Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 17:57:43 (3502)


131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[17:57]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Við tökum nú hér til við umræðu sem frestað var fyrir allnokkru síðan. Umræðan er um tillögu okkar formanna stjórnarandstöðuflokkanna þriggja til þingsályktunar um innrásina í Írak.

Tillagan er í reynd þríþætt, herra forseti. Í fyrsta lagi er lagt til af okkar hálfu að Alþingi lýsi því yfir að Íslendingar afturkalli með táknrænum en formlegum hætti stuðning sinn við innrásina í Írak og þeir séu þar með ekki lengur í hópi hinna svonefndu „viljugu“ þjóða. Það þýðir ekki, herra forseti, að Íslendingar eigi ekki að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem alþjóðasamfélagið hefur ákveðið að ráðast í í Írak eftir þau skelfilegu átök sem segja má að hafi lagt margar af helstu borgum þjóðarinnar í rúst og skilið eftir ótrúlegar hörmungar.

Ég tel líka rétt að það komi fram að af hálfu Samfylkingarinnar er það alveg ljóst að sökum þeirrar siðferðilegu ábyrgðar sem segja má að Íslendingar beri sökum stuðnings við innrásina beri okkur að taka betur á en við höfðum áður afráðið og leggja meira til uppbyggingarinnar en áður var búið að ákveða.

Í öðru lagi er í tillögunni lagt til að Alþingi taki undir það álit framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að innrásin hafi verið ólögmæt.

Í þriðja lagi er lagt til að Alþingi samþykki að skipa nefnd sjö þingmanna sem hafi það með höndum að rannsaka aðdraganda og ástæður þess að ríkisstjórn Íslands ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak 20. mars árið 2003 án nokkurs samráðs við Alþingi. Við sem flytjum þessa tillögu látum það koma fram í tillögugreininni sjálfri að við teljum að það sé nauðsynlegt að nefndin fái í þessu skyni í hendur öll gögn stjórnvalda, þar með taldar fundargerðir, minnisblöð og greinargerðir sem geta varpað ljósi á þetta ferli.

Herra forseti. Fátt hefur sært íslensku þjóðina jafnmikið og þessi stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásina. Þau sárindi stafa ekki síst af því að stuðningurinn var settur fram án nokkurrar undangenginnar umræðu. Það var hvergi farið að þeim lögum sem þó mæla skýrt fyrir um að haft sé samráð við utanríkismálanefnd um allar meiri háttar ákvarðanir á sviði utanríkismála. Það er ekki hægt að segja að þessi gjörningur, stuðningur stjórnvalda við innrásina, falli undir nokkuð annað en það sem hægt er að skilgreina sem meiri háttar ákvörðun á sviði utanríkismála og það hlýtur að þurfa að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig stendur á því að ráðist var í að lýsa yfir þessum stuðningi án þess að haft væri lögskipað samráð við utanríkismálanefnd þingsins?

Sömuleiðis verður hæstv. utanríkisráðherra líka að svara því: Hvar var þessi ákvörðun tekin og hverjir tóku hana? Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra alveg sérstaklega að því hvort það sé rétt að formleg ákvörðun hafi aldrei verið tekin um málið innan ríkisstjórnarinnar. Sömuleiðis vil ég spyrja hann og þá sem taka hér til máls af hálfu Sjálfstæðisflokksins hvort það sé líka rétt að þessi ákvörðun hafi aldrei verið rædd áður en hún var tekin innan þingflokka stjórnarinnar. Ef svo er, herra forseti, hlýtur maður óhjákvæmilega að velta því fyrir sér hvort hér sé ekki um ólögmæta ákvörðun að ræða. Í öllu falli er alveg ljóst að hæstv. núverandi forsætisráðherra skipti mjög fyrirvaralítið og skyndilega um skoðun á þessu máli.

Eins og við munum voru þær forsendur sem lágu innrásinni til grundvallar af hálfu Bretlands og Bandaríkjamanna fyrst og fremst tvenns konar. Í fyrsta lagi að það þyrfti að ráðast inn í Írak til þess að uppræta þar gereyðingarvopn sem forsvarsmenn þessara tveggja þjóða og margir fleiri þjóðarleiðtogar, þar á meðal hinir íslensku, töldu að heimsbyggðinni stafaði hætta af. Í öðru lagi þyrfti sömuleiðis að uppræta víghreiður hermdarverkasamtaka eins og al Kaída sem haldið var fram að væri að finna í Írak.

Herra forseti. Það hefur síðan komið í ljós að þetta var rangt. Hvorki tangur né tetur hefur fundist af þessum gereyðingarvopnum og það er ekkert sem bendir til að nokkur gereyðingarvopn hafi verið í landinu nema þau sem á sínum tíma voru búin til með stuðningi Breta og með leyfi Vesturveldanna frá þeim tíma þegar Saddam Hussein var talinn vinur þeirra, þegar hann var sérstakur vinur Bandaríkjamanna sem litu á hann sem fulltrúa sinn í þessum hluta heims.

Sömuleiðis verður það líka að segjast að það er ekkert sem bendir til þess að fyrir innrásina hafi Írak verið sérstakt víghreiður al Kaída hermdarverkasamtakanna. Hins vegar má segja að eftir að átökin hófust með þeim skelfilegu afleiðingum sem við sjáum í Írak hefur landið að sjálfsögðu orðið miðstöð fyrir hvers konar skæruliða sem þangað hafa streymt til að taka þátt í þessum átökum.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem var utanríkisráðherra á þessum tíma: Með hvaða hætti sinnti hann þeirri rannsóknarskyldu sem verður að álíta að sé sjálfsögð gagnvart þeim gögnum sem hann hlýtur að hafa byggt sína ákvörðun á ásamt þeim manni sem nú gegnir embætti hæstv. utanríkisráðherra?

Það liggur fyrir að hæstv. forsætisráðherra lýsti eftirfarandi yfir í fjölmiðlum 17. september, tveimur dögum eftir að hann tók við núverandi stöðu sinni, með leyfi forseta:

„En það er ljóst að það er margt í þessu máli sem menn hefðu viljað sjá öðruvísi og ýmsar upplýsingar sem bæði ég og aðrir fengu á sínum tíma sem stóðust ekki.“

Herra forseti. Það verður að koma fram hvaða upplýsingar þetta voru, hverjir létu þær af hendi og hvernig hæstv. utanríkisráðherra reyndi að grafast fyrir um sannleiksgildi og áreiðanleika þeirra upplýsinga. Það er til að mynda sjálfsögð krafa gagnvart hæstv. utanríkisráðherra, miðað við þá stöðu sem þá var uppi hér innan lands, að hann hefði reynt að grafast fyrir um það innan þeirra marka sem honum voru möguleg hvað var að baki þeim upplýsingum sem hann fékk. Ég geri ráð fyrir að þær upplýsingar sem hann hafi m.a. fengið í sínar hendur hafi verið staðhæfingar forustumanna þessara tveggja innrásarþjóða um t.d. gereyðingarvopnin. En hæstv. forsætisráðherra hafði ítrekað og mörgum sinnum lýst því yfir í fjölmiðlum og hér á þingi að það ætti að gefa vopnaeftirliti Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til þess að grafast fyrir um áreiðanleika slíkra fullyrðinga. Og það verður að koma fram í þessari umræðu að á þeim tíma, um þær mundir sem þessir tveir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tóku ákvörðun sína, komu fram fullyrðingar frá vopnaeftirliti Sameinuðu þjóðanna, frá Hans Blix, um að þeir drægju í efa að slík vopn væri þar að finna.

Ég tel þess vegna að það hefði verið eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra hefði sinnt rannsóknarskyldu sinni með því að hafa samband við yfirmann vopnaeftirlitsins og ganga úr skugga um afstöðu hans til þess. Ég spyr hæstv. ráðherra að lokum: Hvað olli sinnaskiptum hans gagnvart þessu atriði?