Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 21:56:22 (3552)


131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:56]

Frsm. 1. minni hluta (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil það vel að varaformaður Framsóknarflokksins sé ekki glaður á þessum dagi og í allan dag hafa ræður hans á hinu háa Alþingi einkennst af því að hann er pirraður og hann er bitur og sár. Ég er líka mannlegur eins og hæstv. landbúnaðarráðherra og mér mundi líða nákvæmlega svona ef ég stæði í skóm hans. Ef ég hefði horft á hugsjónir mínar teknar og tættar í sundur með þeim hætti sem Sjálfstæðisflokkurinn, undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals, hefur gert við pólitíska drauma bóndasonarins úr Árnessýslu þá mundi mér líka líða svona. Ef ég horfði til baka yfir þann feril sem hæstv. landbúnaðarráðherra á að baki með sínum flokki í þessari ríkisstjórn yrði ég heldur ekki glaður ef við blasti að á þessum tíma hefði Ísland orðið þriðja skuldugasta þjóð í heimi. Á þeim tíma frá því að Framsóknarflokkurinn tók við félagsmálaráðuneytinu er búið að plokka af íslenskum barnafjölskyldum sem svarar 10 milljörðum frá 1995 til 2003. Búið er að taka atvinnulausa þeim tökum að raungildi bóta þeirra á þessum tíma hefur verið skert sem svarar til tveggja mánaða bóta á ári.

Á þessum tíma hefur það líka gerst að í dag eru 29 þúsund Íslendingar sem eru með tekjur sem varla voru greiddir tekjuskattar af þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir steig út úr ríkisstjórn, en sá hópur borgar í dag sem svarar 2 milljörðum í tekjuskatt. Ef ég væri varaformaður hins gamla samvinnuflokks, Framsóknarflokksins, og horfði til baka og sæi yfir þetta landslag mundi mér líka líða eins og hæstv. landbúnaðarráðherra líður greinilega í kvöld.