Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 14:50:42 (3447)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[14:50]

Frsm. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér leitt, og ástæða til að ræða það við hæstv. forseta, að sú deila sem virðist hafa risið upp í hv. menntamálanefnd skuli nú hljóma um sali Alþingis. En ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að vissulega mætti þar ýmislegt betur fara í samskiptum manna og ástæða til að beina þeim orðum til hæstv. forseta að hann taki það mál upp og beiti sér fyrir því að vinnubrögð þar batni þannig að friður ríki og árangur náist í vinnu mála.

Það er einnig, virðulegi forseti, ástæða til að beina því til hæstv. forseta að hér féllu ansi stór orð af hálfu hv. þm. Kjartans Ólafssonar þar sem hann sakaði hv. þm. Mörð Árnason um ósannindi og var þar að vísa í eitthvað sem hafði átt sér stað í nefndinni og nefndarstörfum. Mér þykja þessar dylgjur þingmannsins vægast sagt undarlegar og furðulegar og átta mig alls ekki á hvað hann á við og í hvað hann grípur þegar hann ber annan þingmann, kollega sinn, svo þungum sökum, sakar hann um lygar og ósannindi með mjög undarlegum hætti.

Ég ætla að beina því til forseta að hann dragi það fram hvað hv. þingmaður eigi við þegar hann fer svo stórum orðum um málflutning félaga síns í ákveðinni þingnefnd. Er þetta framlag, virðulegi forseti, Sjálfstæðisflokksins og þingmanna hans í nefndinni til að bæta samskipti manna þar, til að bæta vinnubrögðin þar, til að koma þar á vinnufriði þannig að úr málum megi leysa? Ekki tel ég svo vera, virðulegi forseti, og ég held að forseti hljóti að verða að blanda sér í það þegar svo þung orð eru borin á þingmann og vísað þar í nefndarstörf einhvers konar og það sem menn séu að ræða í nefndunum og hér inni í þingsölum, sem er vissulega sjaldgæft og oft erfitt að fara með. Þetta er ekki gott mál. Menn tala hér um dónaskap og ósannindi og bera slík brigslyrði á einn ákveðinn þingmann. Ég held að hæstv. forseti verði að beita sér fyrir því að hv. þm. Kjartan Ólafsson gangi hér fram af kurteisi, yfirvegun og almennum mannasiðum, hann beiti sér fyrir því að hv. þingmaður rifji upp mannasiðina og sleppi slíkum brigslyrðum þegar hann ræðir hér við kollega sína um mál úr nefndum.