002?