Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 145. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 145  —  145. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um heiðurslaun listamanna.

Flm.: Mörður Árnason.



    Alþingi ályktar að veita skuli árlega heiðurslaun listamanna á fjárlögum. Heiðurslaunin séu að jafnaði veitt allt að fjörutíu íslenskum listamönnum hverju sinni og ekki færri en tuttugu og fimm. Sá sem hefur fengið heiðurslaun skal halda þeim ævilangt. Launin skulu að fjárhæð miðast við lífeyriskjör kennara.
    Menntamálanefnd geri, ef ástæða þykir til, tillögur fyrir 3. umræðu um fjárlagafrumvarp ár hvert um það hvaða listamenn bætist í þann hóp sem heiðurslaun hlýtur. Nefndin skal við það verk hafa samráð við forystumenn Bandalags íslenskra listamanna. Við tillögugerðina skal miða við að listamaðurinn hafi varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa, að hann hafi skarað fram úr við listsköpun sína eða störf hans að listum skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþjóðavettvangi, og að listamaðurinn sé kominn á eftirlaunaaldur eða nálgist starfslok. Nefndin skal eftir atvikum taka tillit til skiptingar í hópi heiðurslaunamanna eftir listgreinum og kynjum.

Greinargerð.


    Heiðurslaun listamanna voru veitt samkvæmt lögum nr. 29/1967 fram til 1991 þegar þau lög voru felld úr gildi en ný lög um listamannalaun, nr. 35/1991, tóku við. Í hinum nýju lögum var ekkert ákvæði um heiðurslaunin og hefur Alþingi síðan samþykkt að veita þau frá ári til árs í tengslum við fjárlagaumræðu að hausti.
    Um veitingu heiðurslauna hefur ekki verið verulegur vafi á Alþingi þótt engin séu lögin enda hefur þingið fullt frelsi til slíkrar fjárveitingar. Hins vegar hafa verið uppi ýmis viðhorf um ástæður heiðurslaunanna og hafa þau sjónarmið komið fram, m.a. af hálfu listamanna, að eðlilegt sé að gera skýran greinarmun á þeim og listamannalaunum (starfslaunum listamanna). Hér er gert ráð fyrir að Alþingi lýsi vilja sínum í þessum efnum með þingsályktun en án lagasetningar.
    Með samþykkt tillögunnar væru forsendur þessarar heiðursfjárveitingar skilgreindar á ýmsa vegu, að mestu í samræmi við þá hefð sem hefur skapast í meðförum þingsins. Menntamálanefnd stæði betur að vígi við val heiðurslaunahafa þar sem vísir að starfsreglum lægi fyrir. Samþykkt tillögunnar mundi að auki lýsa stöðu heiðurslaunahafa og greina betur á milli heiðurslaunanna og starfslauna listamanna en verið hefur.
    Listamenn sem njóta heiðurslauna voru í upphafi þessa árs 25 talsins. Hér er lagt til að sú tala marki framvegis lágmarksfjölda í þessum hópi, en eðlilegt er að smám saman fjölgi í hópnum enda hefur það verið reynslan undanfarna áratugi. Rétt þykir þó að hafa einnig efri mörk og er hér lögð til talan 40. Fyrirvari er þó settur við þessi mörk.
    Að tillögunni samþykktri lægi fyrir sá vilji Alþingis að heiðurslaunamenn njóti launa sinna til æviloka, eins og nú er venja.
    Í tillögunni er menntamálanefnd falið að gera tillögur um heiðurslaunamenn eins og verið hefur venja. Það nýmæli er hér lagt til að nefndin hafi samráð við Bandalag íslenskra listamanna um tillögu sína. Ljóst er að þingsályktun af þessu tagi nýttist nefndarmönnum vel við þessi störf í framtíðinni og samráð við samtök listamanna stuðlar að traustum faglegum grunni við tillögugerðina.
    Þeir listamenn koma til greina samkvæmt tillögunni sem skarað hafa fram úr í listsköpun sinni. Einnig er gert ráð fyrir að listamönnum geti talist til tekna mikilsvert verk í þágu lista hér og erlendis. Hér getur til dæmis verið um að ræða listamenn sem hafa staðið framarlega í listfræðum, verið frumherjar í listgrein eða frumkvöðlar í stefnum og straumum, forystumenn í félagslífi listamanna eða mikilvirkir í alþjóðasamskiptum á listasviði.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir að heiðurslaun hljóti að jafnaði listamenn sem eru komnir á almennan eftirlaunaaldur eða nálgast starfslok. Þetta er í samræmi við álit flestra þeirra sem um þessi mál hafa fjallað. Starfslaunaskipaninni er ætlað að tryggja stuðning við listamenn á ferli sínum og er ekki eðlilegt að blanda um of saman heiðurslaununum og starfslaununum. Orðalag í tillögunni ætti þó að tryggja að hægt sé að taka tillit til ýmislegra aðstæðna í þessu efni og er ekki miðað við ákveðinn lífaldur. Rétt er að geta þess hér að lífeyrismál margra listamanna hafa verið í bágu lagi og má ætla að það loði við áfram þrátt fyrir breyttar aðstæður í lífeyrismálum. Heiðurslaunin hafa af þessum sökum komið ýmsu öldruðu listafólki einkar vel.
    Þá er í tillögunni áskilið að taka skuli að öðru jöfnu tillit til skiptingar í heiðurslaunahópi eftir kynjum og listgreinum. Er það í samræmi við sjónarmið sem fram hafa komið við veitingu heiðurslauna að undanförnu.
    Þá er gert ráð fyrir að upphæð heiðurlauna haldist svipuð frá ári til árs og eru lífeyriskjör kennara hér lögð til sem viðmiðun. Starfslaunin nema nú 201.204 kr. á mánuði og eru miðuð við ákveðinn taxta háskólakennara (lektorslaun II). Mætti sem hægast mynda þá vinnureglu að heiðurslaunin séu að krónutölu ákveðið hlutfall af upphæð starfslaunanna, t.d. 80 eða 90 af hundraði. Í fjárlögum fyrir árið 2004 er upphæð heiðurslauna á mann aðeins 1,6 milljónir kr. á árinu, eða rúmar 133 þús. kr. á mánuði. Ef þessi leið yrði farin þyrfti að bæta nokkuð í fjárlagaliðinn strax í haust.
    Tillaga þessi er að nokkru sniðin eftir tillögu sem Svavar Gestsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, flutti á Alþingi vorið 1999 en komst aldrei til umræðu. Þar var einnig lagður til rammi um fjölda heiðurslaunamanna og að þeir héldu laununum ævilangt. Í tillögu Svavars var að auki miðað við 65 ára aldur og það aldursmark var einnig nefnt í frumvarpi að listamannalögunum frá 1991. Hér er hins vegar gert ráð fyrir nokkrum sveigjanleika gagnvart lífaldri heiðurslaunahafa.
    Þess má vænta að samþykkt þingsályktunartillögu sem þessarar skapi meiri festu við veitingu heiðurslaunanna og dragi úr núningi og jafnvel deilum sem stundum hafa komið upp um veitinguna. Heiðurslaunin eiga að vera mikilvæg viðurkenning sem Alþingi sæmir bestu listamenn okkar fyrir hönd þjóðarinnar og er þinginu skylt að búa heiðurslaununum umgjörð sem hæfir tilgangi þeirra.