Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 211. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 213  —  211. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



Breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið skal hafa samráð við lögbær yfirvöld í öðrum aðildarríkjum við mat á umsókn um starfsleyfi fjármálafyrirtækis sem er:
     a.      dótturfélag fjármálafyrirtækis eða vátryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki,
     b.      dótturfélag móðurfélags fjármálafyrirtækis eða vátryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki, eða
     c.      undir yfirráðum aðila, einstaklings eða lögaðila, sem hefur ráðandi stöðu í fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélagi í öðru aðildarríki.
    Samráð skv. 2. mgr. skal m.a. taka til upplýsinga um hæfi hluthafa og stjórnenda, sbr. 42. og 52. gr.
    Samráð skv. 2. mgr. gildir jafnframt um viðvarandi eftirlit með því að starfsskilyrði séu uppfyllt.
    Með aðildarríki í lögum þessum er átt við ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu.

2. gr.

    Lokamálsliður 17. gr. laganna orðast svo: Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa.

3. gr.

    4. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um stórar áhættur fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa.

4. gr.

    Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sé umsækjandi fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélag með starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, móðurfyrirtæki slíks aðila, einstaklingur eða lögaðili sem hefur yfirráð yfir aðilanum og ef slíkt eignarhald leiðir til þess að félagið sem fjárfest er í telst vera dótturfélag eða undir yfirráðum viðkomandi aðila skal Fjármálaeftirlitið við mat á hæfi umsækjanda um virkan eignarhlut hafa samráð við lögbær yfirvöld þess ríkis í samræmi við ákvæði um mat á umsókn um starfsleyfi, sbr. 2. og 3. mgr. 2. gr. Samráð samkvæmt framangreindu gildir jafnframt um viðvarandi eftirlit með því að hæfisskilyrði séu uppfyllt.

5. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „100. gr.“ í 4. mgr. 63. gr. laganna kemur: 103. gr. Enn fremur verða eftirfarandi breytingar á tilvísunum í lögunum: Í stað „101. gr.“ í 71. gr. kemur: 106. gr.; í stað „98. gr.“ í 1.–3. mgr. 99. gr. kemur: 101. gr.; og í stað „99. gr.“ í 1. og 2. mgr. 100. gr. kemur: 102. gr.

6. gr.

    Við 3. mgr. 84. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eiginfjárhlutfall fyrir fjármálasamsteypur skal reikna samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.

7. gr.

    2.–4. mgr. 85. gr. laganna orðast svo:
    Þegar fjárfesting í hlutum í öðru fjármálafyrirtæki, fyrirtæki tengdu fjármálasviði, vátryggingafélagi eða eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði er bráðabirgðaráðstöfun og ætluð sem fjárhagsaðstoð við endurskipulagningu eða til bjargar hlutaðeigandi fyrirtæki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 1. málsl. 1. mgr.
    Eignarhlutir og víkjandi kröfur í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði, sbr. 1. mgr., eða í vátryggingafélögum eða eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði, sbr. 4. mgr., sem reiknast með í samstæðureikningi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis eða við beitingu ákvæða um efirlit með fjármálasamsteypum, dragast ekki frá eigin fé hlutaðeigandi fyrirtækis.
    Eignarhlutir og víkjandi kröfur í vátryggingafélögum og eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði, svo og liðir sem taldir eru upp í 4. og 5. tölul. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 60/1994 og fjármálafyrirtækið á í krafti hlutdeildar í fyrrgreindum félögum, dragast frá eigin fé við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 4. mgr. 84. gr. Frádrátturinn sem tengist eignarhlutum í vátryggingafélögum takmarkast þó við þá fjárhæð sem samsvarar hlutdeild í lágmarksgjaldþoli viðkomandi vátryggingafélags. Þegar um er að ræða fjármálasamsteypur gilda þó ákvæði 3. mgr. 84. gr. um útreikning á eiginfjárhlutfalli.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
     a.      4. og 5. mgr. orðast svo:
                  Með eignarhaldsfélagi á fjármálasviði er átt við fyrirtæki tengt fjármálasviði, sem ekki er blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem dótturfyrirtækin eru annaðhvort eingöngu eða aðallega fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði og að minnsta kosti eitt dótturfyrirtæki er fjármálafyrirtæki.
                  Með blönduðu eignarhaldsfélagi er átt við móðurfyrirtæki, sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði, fjármálafyrirtæki eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem að minnsta kosti eitt dótturfyrirtæki er fjármálafyrirtæki.
     b.      Við bætist ný málsgrein er verður 6. mgr., svohljóðandi:
                  Með blönduðu eignarhaldsfélagi í fjármálastarfsemi er átt við móðurfélag sem ekki er eftirlitsskylt en það ásamt dótturfélögum sínum, en a.m.k. eitt þeirra er eftirlitsskylt og er með höfuðstöðvar í aðildarríki, og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu.

9. gr.

    Við XII. kafla laganna bætist nýr liður, A. Endurskipulagning fjárhags lánastofnana, með þremur nýjum greinum, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist greinatala annarra greina samkvæmt því:

    a. (98. gr.)

Endurskipulagning fjárhags.


    Með endurskipulagningu fjárhags lánastofnunar er átt við heimild til greiðslustöðvunar og heimild til að leita nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
    Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, gilda um heimild lánastofnunar til að leita greiðslustöðvunar og nauðasamnings og framkvæmd slíkra ráðstafana enda sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.

    b. (99. gr.)

Fjárhagsleg endurskipulagning lánastofnunar með höfuðstöðvar


á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki.


    Nú veitir dómstóll hér á landi lánastofnun heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamninga og skal þá sú heimild ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
    Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skal fara að íslenskum lögum, með eftirtöldum frávikum:
     a.      Vinnusamningur skal fara eftir lögum þess ríkis sem um vinnusamninginn og vinnusambandið gilda.
     b.      Samningur um notkun eða kaup fasteignar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem fasteignin er staðsett.
     c.      Réttur lánastofnunar vegna fasteignar, skips eða flugvélar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem opinber skráning hefur farið fram.
     d.      Heimild til endurskipulagningar fjárhags hefur ekki áhrif á rétt veðhafa vegna eignarréttinda sem staðsett eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins.
     e.      Hafi lánastofnun keypt eign með eignarréttarfyrirvara hefur heimild lánastofnunar til endurskipulagningar fjárhags ekki áhrif á réttindi seljanda sem byggist á fyrirvaranum, enda sé eignin í öðru aðildarríki.
     f.      Hafi lánastofnun selt eign skal heimild til endurskipulagningar fjárhags ekki hafa áhrif á réttindi kaupanda, enda sé eignin í öðru aðildarríki og afhending hafi farið fram þegar heimild er veitt.
     g.      Um lögmæti ráðstöfunar lánastofnunar á fasteign, skipi eða flugvél sem háð er opinberri skráningu, svo og framseljanlegum verðbréfum eða öðrum verðbréfum sem skráð eru í verðbréfamiðstöð, fer eftir lögum þess ríkis þar sem eign er eða þar sem hin opinbera skráning hefur farið fram.
     h.      Um réttaráhrif úrskurðar um endurskipulagningu fjárhags á málshöfðun vegna eignar eða annarra réttinda sem lánastofnun hefur látið af hendi fer eftir lögum þess aðildarríkis þar sem málið var höfðað.
     i.      Þrátt fyrir ákvæði d- og e-liðar er heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt.
    Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um framkomna beiðni lánastofnunar um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings. Fjármálaeftirlitið skal koma upplýsingum um beiðnina og ákvörðun um hana til lögbærra yfirvalda og kröfuhafa lánastofnunarinnar í viðkomandi ríkjum í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
    Lögboðnar tilkynningar til þekktra erlendra kröfuhafa lánastofnunar í tengslum við greiðslustöðvun eða nauðasamninga skulu vera í samræmi við reglur sem ráðherra setur.

    c. (100. gr.)

Fjárhagsleg endurskipulagning lánastofnunar með


höfuðstöðvar erlendis en útibú á Íslandi.


    Útibúi, sem starfrækt er hérlendis af lánastofnun með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, verður ekki veitt sjálfstæð heimild til endurskipulagningar fjárhags hér á landi. Nú tekur lögbært yfirvald í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ákvörðun um endurskipulagningu fjárhags lánastofnunar sem hefur staðfestu og starfsleyfi í því ríki, og tekur ákvörðunin þá sjálfkrafa til útibúa sem lánastofnunin starfrækir hér á landi.
    Nú er talin þörf á endurskipulagningu fjárhags íslensks útibús lánastofnunar með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og skal þá tilkynna slíkt til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið skal koma tilkynningu á framfæri við eftirlitsstjórnvöld heimaríkis.
    Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skal fara að lögum heimaríkisins með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr.
    Nú er sett fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða um heimild til að leita nauðasamninga á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna útibús sem lánastofnun, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, starfrækir hér á landi. Skal héraðsdómari þá gera Fjármálaeftirlitinu viðvart um beiðnina. Ef viðkomandi lánastofnun starfrækir útibú í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu skal Fjármálaeftirlitið tilkynna eftirlitsstjórnvöldum í þeim ríkjum um beiðnina. Dómstólar skulu leitast við að samræma aðgerðir með yfirvöldum annarra gistiríkja.
    

10. gr.

    Á eftir orðunum ,,Ákvörðun skv. 3. tölul. 2. mgr. er því aðeins gild að“ í 4. mgr. 98. gr. laganna kemur: Fjármálaeftirlitið samþykki hana og.

11. gr.

    Á eftir 100. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, sem verða 104. og 105. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist greinatala annarra greina samkvæmt því:

    a. (104. gr.)

Slit á lánastofnun með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki.


    Nú tekur dómstóll á Íslandi ákvörðun um slit lánastofnunar, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi, og skal þá sú heimild ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skal fara að íslenskum lögum með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr.
    Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um ákvörðun um slit.
    Ef lánastofnun starfrækir útibú í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins skal Fjármálaeftirlitið koma upplýsingum um beiðnina og ákvörðun um hana til lögbærra yfirvalda í viðkomandi ríkjum í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
    Nú er þekktur kröfuhafi lánastofnunar búsettur í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, og skal þá skiptastjóri án tafar tilkynna honum um upphaf skiptanna. Í tilkynningunni skal greina frá kröfulýsingarfresti, hvert beina skuli kröfulýsingu og afleiðingum vanlýsingar í samræmi við reglur sem ráðherra setur.

    b. (105. gr.)

Slit á lánastofnun með höfuðstöðvar erlendis en útibú á Íslandi.


    Útibúi, sem starfrækt er hérlendis af lánastofnun með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, verður ekki veitt sjálfstæð heimild slita hér á landi. Nú tekur lögbært yfirvald í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ákvörðun um slit lánastofnunar sem hefur staðfestu og starfsleyfi í því ríki, og tekur ákvörðunin þá sjálfkrafa til útibúa sem lánastofnunin starfrækir hér á landi.
    Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skal fara að lögum heimaríkisins með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr.
    Nú er tekin ákvörðun um slit útibús lánastofnunar með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Skal héraðsdómari þá gera Fjármálaeftirlitinu viðvart um ákvörðunina. Ef viðkomandi lánastofnun starfrækir útibú í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu skal Fjármálaeftirlitið tilkynna eftirlitsstjórnvöldum í þeim ríkjum um beiðnina.

12. gr.

    Fyrirsögn XII. kafla laganna verður: Endurskipulagning fjárhags, slit og samruni fjármálafyrirtækja.

13. gr.

    Við 102. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er verða 5. og 6. mgr., svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið fylgist með viðskiptum fjármálafyrirtækis við dóttur- og hlutdeildarfélög þess, félög sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í fjármálafyrirtækinu og við önnur dóttur- og hlutdeildarfélög þeirra félaga. Jafnframt skal Fjármálaeftirlitið fylgjast með viðskiptum fjármálafyrirtækis við einstaklinga sem eiga 20% hlut eða stærri í framangreindum félögum. Fjármálafyrirtæki skulu skila Fjármálaeftirlitinu skýrslu um slík viðskipti eftir nánari ákvörðun þess. Séu viðskiptin við fyrirtæki eða einstaklinga í öðrum ríkjum fer um samstarf eftirlitsstjórnvalda eftir alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og samstarfssamningum sem Fjármálaeftirlitið gerir á grundvelli þeirra.
    Fjármálaeftirlitið getur að ósk eftirlitsstjórnvalda í öðru ríki staðreynt upplýsingar frá aðilum hér á landi sem falla undir viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Viðkomandi eftirlitsstjórnvöldum er heimilt að taka þátt í vinnu við að staðreyna slíkar upplýsingar.

14. gr.

    Við 103. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna viðeigandi erlendum yfirvöldum um greiðslustöðvun, nauðasamninga og gjaldþrot innlendra lánastofnana sem reka útibú í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 104. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ákvæði 52. gr. um hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra og 84. og 85. gr. um eigið fé gilda einnig um eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 30. gr. og 84.–86. gr. skulu einnig gilda um fjármálasamsteypur skv. 3. mgr.
     c.      Við greinina bætist ný málsgrein er verður 3. mgr., svohljóðandi:
                  Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að fjármálasamsteypur fari að ákvæðum laga þessara. Með fjármálasamsteypu er átt við samstæðu félaga, eða félög sem hafa með sér náin tengsl, sbr. 18. gr., þar sem eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni og a.m.k. einn aðili innan samstæðunnar starfar á fjármálasviði og annar aðili starfar á vátryggingasviði og þar sem umsvif á samstæðugrundvelli og/eða samanlögð umsvif á fjármálasviði annars vegar og hins vegar samsvarandi umsvif á vátryggingasviði eru hvor um sig talin mikilvæg samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur. Fari enginn eftirlitsskyldur aðili fyrir samstæðunni, en starfsemi samstæðunnar fer aðallega fram á fjármála- eða vátryggingasviði samkvæmt skilgreiningu í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur, telst samstæðan vera fjármálasamsteypa. Sérhverja undirsamstæðu sem uppfyllir skilyrði 2. málsl. skal líta á sem fjármálasamsteypu. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um skilgreiningu á fjármálasamsteypum og eftirlit með þeim.
     d.      Í stað tilvísunarinnar „8. og 9. mgr. 97. gr.“ í 3.–5. mgr. kemur: 9. og 10. mgr. 97. gr.

Breytingar á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.


16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir skilgreiningu á dótturfélagi koma þrjár nýjar orðskýringar, svohljóðandi:
                  –      eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, fyrirtæki, sem ekki er blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, þar sem meginstarfsemin er að eiga hluti í dótturfyrirtækjum sem eru annaðhvort eingöngu eða aðallega vátryggingafélög,
                  –      blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, fyrirtæki, sem ekki er vátryggingafélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem að minnsta kosti eitt dótturfélag er vátryggingafélag,
                  –      blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, móðurfélag sem ekki er eftirlitsskylt en það ásamt dótturfélögum sínum, en a.m.k. eitt þeirra er eftirlitsskylt og er með höfuðstöðvar í aðildarríki, og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu.
     b.      Á eftir skilgreiningu á félagasamstæðu kemur ný orðskýring, svohljóðandi: fjármálasamsteypa, samstæða félaga, eða félög sem hafa með sér náin tengsl, þar sem eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni og a.m.k. einn aðili innan samstæðunnar starfar á vátryggingasviði og annar aðili starfar á fjármálasviði og þar sem umsvif á samstæðugrundvelli og/eða samanlögð umsvif á vátryggingasviði annars vegar og hins vegar samsvarandi umsvif á fjarmálasviði eru hvor um sig talin mikilvæg samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur; fari enginn eftirlitsskyldur aðili fyrir samstæðunni, en starfsemi samstæðunnar fer aðallega fram á fjármála- eða vátryggingasviði samkvæmt skilgreiningu í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur, telst samstæðan vera fjármálasamsteypa; sérhverja undirsamstæðu sem uppfyllir skilyrði upphafsliðar orðskýringarinnar skal líta á sem fjármálasamsteypu.
     c.      Við skilgreiningu á nánum tengslum bætist nýr stafliður, svohljóðandi: einstaklinga eða félög sem eru varanlega tengd sömu persónunni með yfirráðatengslum.

17. gr.

    Við 25. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar er verða 4.–6. mgr., svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið skal hafa samráð við eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkjum við mat á umsókn um starfsleyfi félags sem er:
     a.      dótturfélag vátryggingafélags eða fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í öðru aðildarríki,
     b.      dótturfélag móðurfélags vátryggingafélags eða fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í öðru aðildarríki, eða
     c.      undir yfirráðum aðila, einstaklinga eða lögaðila, sem hefur ráðandi stöðu í vátryggingafélagi eða fjármálafyrirtæki í öðru aðildarríki.
    Samráð skv. 4. mgr. skal m.a. taka til upplýsinga um hæfi hluthafa og stjórnenda, sbr. 3. mgr.
    Samráð skv. 4. mgr. gildir jafnframt um viðvarandi eftirlit með því að starfsskilyrði séu uppfyllt.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
        13. a.    Hlutdeild í hlutdeildarfélagi sem vátryggingafélag á í vátryggingafélögum, eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði, fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum á fjármálasviði.
                   b.     Liðir sem taldir eru upp í 4. og 5. tölul. þessarar málsgreinar og vátryggingafélag á í krafti hlutdeildar í félögum sem getið er í a-lið hér á undan.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „11.–12. tölul.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 11.–13. tölul.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „1.–12. tölul.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 1.–13. tölul.
     d.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar fjárfesting í hlutum í öðru fjármálafyrirtæki, fyrirtæki tengdu fjármálasviði, vátryggingafélagi eða eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði er bráðabirgðaráðstöfun og ætluð sem fjárhagsaðstoð við endurskipulagningu eða til bjargar hlutaðeigandi fyrirtæki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 2. mgr. um frádrátt liða samkvæmt tölulið 13. a og b.
     e.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Tekið skal tillit til allra dóttur- og hlutdeildarfélaga vátryggingafélagsins, eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði, blandaðra eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði, félaga sem eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu og annarra dóttur- og hlutdeildarfélaga þeirra félaga.
     f.      Í stað 4. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Sé vátryggingafélag dótturfélag annars vátryggingafélags eða eignarhaldsfélags á vátryggingasviði skal reikna aðlagað gjaldþol móðurfélagsins samkvæmt ákvæðum þessarar greinar auk útreiknings á gjaldþoli vátryggingafélagsins. Við útreikninginn skal taka tillit til allra hlutdeildarfélaga móðurfélagsins.
                  Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um fjármálasamsteypur. Um útreikning á gjaldþoli fyrir fjármálasamsteypur skulu gilda reglur sem Fjármálaeftirlitið setur.

19. gr.

    Við 54. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að fjármálasamsteypur fari að ákvæðum laga þessara. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um tilgreiningu á fjármálasamsteypum og eftirlit með þeim. Fjármálaeftirlitið getur og sett almennar reglur um tilhögun innra eftirlits í fjármálasamsteypum. Fjármálaeftirlitið getur að ósk eftirlitsstjórnvalda í öðru ríki staðreynt upplýsingar frá aðilum hér á landi sem falla undir eftirlit með fjármálasamsteypum. Viðkomandi eftirlitsstjórnvöldum er heimilt að taka þátt í vinnu við að staðreyna slíkar upplýsingar.

20. gr.

    Lög þessi eru sett til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipana ráðsins nr. 2002/87/EB, um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjárfestingarfélögum í fjármálasamsteypu, og nr. 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana.

21. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.
    Ráðstafanir sem ákveðnar hafa verið eða málsmeðferð hafin vegna beiðni um slíka ráðstöfun fyrir gildistöku laganna skulu fara eftir lögunum eins og þau voru þegar ráðstöfun var samþykkt eða málsmeðferð hófst.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lagafrumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipana ráðsins nr. 2002/87/EB, um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjárfestingarfélögum í fjármálasamsteypu, og nr. 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana.
    Sá hluti frumvarpsins sem lýtur að innleiðingu tilskipunar 2002/87/EB (1.–7. gr., 13. gr. og 15.–19. gr.) er saminn af nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði 26. janúar 2004. Í nefndinni sátu Ragnar Hafliðason, Fjármálaeftirliti, formaður, Helgi F. Arnarson, f.h. Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, og Sigmar Ármannsson, f.h. Sambands íslenskra tryggingafélaga. Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, vann með nefndinni.
    Sá hluti frumvarpsins sem lýtur að innleiðingu tilskipunar 2001/24/EB (9.–12. gr. og 14. gr.) var saminn í viðskiptaráðuneytinu. Við samningu þessa hluta var höfð hliðsjón af frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum, og athugasemdum efnahags- og viðskiptanefndar. Þá leitaði ráðuneytið umsagna hagsmunaaðila um efni þessa hluta frumvarpsins.

A.     Fjármálasamsteypur.
1.     Almennt.
    Þróunin í fjármálaþjónustu hér á landi sem annars staðar í Evrópu beinist meira og meira í þá átt að fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður leitast við að veita viðskiptavinum sínum heildarþjónustu í fjármálum. Uppbygging fjármálafyrirtækja tekur mið af þessu og hefur þróunin verið í þá átt að einstök félög og samstæður félaga sem lúta sameiginlegri yfirstjórn veita viðskiptavinum þjónustu á banka-, vátrygginga- og verðbréfasviði. Enn fremur hefur þróunin verið í þá átt að félagasamstæðurnar hafa fært starfsemi sína yfir landamæri og út fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Þessi þróun hefur kallað á alþjóðlega vinnu sem hefur það að markmiði að setja reglur sem tryggja eftirlit með áhættu í slíkum félagasamstæðum. Evrópusambandið samþykkti reglur í þessa veru með tilskipun nr. 2002/87/EB um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjárfestingarfyrirtækjum í fjármálasamsteypu. Tilskipunin var birt í febrúar 2003 og á að koma til framkvæmda frá og með ársbyrjun 2005.
    Tilskipunin kallar á nokkrar breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi. Enn fremur þarf að setja reglur sem fjalla um starfsemi lánastofnana og vátrygginga- og verðbréfafyrirtækja.

2.     Hvað er fjármálasamsteypa?
    Samkvæmt tilskipuninni er fjármálasamsteypa samstæða félaga sem tengd eru með margvíslegum og nánar tilgreindum hætti og veita annars vegar þjónustu á banka- og verðbréfasviði og hins vegar á vátryggingasviði. Ef annað framangreindra sviða er óverulegt telst samstæðan ekki vera fjármálasamsteypa. Í tilskipuninni er tilgreint að minna sviðið verði að lágmarki að ná 10% af heildarstarfseminni hvort sem miðað er við stærð efnahags eða eiginfjárgrunn. Ef minna sviðið hefur efnahag sem er stærri er 6 milljarðar evra telst samstæðan engu síður fjármálasamsteypa þó að þessi fjárhæð nái ekki 10% af heildarefnahag samsteypunnar.
    Margar fjármálasamsteypur reka starfsemi í mörgum löndum, innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki er víst að félag sem fellur undir skilgreiningu um fjármálasamsteypu falli undir skilgreiningu um samstæður á Íslandi. Annars vegar getur verið um að ræða félög sem hafa með sér náin tengsl, en samkvæmt skilgreiningu í 18. gr. laganna skal litið á það sem náin tengsl milli aðila þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar eru varanlega tengdir sömu persónunni með yfirráðatengslum. Þetta þýðir að félög sem eru í eigu sama einstaklings að hluta eða öllu leyti geta talist til fjármálasamsteypu, þó að þau séu ekki í félagasamstæðu, þar sem eignarhald er ekki milli félaganna sjálfra. Hins vegar getur félag með starfsemi á Íslandi verið hluti af erlendri fjármálasamsteypu og fellur þá ekki undir íslensk lög um samstæður, en telst hins vegar vera hluti fjármálasamsteypu. Í tilvikum sem þessum er skýrt kveðið á um í tilskipuninni hvernig eftirlit með viðkomandi félagi skuli háttað og hvaða eftirlitsaðili beri ábyrgð á framkvæmdinni.

3.     Fjármálasamsteypur á Íslandi.
    Kannað var hvort samstæða Íslandsbanka hf. félli undir skilgreiningu á fjármálasamsteypu, eftir kaup bankans á Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Íslandsbanki hf. rekur, auk starfseminnar á Íslandi, starfsemi í nokkrum öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Athugun nefndarinnar leiddi í ljós að samstæða Íslandsbanka hf. fellur ekki sjálfkrafa undir skilgreiningu um fjármálasamsteypur þar sem minna fjármálasviðið, tryggingasviðið, náði hvorki 10% hlutfalli af meðaltali eigin fjár og efnahags af heildarstærð samstæðunnar, né því 500 milljarða króna (6 milljarða evra) lágmarksumfangi sem tilskilið er. Skv. 3. tölul. 3. gr. tilskipunar 2002/87/EB er það hins vegar Fjármálaeftirlitsins að ákveða hvort samstæða Íslandsbanka hf. fellur undir ákvæði tilskipunarinnar um viðbótareftirlit þegar svo háttar til að hlutfall minni fjármálagreinarinnar er yfir 5% af heildarumsvifum hvort sem miðað er við efnahag eða eigið fé og þegar markaðshlutdeild viðkomandi fjármálagreinar er umfram 5% á íslenska markaðinum. Útreikninga fyrir samstæðu Íslandsbanka hf. er að finna í töflu hér á eftir. Önnur fjármála- og vátryggingafélög og samstæður þeirra, þar sem yfirstjórnin er íslensk, falla ekki undir skilgreiningu á fjármálasamsteypu því hlutur minna sviðsins er verulega undir þeim lágmarksviðmiðunarmörkum sem fram koma í tilskipuninni.

Tafla til að tilgreina fjármálasamsteypur:
Fjárhæðir í milljörðum króna, byggt á tölum úr ársreikningi 2003.

Nafn samstæðu: Íslandsbanki hf.
Tegund fjármálastarfsemi
Efnahagur

Eiginfjárkrafa*/ lágm.gjaldþol

Meðaltal
hlutfallstalna

ma.kr. % ma.kr. % %
Bankastarfsemi 425,7 93,4% 24,0 94,9% 94,1%
Vátryggingastarfsemi 30,2 6,6% 1,3 5,1% 5,9%
Samtals 455,9 100,0% 25,3 100,0% 100,0%
    * Eiginfjárkrafan fyrir bankann er reiknuð sem 8% af áhættugrunni fyrir móðurfélagið Íslandsbanki hf.

4.     Meginmarkmið.
    Meginmarkmið tilskipunarinnar er að setja lágmarksákvæði í lög og reglur sem lúta að eftirliti með fjármálasamsteypum, en fjármálasamsteypur eru samstæður félaga sem hafa veruleg umsvif á banka- og verðbréfasviði annars vegar og vátryggingasviði hins vegar. Meginmarkmiðin með eftirliti með fjármálasamsteypum eru eftirfarandi:
          Koma í veg fyrir að unnt sé að nota sama fjármagnið oftar en einu sinni, hvort sem um er að ræða eigið fjármagn eða annars konar fjármagn, til þess að uppfylla mismunandi eiginfjár- og gjaldþolskröfur innan fjármálasamsteypu.
          Gera kröfu um lágmarkseiginfé/gjaldþol í samræmi við viðurkenndar útreikningsaðferðir sem unnt er að nota við að mæla eiginfjárkröfur og gjaldþolskröfur í fjármálasamsteypu og til þess að gera sér grein fyrir fjárhagslegri stöðu fjármálasamsteypunnar.
          Gera kröfur til fjármálasamsteypu um að hún setji upp innra eftirlit til að fylgjast með, mæla og stýra viðskiptum innan samstæðunnar annars vegar og áhættusamþjöppun hins vegar. Í þessu sambandi er markmiðið einkum að koma í veg fyrir að búið sé til eigið fjármagn innan samsteypunnar og að komið sé í veg fyrir keðjuverkandi áhrif innan samsteypunnar af stórum áhættum.
          Tryggja eftirlit með fjármálasamsteypu í heild og samvinnu eftirlitsaðila. Settar eru reglur um tilnefningu samræmingaraðila í eftirliti með samsteypum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samræmingaraðili er opinbert eftirlitsyfirvald sem hefur umsjón með eftirliti með samsteypunni, er ábyrgur fyrir upplýsingastreymi og samvinnu viðkomandi eftirlitsyfirvalda í mismunandi löndum og gengur eftir að skýrslur um eiginfjár-/gjaldþolskröfur og áhættugreiningu skili sér, auk þess að yfirfara útreikninga. Þessi eftirlitsaðili er í tilskipuninni nefndur samræmingaraðili.
          Tryggja sambærilegt eftirlit með fjármálasamsteypum sem eru með höfuðstöðvar eða yfirstjórn utan Evrópska efnahagssvæðisins, en starfa engu að síður innan svæðisins. Sett er upp fastmótað ferli til þess annars vegar að greina og hins vegar að ákveða hvort viðkomandi fjármálasamsteypa og einstakar einingar lúti viðeigandi eftirliti og sambærilegu því sem gildir um fjármálasamsteypu innan svæðisins.

5.     Hvaða lög og reglur breytast?
    Gerðar eru tillögur að breytingum á eftirtöldum lögum:
          Lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
          Lög nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.
    Huga þarf að breytingum á eftirfarandi reglugerðum og reglum:
          Reglur um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja.
          Reglur um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum.
          Reglugerð um eignir sem telja má til gjaldþols vátryggingafélaga og útreikning lágmarksgjaldþols.
          Reglugerð um útreikning gjaldþols vátryggingafélaga.
          Reglugerð um útreikning á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélaga.
          Reglugerð um samstarf við önnur ríki Evrópska efnahagssvæðisins um eftirlit með gjaldþoli útibúa vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan þess.
    Setja þarf sérstakar reglur um tilgreiningu á fjármálasamsteypum og eftirlit með þeim.

6.     Meginsjónarmið sem lágu til grundvallar við gerð tillagna til breytinga á lögum.
    Meginsjónarmið við innleiðingu tilskipunar 2002/87/EB í íslenskan rétt er að gera tillögur að nauðsynlegum breytingum á gildandi lögum í stað þess að gera tillögur að sérstökum lögum um fjármálasamsteypur. Fellur þetta vel að því meginmarkmiði að allir aðilar á fjármálamarkaði skuli lúta sambærilegu eftirliti hvort sem um sjálfstæð félög er að ræða, félagasamstæður eða fjármálasamsteypur. Meginbreytingin á gildandi lögum sem lögð er til er að bæta skilgreiningu á fjármálasamsteypu við lögin og gera samsvarandi breytingar á öðrum köflum viðkomandi laga þar sem fjallað er um hvernig eftirliti með fjármálasamsteypu skuli háttað. Auk þess eru gerðar tillögur að breytingum á skilgreiningum, samskiptum eftirlitsyfirvalda auk annarra atriða.

B.     Slit lánastofnana.
1.     Um aðdraganda tilskipunarinnar og efni hennar.
    Tillaga að tilskipun um endurskipulagningu og slit lánastofnana var fyrst lögð fram af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins árið 1985 en afgreiðsla hennar tafðist, einkum vegna deilna Bretlands og Spánar um Gíbraltar. Í kjölfar samkomulags þessara ríkja varðandi tilnefningu lögbærra yfirvalda náðist samkomulag í ráðherraráði Evrópusambandsins um tilskipunina. Tillagan var í kjölfarið lögð fyrir Evrópuþingið sem lagði til 13 breytingar sem allar voru samþykktar.
    Í aðgerðaáætlun á fjármálasviði var talið forgangsmál að afgreiða þessa tilskipun þar sem mikið óhagræði var í því fólgið að við slit og endurskipulagningu fjárhags lánastofnana með útibú í öðrum aðildarríkjum gátu yfirvöld í hverju ríki fyrir sig gripið til aðgerða. Þetta gat leitt til vandkvæða varðandi ákvörðun lögsögu og falið í sér mismunun kröfuhafa. Tilskipunin byggist á þremur meginsjónarmiðum, einingu, algildi og jafnræði (unity, universality and non-discrimnation). Megintilgangur hennar er að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á aðgerðum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins og samvinnu varðandi endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana og vissa lágmarkssamræmingu landsreglna um þessi atriði.
    Tilskipunin er í flestum meginatriðum samhljóða tilskipun 2001/17/EB, um slit og endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélaga, sem innleidd var með lögum nr. 34/2003, um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994.
    Tilskipunin gildir um lánastofnanir og útbú þeirra með staðfestu í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið öðrum en ríkjum þar sem aðalskrifstofa þeirra er. Þá er og að finna ákvæði varðandi samstarf eftirlitsaðila vegna endurskipulagningarráðstafana eða slita á útbúum lánastofnana sem hafa höfuðstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins en útibú í fleiri en einu EES-ríki. Með útibúi er átt við starfsstöð sem að lögum er hluti af fjármálafyrirtæki og annast beint, að öllu leyti eða að hluta þá starfsemi sem fram fer hjá fjármálafyrirtækjum, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
    Í tilskipuninni er fjallað um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana. Með endurskipulagningu í tilskipuninni er átt við ráðstafanir sem ætlað er að viðhalda fjárhagslegri stöðu lánastofnunar eða koma henni í eðlilegt ástand aftur og geta haft áhrif á gildandi réttindi þriðja aðila, þ.m.t. ráðstafanir sem fela í sér hugsanlega greiðslustöðvun, frestun fullnusturáðstafana eða lækkun á kröfum. Slit lánastofnunar eru hins vegar skilgreind sem heildarmálsmeðferð sem stjórnvöld eða dómstólar aðildarríkja opna og hafa eftirlit með, sem hefur það að markmiði að selja eignir undir eftirliti þessara yfirvalda, þ.m.t. þegar málsmeðferðin er stöðvuð með nauðasamningum eða annarri viðlíka ráðstöfun.
    Tilskipunin felur í sér að endurskipulagning fjárhags og slit fara einvörðungu fram í því landi þar sem lánastofnunin hefur skráðar höfuðstöðvar (heimaríki) og gilda lög heimaríkisins að meginstefnu um fjárhagslega endurskipulagningu og slit. Þetta er í samræmi við aðra skipan sem kveðið er á um í bankalöggjöf Evrópusambandsins um starfsleyfi og eftirlit með fjármálastofnunum.
    Tilskipunin felur í sér að úrskurður lögbærs yfirvalds um heimild lánastofnunar, sem rekur útibú í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðinu, til að leita greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða um slit hennar hefur áhrif á öllu svæðinu, þ.e. tekur bæði til lánastofnunarinnar og útibúa hennar. Jafnframt er gert ráð fyrir að löggjöf heimaríkis gildi að meginstefnu um endurskipulagninguna eða slitin, þ.e. löggjöf þess ríkis þar sem aðalstöðvar lánastofnunarinnar eru og þar sem starfsleyfi hennar er gefið út. Tilskipuninni er þannig ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhöfum verði mismunað með því að mismunandi lög gildi um endurskipulagningu eða slit lánastofnunar annars vegar og útibúa hennar hins vegar.
    Í tilskipuninni er að finna ýmis ákvæði varðandi samstarf yfirvalda í málum er varða endurskipulagningu og slit lánastofnana. Þannig er kveðið á um tilkynningar til eftirlitsaðila og þekktra kröfuhafa og birtingu ákvarðana um slíkar ráðstafanir.

2.     Gildandi réttur.
    Í XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki er að finna ákvæði um slit og samruna fjármálafyrirtækja. Með fjármálafyrirtækjum er skv. 1. gr. laganna átt við fyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr. laganna. Í 2. mgr. 4. gr. segir að fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 3. gr. teljist vera lánastofnun í skilningi laganna. Til lánastofnana teljast því viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki.
    Í 98. gr. laganna er kveðið á um að bú fjármálafyrirtækis verði ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum, en í 100. gr. segir að leiði ekki annað af ákvæðum laganna skuli um skipti á búi fjármálafyrirtækis gilda almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eftir því sem átt getur við. Hins vegar er ekki að finna ákvæði er varða greiðslustöðvun eða nauðasamninga. Gilda því ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl. að fullu um slíkar ráðstafanir gagnvart fjármálafyrirtækjum, þar á meðal lánastofnunum.
    Í II. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er m.a. kveðið á um lögsögu. Í 4.–6. gr. laganna koma fram reglur sem er ætlað að afmarka til hverra manna og félaga aðgerðir geti tekið samkvæmt ákvæðum þeirra. Í 2. mgr. 5. gr. kemur fram að ef skuldarinn er félag, sem á varnarþing hér á landi og starfrækir útbú hér eða erlendis, félagið ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum útibúsins og félaginu er veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings, og skuli sú heimild ná sjálfkrafa til útibúsins og að eins skuli farið að ef bú félagsins er tekið til gjaldþrotaskipta.
    Í 2. mgr. 6. gr. sömu laga segir að heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og gjaldþrotaskipta í öðru ríki hafi ekki áhrif hér á landi ef annað leiðir ekki af samningi. Þá segir jafnframt að ákvæðum laganna verði þó beitt um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings um útibú erlends félags, sem er starfrækt og á skráð varnarþing hér á landi, ef félagið ber ábyrgð á skuldbindingum útibúsins og hefur áður fengið sömu eða fyllilega sambærilega heimild í sínu heimaríki. Bú slíks útibús verði ekki tekið til gjaldþrotaskipta hér á landi, nema bú erlenda félagsins hafi áður verið tekið til gjaldþrotaskipta.
    Í 1. mgr. 6. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er kveðið á um að heimilt sé að gera samninga við önnur ríki um að heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings, sem veitt er í einu samningsríki, gildi sjálfkrafa í öðru samningsríki með réttaráhrifum sem fylgja slíkri heimild í öðru hvoru ríkinu. Þá er og kveðið á um að á sama hátt sé heimilt að gera samninga við önnur ríki um að gjaldþrotaskipti í einu samningsríki nái einnig til eigna eða réttinda þrotamanns í öðru samningsríki, en ákveða megi í slíkum samningi að gjaldþrotaskipti fari að einhverju leyti eða öllu sjálfstætt fram í hverju samningsríki fyrir sig eftir löggjöf þess eða annars tiltekins ríkis. Í gildi er samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um gjaldþrotaskipti, sbr. lög nr. 21/1934.

3.     Efni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru, eins og að framan greinir, lagðar til breytingar á og viðbætur við XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunarinnar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að innleidd verði sú meginregla að yfirvöld í heimaríki lánastofnunar taki ein ákvarðanir um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnunar og útibús hennar í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Annars vegar felur þessi regla í sér að úrskurður íslensks dómstóls um heimild lánastofnunar með aðalstöðvar hér á landi til greiðslustöðvunar til að leita nauðasamninga eða gjaldþrotaskipta hefur einnig áhrif í öðrum aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hvað varðar útibú lánastofnunar. Þessa reglu má í raun leiða af 2. mgr. 5. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Hins vegar felur meginreglan í sér að slíkur úrskurður yfirvalda í öðru aðildarríki vegna lánastofnunar með aðalstöðvar í því ríki taki til útibúa þess hér á landi. Kveða þarf sérstaklega á um þetta í lögum um fjármálafyrirtæki þar sem reglan er ekki samhljóða ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þetta felur í sér að slík útibú eru alfarið felld undan lögsögu íslenskra dómstóla í málum er varða endurskipulagningu fjárhags og slit.
    Í öðru lagi er lagt til að innleidd verði sú meginregla að við ákvörðun um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnunar og útibús í öðru EES-ríki verði farið eftir lögum heimaríkis lánastofnunarinnar. Annars vegar felur þessi regla í sér að um ákvarðanir um endurskipulagningu og slit útibús lánastofnunar með staðfestu á Íslandi fer eftir íslenskum lögum. Hins vegar felur reglan í sér að um slíkar ákvarðanir vegna útibús sem lánastofnun með staðfestu í öðru EES-ríki starfrækir hér á landi fer eftir lögum viðkomandi ríkis en ekki íslenskum lögum. Frá þessari meginreglu eru ýmsar undantekningar sem er að finna í frumvarpinu en þar er fyrst og fremst um að ræða lagaskilareglur varðandi tiltekna samninga, réttindi og eignir sem eru í öðru aðildarríki en heimaríki lánastofnunar.
    Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra verði veittar heimildir til að kveða nánar á um í reglugerð hvernig haga skuli ýmsum tilkynningum og birtingu ákvarðana vegna slíkra mála. Drög að slíkri reglugerð eru fylgiskjal með frumvarpi þessu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að bætt verði við 2. gr. laganna fjórum nýjum málsgreinum. Nýju ákvæðin fela í sér að Fjármálaeftirlitið skuli hafa samráð við eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkum við mat á umsókn um starfsleyfi fjármálafyrirtækis sem tengist fjármálafyrirtækjum eða vátryggingafélögum með starfsleyfi í öðrum ríkjum eða aðilum sem tengjast slíkum fyrirtækjum með tilteknum hætti. Samráðið skal m.a. ná til upplýsinga um hæfi hluthafa og stjórnenda og gilda jafnframt um viðvarandi eftirlit með því að starfsleyfi séu uppfyllt. Síðasta málsgreinin felur í sér skilgreiningu á hugtakinu aðildarríki og þarfnast ekki frekari skýringa. Með þessari grein eru innleiddar í lög breytingar á 12. gr. tilskipunar nr. 2000/12/ EB um stofnun og rekstur lánastofnana og 6. gr. tilskipunar nr. 93/22/EB um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.

Um 2. gr.


    Breytingin sem lögð er til á lokamálslið 17. gr. laganna felur í sér að Fjármálaeftirlitið geti auk þess að setja reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækja jafnframt sett slíkar reglur fyrir fjármálasamsteypur og er það til samræmis við ákvæði 9. gr. tilskipunar nr. 2002/87/EB.

Um 3. gr.


    Lögð er til sú breyting á 4. mgr. 30. gr. laganna að reglur um takmarkanir á stórum áhættum fjármálafyrirtækja taki jafnframt til fjármálasamsteypa. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 4. gr.


    Lagt er til að bætt verði við 42. gr. laganna nýrri málsgrein sem felur í sér að Fjármálaeftirlitið skuli hafa samráð við eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkum við mat á hæfi umsækjanda um virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki sé slíkur umsækjandi fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélag með starfsleyfi í aðildarríki eða aðili sem tengist slíkum fyrirtækjum með tilteknum hætti. Samráðið skal vera í samræmi við þau ákvæði sem gilda um mat á umsókn um starfsleyfi, sbr. 2. og 3. mgr. 2. gr. laganna eftir að breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi hafa tekið gildi. Samráðið gildir jafnframt um viðvarandi eftirlit með því að hæfisskilyrði séu uppfyllt. Með þessari grein eru innleiddar í lög breytingar á grein 16(2) í tilskipun nr. 2000/12/EB og grein 9(2) í tilskipun nr. 93/22/EB.

Um 5. gr.


    Breytingar á tilvísunum í 63., 71., 99. og 100. gr. laganna leiðir af breytingum í 9. og 11. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 6. gr.


    Breyting sem lögð er til á 3. mgr. 84. gr. laganna felur í sér að útreikningur á eiginfjárhlutfalli fyrir fjármálasamsteypur fari eftir reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.

Um 7. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 2.–4. mgr. 85. gr. laganna. Breytingar sem lagðar eru til á 2. og 3. mgr. fela í sér að bætt er inn í upptalningu á tegundum félaga félögum sem tengjast vátryggingasviði. Breytingin er til samræmis við ákvæði 2. mgr. greinar 34(2) í tilskipun nr. 2000/12/EB, sbr. 29. gr. tilskipunar nr. 2002/87/EB.
    Breyting á 4. mgr. 85. gr. laganna felur í sér ítarlegri upptalningu en samkvæmt gildandi ákvæði á eignarliðum sem tengjast vátryggingafélögum og koma til frádráttar eigin fé fjármálafyrirtækis við útreikning á eiginfjárhlutfalli. Breytingin er til samræmis við ákvæði 12.–16. tölul. 1. mgr. greinar 34(2) í tilskipun nr. 2000/12/EB, sbr. 29. gr. tilskipunar nr. 2002/87/EB. Þá er í síðasta málslið 4. mgr. 85. gr. nýtt ákvæði sem kveður á um að ákvæði 3. mgr. 84. gr. laganna gildi um útreikning á eiginfjárhlutfalli þegar um er að ræða fjármálasamsteypur.

Um 8. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 4. og 5. mgr. 97. gr. laganna. Breytingin sem lögð er til á 4. mgr. 97. gr. laganna felur í sér að í skilgreiningu á eignarhaldsfélagi á fjármálasviði (financial holding company) er annars vegar bætt inn hugtakinu blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi (mixed financial holding company) og hins vegar kemur hugtakið fjármálafyrirtæki í stað lánastofnunar. Eftir þessar breytingar er ákvæðið í samræmi við grein 1(21) í tilskipun nr. 2000/12/EB og grein 7(3) í tilskipun nr. 93/6/EB um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana.
    Breytingin sem lögð er til á 5. mgr. 97. gr. laganna felur í sér að í skilgreiningu á blönduðu eignarhaldsfélagi (mixed-activity holding company) er annars vegar bætt inn hugtakinu blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi (mixed financial holding company) og hins vegar kemur hugtakið fjármálafyrirtæki í stað lánastofnunar. Eftir þessar breytingar er ákvæðið í samræmi við grein 1(22) í tilskipun nr. 2000/12/EB og grein 7(3) í tilskipun nr. 93/6/EB.
    Lagt er til að bætt verði inn í 97. gr. skilgreiningu á hugtakinu blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi (mixed financial holding company) til samræmis við ákvæði greinar 2(15) í tilskipun nr. 2002/87/EB. Vakin er athygli á því að hugtakið fjármálastarfsemi í þessu sambandi nær yfir starfsemi á banka-, verðbréfa- og vátryggingasviði.

Um 9. gr.


    Í þessari grein er lagt til að við XII. kafla bætist nýr liður, A-liður, um endurskipulagningu fjárhags, er innihaldi þrjár nýjar greinar er verði 98.–100. gr. Greinarnar fjalla um endurskipulagningu fjárhags lánastofnunar við greiðslustöðvun eða nauðasamningsumleitanir.
     Um a-lið (98. gr.).
    Í 1. mgr. greinarinnar er að finna skilgreiningu á hugtakinu endurskipulagning fjárhags í skilningi frumvarpsins. Í 2. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB eru endurskipulagningarráðstafanir skilgreindar sem ráðstafanir sem ætlað er að viðhalda fjárhagslegri stöðu lánastofnunar eða koma henni í eðlilegt ástand aftur og gætu haft áhrif á þegar gildandi réttindi þriðja aðila, þ.m.t. ráðstafanir sem fela í sér hugsanlega greiðslustöðvun, frestun fullnusturáðstafana eða lækkun á kröfum. Að íslenskum rétti falla einungis greiðslustöðvun og nauðasamningar undir þessa skilgreiningu. Í samræmi við þetta er í málsgreininni kveðið á um að ákvæðin varðandi endurskipulagningu fjárhags nái einvörðungu til þessara ráðstafana.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum, skuli gilda nema annað komi fram í lögunum. Í frumvarpinu er að finna ýmsar sérreglur varðandi endurskipulagningu fjárhags lánastofnunar sem hefur útibú í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, en lagt er til að meginreglan verði sú að reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gildi.
     Um b-lið (99. gr.).
    Greinin fjallar um fjárhagslega endurskipulagningu lánastofnunar sem hefur höfuðstöðvar á Íslandi og starfrækir útibú í öðru EES-ríki. Í 1. mgr. er kveðið á um að í slíkum tilvikum skuli ákvörðunin sjálfkrafa taka til allra útibúa stofnunarinnar í öðrum aðildarríkjum.
    Í 2. mgr. er að finna reglur um hvaða lögum skuli beitt við endurskipulagingu fjárhags lánastofnunar. Eins og að framan greinir er meginreglan sú að lög heimaríkis lánastofnunar skuli gilda um endurskipulagningu fjárhags stofnunarinnar og útibúa þess, en það er það ríki þar sem aðalstöðvar lánastofnunar eru og starfsleyfi þess er gefið út. Í a–i-lið 2. mgr. er að finna ýmsar undantekingar frá þessari reglu.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að dómstóll tilkynni Fjármálaeftirlitinu um framkomna beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings við kröfuhafa. Ákvæðið er sambærilegt ákvæði 3. mgr. 90. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum. Mikilvægt er að slík tilkynning berist Fjármálaeftirlitinu um leið og beiðni er lögð fram þar sem um eftirlitsskyldan aðila er að ræða og nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitinu sé eins fljótt og kostur er gert kunnugt um ef slíkir erfiðleikar hafa komið upp í rekstri lánastofnunar. Þá er gert ráð fyrir að að Fjármálaeftirlitið tilkynni eftirlitsstjórnvöldum í þeim ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins þar sem lánastofnun rekur útibú þegar heimild hefur verið veitt til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana. Í 4. gr. tilskipunarinnar er að finna ákvæði er varðar upplýsingagjöf til eftirlitsaðila gistiríkis. Þá er og í 6. gr. tilskipunarinnar kveðið á um birtingu útdráttar úr ákvörðun um fjárhagslega endurskipulagningu í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins auk tveggja dagblaða í hverju gistiríki þegar ákvörðun getur haft áhrif á réttindi þriðju aðila í gistiríki og þegar málskot er hugsanlegt í heimaríki varðandi ákvörðunina. Lagt er til að ráðherra verði veitt heimild til að setja nánari reglur um slíkar tilkynningar í reglugerð.
    Í 4. mgr. er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja nánari reglur um lögboðnar tilkynningar um greiðslustöðvun og nauðasamninga til þekktra erlendra kröfuhafa. Í 7. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að þegar krafist er samkvæmt löggjöf heimaríkis að kröfum sé lýst eigi að taka þær gildar eða lögboðið að tilkynna lánardrottnum í heimaríki um ráðstöfunina skuli einnig tilkynna slíkt þekktum lánardrottnum í öðrum aðildarríkjum.
     Um c-lið (100. gr.).
    Greinin fjallar um fjárhagslega endurskipulagningu lánastofnunar sem hefur höfuðstöðvar erlendis en rekur útibú hérlendis. Með greininni eru innleidd ákvæði 3. gr. tilskipunarinnar. Annars vegar er um að ræða tilvik þar sem lánastofnun hefur höfuðstöðvar í EES-ríki (1.–3. mgr.) og hins vegar þar sem lánastofnun hefur höfuðstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins (4. mgr.).
    Í 1. mgr. er kveðið á um að útibú sem starfrækt er á Íslandi af lánastofnun með höfuðstöðvar í öðru EES-ríki verði ekki veitt sjálfstæð heimild til greiðslustöðvunar eða að leita nauðasamninga. Þá er og kveðið á um að ákvörðun lögbærs yfirvalds í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins um endurskipulagningu fjárhags lánastofnunar sem hefur staðfestu og starfsleyfi í því ríki skuli gilda sjálfkrafa um útibú lánastofnunarinnar hér á landi. Í 1. mgr. 6. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er að finna heimild til að gera slíka samninga við önnur ríki.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ef talin er þörf á endurskipulagningu fjárhags útibús sem starfrækt er hér á landi af lánastofnun með höfuðstöðvar í öðru EES-ríki skuli beina tilkynningu um þetta til Fjármálaeftirlitsins sem ber að koma slíkri tilkynningu á framfæri við eftirlitsstjórnvöld heimaríkis.
    Í 3. mgr. er innleitt ákvæði 3. gr. tilskipunarinnar en greinin kveður á um að endurskipulagningarráðstöfunum skuli beitt í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð sem í gildi eru í heimaríkinu, nema kveðið sé á um annað í tilskipuninni. Þá segir að slíkar ákvarðanir skuli hafa fullt gildi, skuli án frekari formsatriða gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við löggjöf þess aðildarríkis, þ.m.t. gagnvart þriðju aðilum í öðrum aðildarríkjum jafnvel þótt lög gistiaðildarríkja kveði ekki á um slíkar ráðstafanir eða gera framkvæmd þeirra háða skilyrðum sem ekki eru uppfyllt. Loks er kveðið á um að slíkar ráðstafanir skuli gilda á gervöllu Evrópska efnahagssvæðinu þegar þær taka gildi í heimaríkinu. Til einföldunar og skýringa er í 3. mgr. vísað til b-liðar 9. gr. frumvarpsins (2. mgr. 99. gr.). Þetta felur í sér að sambærilegar undantekingar frá fyrrgreindri meginreglu gilda þegar um er að ræða útibú á Íslandi.
    Í 4. mgr. er að finna reglu um það þegar sett er fram beiðni um endurskipulagningarráðstöfun. Á sama hátt og Fjármálaeftirlitinu getur eftirlitsstjórnvöldum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins verið nauðsynlegt að fá slíkar upplýsingar, t.d. sé lánastofnun með starfsemi í viðkomandi ríki.

Um 10. gr.


    Í greininni er lagt til að kveðið verði á um að ákvörðun hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda um að slíta lánastofnun sé því aðeins gild að Fjármálaeftirlitið samþykki hana. Með þessari breytingu er innleitt ákvæði 1. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar sem kveður á um að samráð skuli haft við lögbær yfirvöld heimaríkis á undan slitum að eigin frumkvæði.

Um 11. gr.


    Greinin er í tveimur liðum. A-liður (104. gr.) fjallar um slit lánastofnunar sem hefur höfuðstöðvar á Ísland en starfrækir útibú í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins. Með greininni eru innleidd ákvæði 9. og 13. gr. tilskipunarinnar. Greinin er að flestu leyti samhljóða ákvæðum b-liðar 9. gr. frumvarpsins (99. gr.).
    B-liður greinarinnar (105. gr.) fjallar um slit lánastofnunar, sem hefur höfuðstöðvar erlendis, en starfrækir útibú hérlendis. Með greininni eru innleidd ákvæði 9. og 19. gr. tilskipunarinnar en greinin er að flestu leyti efnislega samhljóða ákvæðum c-liðar 9. gr. frumvarpsins (100. gr.).

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Lagt er til að við 102. gr. laganna bætist tvær nýjar málsgreinar sem verði 5. og 6. mgr. Í 5. mgr. er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með viðskiptum fjármálafyrirtækis við tengd félög, hlutdeildarfélög og aðra tengda aðila. Ákvæðið er samhljóða 3. og 4. mgr. 54. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, og er í samræmi við 8. gr. tilskipunar nr. 2002/87/EB.
    Í nýrri 6. mgr. 102. gr. er kveðið á um samvinnu Fjármálaeftirlitsins við eftirlitsstjórnvöld í öðrum ríkjum í sambandi við eftirlit með fjármálasamsteypum og eru þau ákvæði til samræmis við ákvæði greinar 6(3) í tilskipun nr. 98/78/EB um viðbótareftirlit með vátryggingafélögum í vátryggingahópi, með áorðnum breytingum, sbr. 28. gr. tilskipunar nr. 2002/ 87/EB.

Um 14. gr.


    Í greininni er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli tilkynna viðeigandi erlendum yfirvöldum um greiðslustöðvun, nauðasamninga og gjaldþrot innlendra lánastofnana sem reka útibú í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Um 15. gr.


    Lögð er til breyting á 3. málsl. 1. mgr. 104. gr. laganna sem felur í sér að ákvæði 52. gr. laganna um hæfisskilyrði stjórnar skuli einnig gilda um eignarhaldsfélag á fjármálasviði. Breytingin er til samræmis við grein 54a í tilskipun nr. 2000/12/EB, sbr. 29. gr. tilskipunar nr. 2002/ 87/EB.
    Lagt er til að í 1. mgr. 104. gr. laganna verði bætt nýjum málslið sem felur í sér að ákvæði 30. gr. um takmarkanir á stórum áhættum og 84.–86. gr. um eigið fé skuli einnig gilda um fjármálasamsteypur. Breytingin er til samræmis við ákvæði 6. og 7. gr. tilskipunar nr. 2002/ 87/EB.
    Lagt er til að bætt verði inn í 104. gr. laganna nýrri málsgrein sem verður 3. mgr. um að Fjármálaeftirlitið skuli hafa eftirlit með að fjármálasamsteypur fari að ákvæðum laganna. Þau ákvæði sem einkum eiga við í þessu sambandi eru ákvæði varðandi eiginfjárkröfur, áhættusamþjöppun, innri viðskipti og innra eftirlit. Eftirlit með þessum þáttum er megintilgangur tilskipunar nr. 2002/87/EB.
    Í 2.–4. málsl. nýrrar 3. mgr. er skilgreining á hugtakinu fjármálasamsteypa. Skilgreiningin er til samræmis við 14. tölul. 2. gr. tilskipunar nr. 2002/87/EB. Samkvæmt síðasta málslið málsgreinarinnar er síðan gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið setji nánari reglur um skilgreiningu á fjármálasamsteypum og eftirlit með þeim. Í slíkum reglum yrði kveðið nánar á um afmörkun á fjármálasamsteypum og hvernig eftirliti skuli háttað með þeim.
    Breytingu á tilvísun í 3.–5. mgr. leiðir af breytingu á 97. gr. í b-lið 8. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.


    Lagt er til að bætt verði við 7. gr. laganna þremur nýjum orðskýringum. Um er að ræða hugtökin eignarhaldsfélag á vátryggingasviði (insurance holding company), blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði (mixed-activity insurance holding company) og blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi (mixed financial holding company). Tvær fyrstnefndu orðskýringarnar eru til samræmis við ákvæði greina 1(i) og 1(j) í tilskipun nr. 98/78/EB en síðastnefnda orðskýringin er til samræmis við ákvæði greinar 2(15) í tilskipun nr. 2002/ 87/EB. Vakin er athygli á því að hugtakið fjármálastarfsemi sem fram kemur í síðastnefndu orðskýringunni nær yfir starfsemi á banka-, verðbréfa- og vátryggingasviði.
    Lagt er til að næst á eftir skilgreiningu á félagasamstæðu í 7. gr. laganna komi ný orðskýring sem felur í sér skilgreiningu á hugtakinu fjármálasamsteypa. Skilgreiningin er til samræmis við 14. tölul. 2. gr. tilskipunar nr. 2002/87/EB.
    Lögð er til breyting á skilgreiningu á hugtakinu náin tengsl í 7. gr. laganna. Með breytingunni er skilgreining þessa hugtaks færð til samræmis við skilgreiningu sama hugtaks í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Eftir breytinguna er skilgreiningin í samræmi við ákvæði 13. tölul. 2. gr. tilskipunar nr. 2002/87/EB.

Um 17. gr.


    Lagt er til að bætt verði við 25. gr. laganna þremur nýjum málsgreinum sem fela í sér að Fjármálaeftirlitið skuli hafa samráð við eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkum við mat á umsókn um starfsleyfi vátryggingafélags sem tengist vátryggingafélögum eða fjármálafyrirtækjum með starfsleyfi í öðrum ríkjum eða aðilum sem tengjast slíkum fyrirtækjum með tilteknum hætti. Samráðið skal m.a. ná til upplýsinga um hæfi hluthafa og stjórnenda og gilda jafnframt um viðvarandi eftirlit með því að starfsleyfi séu uppfyllt. Með þessari grein eru innleiddar í lög breytingar á 12. gr. tilskipunar nr. 73/239/EB, 1. tilskipun um skaðatryggingar, og 12. gr. tilskipunar nr. 79/267/EB, 1. tilskipun um líftryggingar.

Um 18. gr.


    Breytingin á 1. mgr. 29. gr. felur í sér að bætt er við nýjum tölulið, 13. tölul., en þar er um að ræða nánar tilgreinda eignarhluta eða kröfur sem dragast skulu frá í útreikningi á gjaldþoli vátryggingafélags. Með þessari grein eru innleiddar í lög breytingar á grein 16(2) í tilskipun nr. 73/239/EB og grein 18(2) í tilskipun nr. 79/267/EB.
    Breytingar á tilvísunum í 2. mgr. 29. gr. leiðir af breytingu á 1. mgr. 29. gr. og þarfnast þær ekki frekari skýringar.
    Lögð er til breyting á 2. mgr. 29. gr. sem felur í sér að Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá ákvæði um frádrátt á eignarhlutum í tilteknum fyrirtækjum þegar um er að ræða tímabundna ráðstöfun eins og nánar er lýst í ákvæðinu. Með þessari grein eru innleiddar í lög breytingar á grein 16(2) í tilskipun nr. 73/239/EB og grein 18(2) í tilskipun nr. 79/267/EB.
    Breyting á 3. mgr. 29. gr. felur í sér að hugtökin eignarhaldsfélag á vátryggingasviði og blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eru hluti af upptalningu á tegundum félaga sem taka þarf tillit til við útreikning á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélags. Ekki er um efnisbreytingu að ræða frá gildandi ákvæði.
    Breytingin á 4. mgr. 29. gr. felur eingöngu í sér orðalagsbreytingu en ekki efnisbreytingu. Orðalagið „eignarhaldsfélags á vátryggingasviði“ kemur í stað „félags þar sem meginstarfsemin er eignarhald á vátryggingafélagi“ samkvæmt gildandi ákvæði.
    Lögð er til sú breyting að ákvæði 29. gr. um gjaldþol og lágmarksgjaldþol skuli einnig gilda um fjármálasamsteypur og að við útreikning á gjaldþoli fyrir fjármálasamsteypur skuli gilda reglur sem Fjármálaeftirlitið setur.

Um 19. gr.


    Lagt er til að við 54. gr. laganna verði bætt nýrri málsgrein sem verður 5. mgr. um að Fjármálaeftirlitið skuli hafa eftirlit með að fjármálasamsteypur fari að ákvæðum laganna. Þau ákvæði sem einkum eiga við í þessu sambandi eru ákvæði varðandi eiginfjárkröfur, áhættusamþjöppun, innri viðskipti og innra eftirlit. Eftirlit með þessum þáttum er megintilgangur tilskipunar nr. 2002/87/EB.
    Samkvæmt 2. málsl. málsgreinarinnar er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið setji nánari reglur um tilgreiningu á fjármálasamsteypum og eftirlit með þeim. Í slíkum reglum yrði kveðið nánar á um afmörkun á fjármálasamsteypum og hvernig eftirliti skuli háttað með þeim.
    Samkvæmt 3. málsl. er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sett almennar reglur um tilhögun innra eftirlits í fjármálasamsteypum til samræmis við ákvæði 9. gr. tilskipunar nr. 2002/87/EB.
    Í 4. og 5. málsl. er kveðið á um samvinnu Fjármálaeftirlitsins við eftirlitsstjórnvöld í öðrum ríkjum í sambandi við eftirlit með fjármálasamsteypum og eru þau ákvæði til samræmis við ákvæði greinar 6(3) í tilskipun nr. 98/78/EB, sbr. 28. gr. tilskipunar nr. 2002/87/EB.

Um 20. og 21. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal I.

DRÖG AÐ REGLUGERÐ
um tilkynningar og birtingu vegna ákvarðana
um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana.


1. gr.
Gildissvið.

    Reglugerð þessi gildir um tilkynningar vegna endurskipulagningar fjárhags og slita lánastofnana sem starfrækja útibú í öðrum aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     Endurskipulagning fjárhags lánastofnunar: Heimild til að leita nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
     Gistiaðildarríki: EES-ríki þar sem lánastofnun hefur útibú.
     Lánastofnun: Fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002.
     Útibú: Starfsstöð sem að lögum er hluti af lánastofnun og annast beint, að öllu leyti eða að hluta þá starfsemi sem fram fer hjá lánastofnunum.

3. gr.

Tilkynning ákvörðunar um endurskipulagningu fjárhags eða slit.


    Fjármálaeftirlitið skal eins fljótt og auðið er, og eigi síðar en strax þegar ákvörðun hefur verið tekin um endurskipulagningu fjárhags eða slits lánastofnunar, tilkynna lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkja um slíka ákvörðun.
    Í slíkri tilkynningu skulu m.a. koma fram upplýsingar um lánastofnun sem ákvörðun beinist að og réttaráhrif ákvörðunar.

4. gr.

Birting í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.


    Nú er ákvörðun um endurskipulagningu fjárhags líkleg til að hafa áhrif á réttindi þriðju aðila, annarra en stjórnenda, hluthafa og einkstaklinga sem taka þátt í rekstri innra skipulags lánastofnana og skal aðstoðarmaður eða umsjónarmaður þá þegar láta birta í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og a.m.k. tveimur innlendum dagblöðum í hverju gistiaðildarríki útdrátt úr ákvörðun um endurskipulagningu fjárhags lánastofnunar.
    Útdráttur skv. 1. mgr. skal vera á opinberu tungumáli viðkomandi gistiaðildarríkja. Í honum skal m.a. koma fram tilgangur og lagagrundvöllur ákvörðunarinnar, tímafrestir og fullt heimilisfang aðstoðarmanns eða umsjónarmanns.
    Skiptastjóri skal láta birta auglýsingu um ákvörðun um skipti á lánastofnun í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og a.m.k. tveimur innlendum dagblöðum í hverju gistiaðildarríki. Tilkynningin skal vera á tungumáli heimaríkis og til þess notuð þar til gerð eyðublöð.

5. gr.
Tilkynningar til þekktra kröfuhafa.

    Nú er þekktur kröfuhafi lánastofnunar búsettur í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, og skal þá skiptastjóri án tafar tilkynna honum um upphaf skiptanna. Tilkynningin skal vera í formi auglýsingar og þar skulu koma fram upplýsingar um kröfulýsingarfrest, hvert beina skuli kröfulýsingu, viðurlög við vanlýsingum og hvort lýsa þurfi forgangskröfum eða kröfum sem njóta hlutaréttartryggingar.

6. gr.

Reglubundin miðlun upplýsinga til kröfuhafa.


    Skiptastjórar skulu miðla upplýsingum reglulega og á viðeigandi hátt til kröfuhafa lánastofnunar, einkum um framvindu slitanna.

7. gr.

Gildistaka.


    Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Reglugerðin er sett á grundvelli tilskipunar 2001/24/EB og ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn sem birt var í EES-viðbæti Stjórnartíðinda EB.
    Um framkvæmd reglugerðarinnar vísast að öðru leyti í viðkomandi gerð sem framkvæma skal hér á landi í samræmi við ákvæði EES-samningsins, m.a. bókun 1 við samninginn um altæka aðlögun.
    Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytinu, 2004.





Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum nr. 161/2002,
um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.

    Markmið frumvarpsins er innleiðing tilskipana um slit lánastofnana og á fjármálasamsteypum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.