Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 16:55:13 (3485)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:55]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur áðan að hækkunin sem um ræðir er ekki einungis verðlagsuppbætur heldur er einfaldlega um aukna þjónustu að ræða af hálfu háskólanna. Ég held að háskólarnir hafi rökstutt hækkunina og þá þjónustu sem býr að baki mætavel.

Það sem er mikilvægt í þessu líka og hefur kannski ekki komið fram að menn telja eðlilegt að nemendur skynji muninn á annars vegar þjónustunni og hins vegar kennslunni. Þess vegna höfum við byggt upp það fyrirkomulag sem ég lýsti áðan varðandi kennslusamningana, rannsóknarsamningana og skráningargjöldin.

Auðvitað hefur átt sér stað jákvæð þróun í háskólamálum á undanförnum árum. Það hefur orðið aukning, bæði fjölgun nemenda og aukning fjármagns. Við sjáum það líka á tölunum frá OECD og fleiri stöðum. En það er aldrei nóg að gert, ég hef margítrekað það og að sjálfsögðu er það hlutverk menntamálaráðherra með stuðningi þingsins að fá aukið fjármagn í skólana og í allt skólakerfið því við erum að byggja upp til framtíðar. Þetta þekkjum við öll og vitum öll.

Ég vil líka geta þess að skömmu eftir að ég tók við starfi sem menntamálaráðherra ákvað ég í samráði og samvinnu við Háskóla Íslands og rektor Háskóla Íslands að biðja Ríkisendurskoðun um stjórnsýslu- og fjárhagsúttekt á fjármálum háskólans. Það hefur aldrei verið gert með þeim hætti sem við fórum fram á við Ríkisendurskoðun. Að sjálfsögðu vonast ég til þess að sú úttekt sem og úttekt sem gerð var á vísindum og rannsóknum innan háskólans muni verða ákveðnir vegvísar fyrir næstu ár og sér í lagi hvernig hægt er að hlúa betur að þeim deildum sem þurfa á aðhlynningu að halda og hv. þingmaður kom inn á.