Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 18:45:16 (3507)


131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[18:45]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það ber að þakka að þessari umræðu skuli fram haldið í dag, þótt fyrr hefði mátt vera.

Í upphafi máls míns langar mig að víkja að því sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Sólveig Pétursdóttir sagði í upphafi ræðu sinnar þar sem hún frábað sér þessara furðulegu og endalausu umræðna um fortíðina, að mál væri að linni. Og mér varð hugsað sérstaklega til flokksbræðra hennar sem árum saman hafa þjösnast í sama farinu um að allir sem einhvern tíma hafa kennt sig við vinstrimennsku þyrftu að gera upp við sál sína og samvisku eftir fall Berlínarmúrsins. Og þá var horft lengra aftur í tímann en tvö ár, hæstv. forseti, miklu, miklu lengra. Að öðru leyti var ræða hv. formanns utanríkismálanefndar endurtekning á dæmalausum málflutningi úr umræðum um skýrslu utanríkisráðherra fyrr í haust.

Þetta mál snýst í raun, hæstv. forseti, um gangvirki lýðræðisins á Íslandi, um það hvernig staðið er að meiri háttar ákvörðunum og í þessu tilviki meiri háttar utanríkispólitískri ákvörðun, og það er álit stjórnarandstöðunnar að það hafi ekki verið gert með fullnægjandi hætti. Það er kjarni málsins.

Hefði ríkisstjórnin og forustumenn hennar haft einhvern áhuga á að skýra málið til hlítar þá hafa þeir haft alla möguleika á því mánuðum og missirum saman. Það er þessi langa bið þegar þeir móast við sem leiðir mann til þess að hugsa að kannski hafi ekki allt verið sagt í þessu máli, allt sem þarf að segja, kannski hafi ekki allt komið fram sem varðaði ákvarðanatökuna, sem bæði hið háa Alþingi og Íslendingar eiga rétt á að vita sem þegnar í frjálsu ríki og sem kjósendur. Það er að mínu áliti kjarni málsins.

Það er vert að minna á í þessari umræðu að bæði á bandaríska þinginu og því breska, á þingum þeirra tveggja þjóða sem stóðu fyrir innrásinni í Írak, hefur farið fram ítarleg og mikil umræða um þetta mál. Þar þurfti samþykki þinganna. Forseti Bandaríkjanna lýsir ekki einn yfir stríði, það er ekki þannig, herra forseti. Það þarf samþykki vegna þess að þannig er gangvirki lýðræðisins, þannig bera menn ábyrgð í stjórnmálum, þannig axla menn hina pólitísku ábyrgð, hæstv. forseti, en hæstv. forsætisráðherra varð tíðrætt um hér áðan að hann hefði axlað hina pólitísku ábyrgð með þessari ákvörðun.

Þar á bæ mæta ráðamenn, ráðherrar meðal annars, og sitja fyrir svörum í þingnefndum á opnum fundum og þeim ber að sjálfsögðu að svara samkvæmt bestu samvisku og halda engu leyndu. Það má læra ýmislegt af bandamönnum okkar og vinum, Bretum og Bandaríkjamönnum, þó að það þýði ekki að við séum samþykk öllu sem þeir ákveða.

Hæstv. forsætisráðherra ræddi einnig að við værum föst í fortíðinni en það virðist vera viðlagið í þessari umræðu ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar. Hann fór yfir aðdraganda hinnar afdrifaríku ákvörðunar og notaði m.a. tækifærið til að kenna Frökkum um að ekki hefði fengist ný ályktun samþykkt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og sagði síðan að málið hefði verið rætt á ríkisstjórnarfundi 18. mars 2003.

Mér er ekki kunnugt um, hæstv. forseti, að þetta hafi áður komið fram í umræðunni um Írak. Ég spyr enn og aftur: Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki notað þau mörgu tækifæri sem hún hefur haft til að skýra málið til hlítar svo að við þurfum ekki að standa hér vikum, mánuðum og árum saman og langt inn í framtíðina — því að ég hygg að við séum tilbúin til þess ef þörf krefur — til að reyna að komast til botns í því hvernig ráðherrarnir tveir hæstvirtir, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, komust að þeirri niðurstöðu að þeir gætu skuldbundið íslensku þjóðina til stuðnings við innrás í Írak án þess að ræða það við hv. utanríkismálanefnd, án þess að bera það undir Alþingi Íslendinga, án þess svo mikið sem að tilkynna þjóðinni um það nema með óbeinum hætti? Hvernig er hægt að komast að slíkri niðurstöðu? Og tala svo, hæstv. forseti, um pólitíska ábyrgð, að þeir hafi axlað sínar pólitísku skyldur og pólitísku ábyrgð. Hér er málinu algjörlega snúið á haus.

Þessir ágætu menn hefðu axlað pólitíska ábyrgð hefðu þeir brugðist við þeim óvenjulegu aðstæðum sem uppi voru og kallað til þingið, þó að búið hefði verið að slíta því vegna þingkosninga. Þegar brýn mál eru í húfi sem varða þjóðarhagsmuni, varða þjóðina alla þá ber mönnum að grípa til aðgerða sem duga og finna lausnir sem duga. Það tjóir lítt að hengja sig í einhver formsatriði um það. Formsatriði eiga ekki að þvælast fyrir gangvirki lýðræðisins, hæstv. forseti.

Hæstv. forsætisráðherra talaði í löngu máli um afstöðu Samfylkingarinnar og skilning hans á því að andstaða okkar við innrásina hljóti þar með að þýða að við séum andsnúin uppbyggingunni í Írak, að þar með styðjum við ekki ályktun 1546 frá öryggisráðinu. (Gripið fram í.) Þetta er svo fráleitur málflutningur að það tekur engu tali, hæstv. forseti. (Utanrrh.: Þið viljið kalla það til baka.) Við viljum ekki kalla til baka stuðning við ályktun 1546. Hæstv. forsætisráðherra ætti kannski að lesa tillöguna. Við viljum komast til botns í hvernig sú ákvörðun var tekin, herra forseti. Við viljum taka til baka þá ákvörðun að við höfum veitt innrásinni stuðning. En, herra forseti, þegar búið er að kveikja í húsinu þá koma allir til bjargar, það er ekki spurt: Hvernig gerðist þetta? Fyrst er reynt að bjarga mannslífunum og það er ekkert annað en hrein og klár ósvífni af hæstv. forsætisráðherra að halda því fram að Samfylkingin styðji ekki uppbygginguna í Írak.