Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 19:00:33 (3509)


131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[19:00]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Þessi umræða hefur að mínu mati verið fróðleg á margan hátt. Þótt tíminn sé ekki langur heyri ég að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa forðast að ræða ástandið í Írak þegar Saddam Hussein var þar við völd. Þeir mættu kannski draga nokkurn lærdóm af því sem kom fram á síðasta flokksþingi Verkamannaflokksins í Bretlandi þar sem kona frá Kúrdistan fór yfir málið og sýndi fram á hve hræðilegar hörmungar þetta fólk þurfti að ganga í gegnum áður. Það varð til þess að breyta allmikið umræðunni á þingi Verkamannaflokksins í Bretlandi. Ég held að það hefði verið ágætt að formaður Samfylkingarinnar á Íslandi hefði verið viðstaddur flokksþing Verkamannaflokksins hjá systurflokki sínum í Bretlandi. (ÖS: Var önnum kafinn …) Ja, hann var önnum kafinn í stjórnarandstöðu en hann mætti kannski læra heldur meira til að geta tekið þátt með afgerandi hætti í þessari stjórnarandstöðu.

Ég vil hins vegar aðallega beina athyglinni að ályktun 1546, framtíðinni og þeim mismunandi áherslum sem hafa komið fram hjá stjórnarandstöðunni í því máli. Talsmenn Samfylkingarinnar hafa upplýst, sem ég lýsi mikilli ánægju með, að þeir styðji ályktun 1546. Hún fjallar um að Sameinuðu þjóðirnar hafi leiðandi hlutverk og um stuðning við aðgerðir alþjóðaliðsins í Írak. Hún fjallar um alþjóðlega aðstoð og fjallar um að hersetan hafi endað 30. júní 2004. Hún fjallar um komandi kosningar í Írak, um nýja stjórnarskrá o.s.frv.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók hins vegar skýrt fram að það væri enginn slíkur stuðningur af hálfu Vinstri grænna. Hann sagði að innrásarliðið léki lausum hala í Írak. (SJS: Það gerir það.) Það gerir það, segir hv. þingmaður sem kallar hér fram í.

Hvað segja talsmenn Frjálslynda flokksins? Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson segir í grein í Morgunblaðinu að bandaríski herinn mæti þeirri andspyrnu sem hann eigi skilið í Írak. Styður hryðjuverkamennina. Hvers konar er þetta eiginlega?

Það er ljóst að stjórnarandstaðan er margklofin í þessu máli en flytur hins vegar sameiginlega tillögu um málið. Samfylkingin styður það sem er að gerast í Írak núna en heldur því hins vegar fram opinberlega að núverandi stjórnarflokkar beri ábyrgð á hörmungum í Írak. Væntanlega ber þá Samfylkingin sömu ábyrgð á hörmungum í Írak í dag, miðað við stuðning þeirra við þessa tillögu. En Vinstri grænir vilja eins og venjulega fara allt öðruvísi í málið. Þeir voru á móti viðskiptabanni og á móti því að fara í málin með þessum hætti (Gripið fram í.) en upplýsa aldrei, í þessu máli frekar en öðrum, hvað hefði átt að gera.

Það er afskaplega þægilegt að hafa þá pólitísku afstöðu í flestum málum að vera á móti því sem gert er. Það er afskaplega þægilegt að geta sagt: Ja, við vorum á móti því að fara inn í Afganistan. Við vorum nú á móti því að fara inn í Bosníu. Við vorum á móti því að taka á málum í Kosovo. Þeir segja aldrei neitt um hvað hefði átt að gera í stöðunni, ekkert um það hvað hefði átt að gera í sambandi við hörmungarnar sem voru í Írak á sínum tíma. (ÖJ: Hvort skyldi þetta vera einföldun eða einfeldni?)

Berum við enga ábyrgð í slíkum málum? Getum við setið hjá sem sjálfstæð þjóð í slíkum málum? Ég tel að svo sé ekki. En ég tel, herra forseti, að umræðan hafi skýrt málið. Ég fagna því sérstaklega að Samfylkingin hafi tekið þá afstöðu að styðja það sem nú er að gerast í Írak á grundvelli ályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1546. Ég tel afar mikilvægt að það hafi komið fram í þessari umræðu og hefur þá myndast meiri samstaða í málinu en ég hélt að væri. En jafnframt hefur komið skýrt fram að Vinstri grænir eru algjörlega á móti þessu og má þá kannski segja að svipuð afstaða sé á Alþingi Íslendinga og er hjá þinginu í Danmörku.