Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 11:17:09 (3410)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[11:17]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þau hrynja í gegnum þingið, frumvörpin sem fela í sér nýja laumuskatta. Hér er verið að greiða atkvæði um frumvarp til laga um aukatekjur ríkissjóðs. Það er verið að hækka álögur á landsmenn um hundruð milljóna. Hérna er ríkisstjórnin líka að nota þessa nýju skattalækkunaraðferð sem felst í því að hækka skattana áður, og þeirri aðferð er helst lýst með aðferð þingskáldsins sem orðaði það svona, með leyfi hæstv. forseta:

Ef ég bara hefði hattinn,

hann ég tæki ofan bráður.

Leiðin til að lækka skattinn

liggur í því að hækka hann áður.