Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 246. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 257  —  246. mál.




Frumvarp til laga



um græðara.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.
Markmið og gildissvið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að öryggi þeirra sem leita eftir eða nýta sér heilsutengda þjónustu græðara og að tryggja gæði þjónustunnar eftir því sem kostur er. Markmiði þessu skal m.a. náð með því að koma á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara.
    Lögin taka til skráðra græðara og eftir því sem við á annarra græðara, þótt óskráðir séu.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Með orðinu græðari í lögum þessum er átt við þá sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis.
    Með heilsutengdri þjónustu græðara er átt við þjónustu sem einkum tíðkast utan hins almenna heilbrigðiskerfis og byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum. Slík þjónusta felur meðal annars í sér meðferð á líkama einstaklings með það að markmiði að efla heilsu hans, lina þjáningar, draga úr óþægindum og stuðla að heilun.

3. gr.
Skráningarkerfi.

    Komið skal á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara. Skráningarkerfið skal vera í umsjá Bandalags íslenskra græðara. Bandalaginu er heimilt að innheimta skráningargjald sem standa skal undir kostnaði við skráningu hvers græðara og rekstri og viðhaldi skráningarkerfisins. Bandalagið ákveður fjárhæð skráningargjalds og skal hún staðfest af ráðherra. Bandalagið skal tryggja að almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um það hvaða græðarar eru skráðir á hverjum tíma og hver sé starfsgrein þeirra.
    Skráðum græðara er skylt að hafa skráningarskírteini sitt á áberandi stað á starfsstöð sinni þannig að það sé örugglega sýnilegt þeim sem sækja sér þjónustu viðkomandi græðara.
    Heimilt er að skrá græðara sem eru félagar í fagfélagi sem á aðild að skráningarkerfinu. Óski græðari sem ekki á aðild að fagfélagi eftir skráningu er skráning hans heimil að því tilskildu að hann uppfylli menntunarkröfur þess fagfélags sem hann ella ætti að tilheyra og önnur skilyrði skráningar og sæti eftirliti Bandalags íslenskra græðara og landlæknis.
    Ráðherra ákveður að fenginni umsögn landlæknis og Bandalags íslenskra græðara hvort fagfélag fær aðild að frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða á um þær kröfur sem fagfélög þurfa að uppfylla til að eiga aðild að skráningarkerfinu. Þar skal einnig kveðið á um fyrirkomulag skráningar, þær upplýsingar sem fram þurfa að koma um starfsgrein græðara, vistun skráningarkerfisins, eftirlit með viðhaldi þess og þær kröfur sem græðarar þurfa að uppfylla til að fá skráningu.
    Nú uppfyllir fagfélag ekki lengur þær kröfur sem reglugerð kveður á um og getur ráðherra þá ógilt aðild þess að skráningarkerfinu.

4. gr.
Ábyrgðartrygging.

    Græðari ber bótaábyrgð á störfum sínum eftir almennum reglum.
    Skráðum græðurum er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi vegna tjóns sem leitt getur af mistökum eða gáleysi í störfum þeirra. Í stað vátryggingar skal græðara þó heimilt að leggja fram ábyrgð sem veitt er af viðskiptabanka eða sparisjóði, enda veiti hún sambærilega vernd. Ráðherra setur reglugerð um lágmark vátryggingarfjárhæðar og framkvæmd vátryggingarskyldunnar. Hann skal hafa samráð við Bandalag íslenskra græðara og landlækni um ákvörðun vátryggingarfjárhæðarinnar.

5. gr.
Trúnaðar- og þagnarskylda.

    Græðurum er skylt að gæta fyllstu þagmælsku um öll einkamál sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu nema lög bjóði annað. Þagnarskylda helst þótt græðari láti af störfum og einnig þótt sá sem notið hefur þjónustu viðkomandi græðara sé fallinn frá. Um vitnaskyldu græðara gilda ákvæði læknalaga.

6. gr.

Skráning upplýsinga um heilsutengda þjónustu græðara.


    Að höfðu samráði við landlækni og Bandalag íslenskra græðara setur ráðherra með reglugerð skilyrði um skráningu og meðferð upplýsinga vegna heilsutengdrar þjónustu græðara sem veitt er utan hins almenna heilbrigðiskerfis. Að öðru leyti fer um meðferð upplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

7. gr.
Takmarkanir á heilsutengdri þjónustu græðara.

    Meðferð vegna alvarlegra sjúkdóma skal einungis veitt af löggiltum heilbrigðisstarfsmönnum. Þetta gildir þó ekki ef sjúklingur óskar eftir þjónustu græðara eftir samráð við lækni. Græðari skal í slíkum tilvikum fullvissa sig um að samráð hafi átt sér stað.
    Græðurum er óheimilt að gera aðgerðir eða veita meðferð sem fylgir alvarleg áhætta fyrir heilsu sjúklings. Sama máli gegnir um meðferð sjúkdóma sem falla undir ákvæði sóttvarnalaga um smitsjúkdóma og hafa í för með sér hættu fyrir almenning.
    Græðurum er óheimilt að ráðleggja fólki að hætta lyfjameðferð eða annarri meðferð sem það hefur hafið hjá löggiltu heilbrigðisstarfsfólki.
    Verði græðari þess var að skjólstæðingur sé með vandamál sem fellur utan starfssviðs græðara eða að meðferðin hafi ekki borið tilætlaðan árangur ber honum að vísa skjólstæðingi til læknis.
    Heilbrigðisstofnunum er heimilt að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara þar sé það í samræmi við stefnu stofnunarinnar.
    Ráðherra getur með reglugerð, að höfðu samráði við Bandalag íslenskra græðara og landlækni, kveðið nánar á um þá sjúkdóma, aðgerðir og meðferð sem getið er í 1. og 2. mgr.

8. gr.

Starfsheiti og kynning.


    Einungis sá sem er skráður græðari skv. 3. gr. hefur rétt til þess að nota heitið skráður í tengslum við starfsgrein sína.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð sem takmarkar kynningar og auglýsingar á starfsemi þeirra sem stunda heilsutengda þjónustu með hliðsjón af þeim ákvæðum laga sem gilda um heilbrigðisstéttir.

9. gr.
Viðurlög.

    Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, framin af ásetningi eða vítaverðu gáleysi, varða sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Um hlutdeild fer eftir ákvæðum 22. gr. almennra hegningarlaga.
    Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála.

10. gr.
Endurskoðun.

    Lög þessi skal endurskoða eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra.

11. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Í kjölfar þingsályktunar um stöðu óhefðbundinna lækninga sem samþykkt var á Alþingi 3. maí 2002 (33. mál 127. löggjafarþings) skipaði Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, með bréfi dags. 12. 12. 2002, nefnd sem falið var að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga á Íslandi og bera hana saman við stöðu mála annars staðar á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum.
    Í nefndina voru skipuð: Guðmundur Sigurðsson læknir, formaður nefndarinnar, Ástríður Svava Magnúsdóttir nuddari, Dagný E. Einarsdóttir hómópati, Einar Magnússon, yfirlyfjafræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Haraldur Ólafsson prófessor, Nanna Friðriksdóttir hjúkrunarfræðingur, Sólveig Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, og Margrét Erlendsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, sem starfsmaður nefndarinnar.
    Samkvæmt þingsályktuninni fólst verkefni nefndarinnar m.a. í því að skoða stöðu óhefðbundinna lækninga, gera tillögur um hvernig koma skuli til móts við vaxandi umsvif á sviði óhefðbundinna lækninga og að taka afstöðu til þess hvort viðurkenna skuli nám í óhefðbundnum lækningum með veitingu starfsréttinda. Í áfangaskýrslu nefndarinnar sem lögð var fram á Alþingi, 130. löggjafarþingi (þskj. nr. 97 í 97. máli), er gerð grein fyrir upphafsvinnu nefndarinnar sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að æskilegt væri að gefa þeim sem sinna óhefðbundum lækningum (hér eftir kallaðir græðarar) kost á tiltekinni viðurkenningu hins opinbera að uppfylltum ákveðnum menntunarlegum og faglegum kröfum. Með þessu móti taldi nefndin unnt að setja starfsemi græðara ákveðinn ramma og koma á fót virku eftirliti sem væri til hagsbóta jafnt græðurum og þeim sem nýta sér þjónustu þeirra. Nefndin taldi að þetta yrði best gert með lagasetningu og er frumvarpið sem hér er kynnt meginniðurstaðan af starfi nefndarinnar.
    Óhefðbundnar lækningar hafa lengi verið stundaðar í einhverri mynd í öllum samfélögum. Viðhorf til þessara mála eru mismunandi milli landa, munur er á því hvaða aðferðir óhefðbundinna lækninga hafa náð fótfestu í menningu ólíkra þjóða og í hve miklum mæli almenningur nýtir sér þær. Í sumum löndum, t.d. í ýmsum Asíu- og Afríkuríkjum, er forgangsmál að viðhalda og efla aðferðir óhefðbundinna lækninga innan heilbrigðisþjónustunnar en í öðrum löndum er hins vegar litið á þessa þjónustu sem viðbótar- eða jaðarþjónustu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) ákvað fyrir nokkrum árum að ráðast í stefnumörkun á þessu sviði í því skyni að ná samstöðu um ákveðnar meginlínur í málaflokknum. Samin voru drög að stefnu sem WHO gaf út undir nafninu „WHO Traditional Medicine Strategy 2002–2005“. Drögin fela ekki í sér neinar skuldbindingar fyrir aðildarríkin. Engu að síður verður að telja að þau séu aðildarríkjunum hvatning til þess að móta sína eigin stefnu á þessu sviði og virðist þeirra áhrifa þegar farið að gæta.
    Þegar nefnd um óhefðbundnar lækningar tók til starfa stóð yfir umfangsmikil vinna norskra og danskra heilbrigðisyfirvalda við undirbúning að lagasetningu um starfsemi þeirra sem veita óhefðbundna meðferð (alternativ behandling), bæði í Noregi og Danmörku. Í Noregi tóku slík lög gildi 1. janúar 2004 (Lov om alternativ behandling av sykdom mv.) og í Danmörku 1. júní 2004 (Lov om en brancheadministreret registreringsordning for alternative behandlere). Í báðum löndum hefur verið farin sú leið að koma á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir þá sem veita óhefðbundna meðferð, þótt einhver munur sé á útfærslu. Þetta er einnig sú leið sem lagt er til að farin verði hér á landi og hafa norsku og dönsku lögin verið höfð til hliðsjónar við gerð þessa frumvarps.
    Leggja ber áherslu á að græðurum er ekki skylt að skrá sig í skráningarkerfið sem lagafrumvarp þetta fjallar um. Það er hins vegar von nefndarinnar að sú viðurkenning sem skráning felur í sér verði græðurum og einstökum fagfélögum þeirra hvatning til að sækjast eftir aðild að skráningarkerfinu. Aðeins þeir græðarar sem fá skráningu hafa heimild til að kynna sig sem ,,skráða“ græðara á því sviði sem þeir starfa. Skráning er til marks um að þeir uppfylli tilteknar menntunarlegar og faglegar kröfur og felur því í sér ákveðinn gæðastimpil sem nýtist græðurum við að kynna starfsemi sína og veitir jafnframt notendum þjónustunnar ákveðnar upplýsingar um gæði hennar. Nefndin telur að verði frumvarp þetta að lögum hafi það í för með sér ávinning fyrir þá sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara samhliða því að starfsumhverfi græðara verður bætt.
    Frumvarp til laga um græðara var sent til umsagnar um miðjan júlí 2004. Umsagnaraðilar voru eftirtaldir:

Fagfélög heilbrigðisstétta:
    Ljósmæðrafélag Íslands.
    Læknafélag Íslands.
    Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.
    Iðjuþjálfarafélag Íslands.
    Lyfjafræðingafélag Íslands.
    Meinatæknafélag Íslands.
    Sjúkraliðafélag Íslands.
    Félag íslenskra sjúkraþjálfara.
    Lyfjatæknafélag Íslands.
    Matvæla- og næringafræðingafélag Íslands.
    Sjúkranuddarafélag Íslands.
    Félag matartækna.
    Félag íslenskra kírópraktora.
    Félag íslenskra fótaaðgerðafræðinga.
    Félag íslenskra náttúrufræðinga.
    Félag matarfræðinga.
    Samtök heilbrigðisstétta.

Deildir HÍ:
    Læknadeild.
    Hjúkrunarfræðideild.
    Lyfjafræðideild.
    Raunvísindadeild (matvælafræðiskor).
    Endurmenntunarstofnun.

Aðrar kennslustofnanir:
    Tækniháskóli Íslands, heilbrigðisdeild.
    Háskólinn á Akureyri, heilbrigðisdeild.
    Fjölbrautaskólinn við Ármúla, heilbrigðisskólinn.

Heilbrigðisstofnanir o.fl.:
    Heilbrigðisstofnunin Akranesi.
    Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Heilbrigðisstofnunin Blönduósi.
    Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík.
    Heilbrigðisstofnunin Hólmavík.
    Heilbrigðisstofnunin Hvammstanga.
    Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ.
    Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði.
    Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki.
    Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
    Heilbrigðisstofnunin Siglufirði.
    Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.
    Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum.
    Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum.
    Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.
    Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.
    Landspítali – háskólasjúkrahús.
    Heilsugæslan í Reykjavík.
    Landssamtök sjúkrahúsa.
    Landssamtök heilsugæslustöðva.

Hagsmunasamtök:
    Bandalag háskólamanna (BHM).
    Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB).

Aðrir:
    Landlæknir.
    Tryggingastofnun ríkisins, skrifstofa forstjóra.
    Menntamálaráðuneytið.
    Dómsmálaráðuneytið.
    Lyfjastofnun.
    Lýðheilsustöð.
    Persónuvernd.
    Félag stjórnenda í öldrunarþjónustu.
    Lánasjóður íslenskra námsmanna.
    Ríkisskattstjóri.
    Starfsgreinaráð um heilbrigðis- og félagsgreinar.
    Heilsustofnun NLFÍ.
    Samband íslenskra tryggingafélaga.
    Osteópatar (Haraldur Magnússon).
    Bandalag íslenskra græðara og aðildarfélög:
             Acupunkturfélag Íslands.
             Cranio sacral félag Íslands.
             Cranio, félag höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara.
             Félag íslenskra nuddara.
             Félag lithimnufræðinga.
             Organon, félag hómópata.
             Samband svæða- og viðbragðsfræðinga.
             Svæðameðferðarfélag Íslands.

II. Almennar athugasemdir.
    Samkvæmt frumvarpi þessu skal komið á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis. Með almennu heilbrigðiskerfi er átt við alla heilbrigðisþjónustu sem veitt er af löggiltu heilbrigðisstarfsfólki, hvort sem ríkið tekur þátt í kostnaði vegna hennar eða ekki. Megináhersla er lögð á neytendavernd og að efla faglega ábyrgð þeirra sem veita heilsutengda þjónustu eins og hún er skilgreind í frumvarpinu. Í athugasemd við 2. gr. frumvarpsins er nánar skýrt hvað átt er við með heilsutengdri þjónustu. Þeim sem veita slíka þjónustu hefur verið valið samheitið græðarar.
    Orðið græðari er gamalkunnugt orð í íslensku máli, hefur jákvæða skírskotun, er ekki gildishlaðið og hentar vel til þess að afmarka þann fjölbreytta og sundurleita hóp sem veitir heilsutengda þjónustu eins og hún er skilgreind í frumvarpinu. Einnig hefur orðið græðari verið notað um skeið af bandalagi nokkurra fagfélaga sem veita heilsutengda þjónustu, þ.e. Bandalagi íslenskra græðara sem stofnað var árið 2000. Aðildarfélög bandalagsins eru: Acupunkturfélag Íslands, Cranio sacral félag Íslands, Cranio, félag höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara, Félag íslenskra heilsunuddara, Félag lithimnufræðinga, Organon, félag hómopata, Samband svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi og Svæðameðferðarfélag Íslands. Markmið Bandalags íslenskra græðara er að sameina græðara, vinna að viðurkenningu og framfaramálum fyrir félagsmenn aðildarfélaganna, miðla upplýsingum og vera tengiliður við stjórnvöld og fjölmiðla.
    Fram að þessu hefur engin lögformleg skilgreining verið til á heilsutengdri þjónustu græðara. Græðarar hafa ekki notið opinberrar viðurkenningar og því hafa ekki verið lagðar á þá faglegar skyldur eða kvaðir af hálfu hins opinbera, líkt og á við um löggiltar heilbrigðisstéttir. Samkvæmt frumvarpi þessu er græðurum veitt ákveðin viðurkenning af hálfu hins opinbera ef þeir skrá sig í skráningarkerfi það sem frumvarpið fjallar um. Slík skráning er háð skilyrðum og leggur skyldur og faglegar kröfur á herðar einstökum fagfélögum sem fá aðild að skráningarkerfinu og þeim einstaklingum sem skrá sig í skráningarkerfið.
    Aðgangur að skráningarkerfinu er heimill græðurum sem eru fullgildir félagar í fagfélagi sem á aðild að skráningarkerfinu. Heilbrigðisráðherra ákveður að fengnum umsögnum landlæknis og Bandalags íslenskra græðara hvort fagfélagi skuli veitt aðild að skráningarkerfinu. Heimilt er að skrá græðara sem ekki á aðild að fagfélagi að því tilskildu að hann uppfylli öll skilyrði fyrir skráningu og sæti eftirliti landlæknis og Bandalags íslenskra græðara.
    Í drögum að reglugerð sem lögð eru fram sem fylgiskjal með frumvarpi þessu er kveðið á um þær kröfur sem fagfélög þurfa að uppfylla til að hljóta aðild að skráningarkerfinu. Kröfurnar lúta m.a. að menntunarlegum og faglegum kröfum sem einstaklingar þurfa að uppfylla til að teljast fullgildir félagar í viðkomandi fagfélagi. Einnig er fagfélögunum skylt að setja félagsmönnum sínum siðareglur og kveða í samþykktum sínum á um það að félagar skuldbindi sig til þess að reka ábyrga starfsemi, gefa skjólstæðingum sínum allar nauðsynlegar upplýsingar er varða starfsemi þeirra og fleira er varðar öryggi og réttindi þeirra sem nýta sér þjónustu græðara. Með ákvæðum 3. gr. laganna eru þannig lagðar skyldur á einstök fagfélög um að stuðla að gæðum og öryggi þeirrar þjónustu sem félagsmenn þeirra veita.
    Starfandi græðurum er ekki skylt að skrá sig í skráningarkerfið. Með því að skrá sig sýnir viðkomandi hins vegar fram á að hann uppfylli tiltekin skilyrði og faglegar kröfur í þeirri grein sem hann fæst við og er skráður fyrir og þeir sem nýta sér þjónustu græðara með skráð starfsheiti geta gengið að þessu vísu. Skráningarkerfið felur þannig í sér ákveðinn gæðastimpil og er jafnt ætlað að þjóna hagsmunum neytenda og græðara. Einungis sá sem er skráður græðari í samræmi við 3. gr. frumvarpsins hefur rétt til þess að nota heitið skráður í tengslum við starfsgrein sína.
    Í meðfylgjandi drögum að reglugerð er kveðið á um að almenningur skuli eiga greiðan aðgang að upplýsingum um hvort græðari sé skráður og í hvaða starfsgrein. Þetta er mikilvægt til þess að hver sá sem vill nýta sér þjónustu græðara geti gengið úr skugga um hvort græðari sá sem hann leitar til uppfylli þær kröfur sem kveðið er á um í frumvarpi þessu og reglugerðum sem á því byggja.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er fjallað um markmið laganna og gildissvið þeirra.
    Í 1. mgr. kemur fram að lögunum sé ætlað að tryggja eins og kostur er gæði heilsutengdrar þjónustu sem græðarar veita og stuðla þannig að öryggi þeirra sem nýta sér hana. Kveðið er á um að í þessu skyni verði komið á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara. Með frjálsu skráningarkerfi er átt við að græðurum sé frjálst en ekki skylt að skrá sig.
    Samkvæmt 2. mgr. taka lögin til græðara sem skráðir eru í skráningarkerfi því sem frumvarpið fjallar um. Lögin taka einnig til óskráðra græðara eftir því sem það á við. T.d. er kveðið á um þagnarskyldu allra græðara sem veita heilsutengda þjónustu, hvort sem þeir eru skráðir eða ekki. Sama gildir um takmarkanir á þjónustu græðara sem fjallað er um í 7. gr.

Um 2. gr.

    Greinin lýtur að því að skilgreina viðfangsefni laganna og skýra hugtakanotkun.
    Í 1. mgr. er þeim sem lögin beinast að gefið samheitið græðari og tiltekið að græðarar veiti heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis.
    Í 2. mgr. er skýrt hvað átt er við með heilsutengdri þjónustu græðara. Heilsutengd þjónusta græðara felst meðal annars í meðferð á líkama einstaklings með það að markmiði að efla heilsu hans, lina þjáningar, draga úr óþægindum og stuðla að heilun. Að vissu leyti er hér um útilokunarskilgreiningu að ræða þar sem græðarar eru þeir sem njóta ekki löggildingar sem heilbrigðisstétt, standa utan hins almenna heilbrigðiskerfis, en veita þjónustu af einhverju tagi með það að markmiði að efla og bæta líkamlega og andlega heilsu fólks. Þótt tekið sé fram að aðferðir græðara byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum er hvorki útilokað að aðferðir græðara geti í einhverjum tilvikum verið gagnreyndar né heldur að innan heilbrigðiskerfisins sé í einhverjum tilvikum beitt aðferðum sem byggjast fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindum.

Um 3. gr.

    Greinin fjallar um fyrirkomulag frjálsa skráningarkerfisins, hvar það skuli vistað og hvernig viðhaldi þess skuli sinnt. Í drögum að reglugerð sem lögð er fram sem fylgiskjal með frumvarpi þessu er kveðið á um hvaða kröfur fagfélög þurfi að uppfylla til að fá aðild að kerfinu og hvaða kröfur séu gerðar fyrir skráningu einstakra græðara. Með þessu eru þannig lagðar skyldur á herðar einstökum fagfélögum þar sem þeim er gert að framfylgja ákveðnum reglum með það að markmiði að tryggja eins og kostur er gæði og öryggi þeirrar þjónustu sem félagsmenn þeirra veita. Fagfélögunum og bandalagi þeirra er einnig falin rík ábyrgð á því að framfylgja þessum reglum gagnvart einstökum græðurum.
    Í 1. mgr. kemur fram að komið skuli á fót frjálsu skráningarkerfi græðara en með því er átt við að græðurum er ekki skylt að skrá sig í skráningarkerfið heldur sé það val hvers og eins. Kveðið er á um að skráningarkerfið skuli vera í umsjá Bandalags íslenskra græðara. Í umsjóninni felst: að færa á skrá þá græðara sem þess óska að því tilskildu að þeir uppfylli skilyrði um félagsaðild, taka af skrá þá sem þess kunna að óska og afskrá þá sem ekki uppfylla lengur sett skilyrði fyrir skráningu. Mikilvægt er að umsjónaraðili með kerfinu tryggi að skráðar upplýsingar séu ávallt réttar og að allar breytingar séu færðar inn reglulega. Bandalagi íslenskra græðara er heimilt að innheimta skráningargjald af hverjum einstaklingi sem skráir sig í skráningarkerfið. Gjaldið skal vera hóflegt og einungis ætlað til að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af rekstri og viðhaldi skráningarkerfisins. Fjárhæð gjaldsins er háð staðfestingu ráðherra.
    Í 2. mgr. er skráðum græðurum gert skylt að hafa skráningarskírteini sitt á áberandi stað á starfsstöð sinni til að auðvelda notanda að ganga úr skugga um hvort græðarinn sem hann leitar til sé skráður eða ekki.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að skrá græðara sem eru félagar í fagfélagi sem á aðild að skráningarkerfinu. Hér er einnig kveðið á um heimild til að skrá græðara sem ekki á aðild að fagfélagi að því tilskildu að hann uppfylli menntunarkröfur þess fagfélags sem hann ella ætti að tilheyra og önnur skilyrði skráningar sem kveðið er á um í lögum og reglugerðum.
    Samkvæmt 4. mgr. ákveður ráðherra að fenginni umsögn landlæknis og Bandalags íslenskra græðara hvort félagi skuli veitt aðild að skráningarkerfinu.
    Samkvæmt 5. mgr. skal ráðherra setja reglugerð þar sem kveðið er á um þær kröfur sem fagfélög þurfa að uppfylla til að hljóta aðild. Kröfurnar lúta m.a. að menntunarlegum og faglegum kröfum sem einstaklingar þurfa að uppfylla til að teljast fullgildir félagar í viðkomandi fagfélagi. Í drögum að reglugerð með lögum þessum er miðað við að fagfélögum verði skylt setja félagsmönnum sínum siðareglur og kveða í samþykktum sínum á um það að félagar skuldbindi sig til þess að reka ábyrga starsfemi, gefa skjólstæðingum sínum allar nauðsynlegar upplýsingar er varða starfsemi þeirra og fleira er varðar öryggi og réttindi þeirra sem nýta sér þjónustu græðara.
    6. mgr. þarfnast ekki skýringar.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. er tekið fram að græðari beri bótaábyrgð á störfum sínum eftir almennum reglum og er þá vísað til almenns skaðabótaréttar. Með 2. mgr. 4. gr. er skráðum græðurum gert skylt að hafa gilda starfsábyrgðartryggingu í formi vátryggingar eða bankaábyrgðar. Þessu ákvæði er ætlað að vernda þá sem nýta sér heilsutengda þjónustu græðara og tryggja einstaklingum lágmarksbætur verði þeir fyrir tjóni sem rekja má til mistaka eða gáleysis græðara. Nánar skal ákveðið í reglugerð um lágmark vátryggingarfjárhæðar og framkvæmd vátryggingarskyldunnar að öðru leyti. Í 4. gr. kemur fram að ábyrgðartrygging skuli vera hjá vátryggingafélagi sem hefur starsfsleyfi hér á landi. Er þá ekki einungis átt við íslensk vátryggingafélög, heldur öll vátryggingafélög innan evrópska efnahagssvæðisins sem hafa tilkynnt Fjármálaeftirlitinu að þau vilji veita þjónustu hér á landi.

Um 5. gr.

    Gerðar eru sambærilegar kröfur um trúnaðar- og þagnarskyldu græðara og gerðar eru til starfsfólks í heilbrigðisþjónustu samkvæmt 12. gr. laga um réttindi sjúklinga. Þagnarskylda samkvæmt þessu ákvæði tekur jafnt til skráðra sem óskráðra græðara.

Um 6. gr.

    Hvorki er talið nauðsynlegt né æskilegt að gera jafnmiklar kröfur til skráningar og varðveislu upplýsinga um heilsutengda þjónustu og gert er í lögum um réttindi sjúklinga hvað varðar meðferð. Hins vegar er talið rétt að heilbrigðisráðherra geti með reglugerð sett ákveðin skilyrði um skráningu og meðferð upplýsinga, t.d. með því að gera kröfu til þess að um þetta sé fjallað í samþykktum fagfélaga. Að öðru leyti fer um meðferð upplýsinga samkvæmt almennum lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Um 7. gr.

    Greininni er ætlað að tryggja að greining og meðferð sjúklinga vegna alvarlegra sjúkdóma eða smitsjúkdóma sem falla undir ákvæði sóttvarnalaga sé ávallt í höndum lækna og á þeirra ábyrgð. Sama máli gegnir um hvers konar skurðaðgerðir og aðra meðferð sem fylgt getur alvarleg áhætta. Kveðið er á um að græðarar megi ekki ráðleggja fólki að hætta meðferð sem það hefur hafið hjá löggiltu heilbrigðisstarfsfólki. Einnig er kveðið á um skyldu græðara til þess að vísa til læknis einstaklingum sem líkur eru á að þurfi læknisþjónustu með. Með ákvæðum 1. og 2. mgr. 7. gr. er þó ekki tekið fyrir að sjúklingur geti notið heilsutengdrar þjónustu græðara af nefndum ástæðum sé hún veitt að höfðu samráði við lækni. Slík þjónusta getur falið í sér að að lina þjáningar, draga úr sjúkdómseinkennum eða aukaverkunum af meðferð og stuðla að heilun. Enn fremur er í 7. gr. tekið fram að heimilt sé að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara inni á heilbrigðisstofnun sé það í samræmi við stefnu stofnunarinnar.

Um 8.–11. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.




Fylgiskjal I.



Reglugerð
um frjálst skráningarkerfi fyrir græðara.

(Drög 11. október 2004.)


1. gr.
Tilgangur.

    Skráningarkerfi fyrir græðara er ætlað að stuðla að öryggi þeirra sem leita eftir eða nýta sér heilsutengda þjónustu græðara og tryggja gæði þjónustunnar eftir því sem kostur er. Auk þess á skráningarkerfið að stuðla að ábyrgri þjónustu og viðskipaháttum græðara.

2. gr.
Frjáls skráning.

    Bandalag íslenskra græðara kemur á fót og rekur skráningarkerfi þar sem græðarar eiga þess kost að óska eftir skráningu. Til þess að geta látið skrá sig verður viðkomandi græðari að vera félagi í fagfélagi sem hefur hlotið aðild að skráningarkerfinu samkvæmt 3. gr. þessarar reglugerðar, og uppfylla að auki þær kröfur sem gerðar eru í 5. gr.
    Óski græðari sem ekki á aðild að fagfélagi eftir skráningu er skráning hans heimil að því tilskildu að hann uppfylli menntunarkröfur þess fagfélags sem hann ætti að tilheyra, hafi undirgengist samþykktir sem mælt er fyrir um í 1.–7. tölul. 3. gr. þessarar reglugerðar og uppfylli jafnframt þær kröfur sem gerðar eru í 5. gr.
    Bandalag íslenskra græðara skal jafnan sjá til þess að almenningur hafi greiðan aðgang að réttum upplýsingum um hvaða græðarar eru skráðir í skráningarkerfi græðara á hverjum tíma og hver sé starfsgrein þeirra.

3. gr.
Skilyrði fyrir aðild fagfélags að skráningarkerfinu.

    Að fenginni umsókn og umsögnum landlæknis og Bandalags íslenskra græðara getur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra heimilað að fagfélög fái aðild að frjálsa skráningarkerfinu sem nefnt er í 2. gr. svo fremi að félagið hafi staðfest:
     1.      samþykktir þar sem gerðar eru menntunarlegar og faglegar kröfur til þess einstaklings sem óskar eftir því að gerast félagi,
     2.      samþykktir sem mæla fyrir um siðareglur sem félagar eru skuldbundnir til að hlíta í starfi sínu,
     3.      samþykktir þar sem félagar skuldbinda sig til þess að reka ábyrga starfsemi,
     4.      samþykktir þar sem félagar skuldbinda sig til þess að gefa skjólstæðingum allar nauðsynlegar upplýsingar er varða starfsemi þeirra,
     5.      samþykktir þar sem félagar skuldbinda sig til þess að gæta trúnaðar um allar upplýsingar er varða skjólstæðinginn og heilsu hans,
     6.      fagfélög hafi í samþykktum sínum ákvæði um skráningu upplýsinga um heilsutengda þjónustu sem veitt er einstaklingum,
     7.      samþykktir þar sem kæruréttur skjólstæðinga gagnvart faglegu starfi félagsmanna er tryggður; fjallað skal um slíkar kærur í siðanefnd fagfélagsins eða sérstakri kærunefnd sem sett er á stofn;
     8.      samþykktir sem gera kleift að víkja félagsmönnum úr félaginu í samræmi við frekari starfsreglur sem settar eru þar um,
     9.      að fagfélagið sé skráð með kennitölu.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tilkynnir Bandalagi íslenskra græðara um fagfélög sem fengið hafa aðild að skráningarkerfinu í samræmi við ákvæði þessarar gr.

4. gr.

Skyldur fagfélaga sem fengið hafa aðild að skráningarkerfinu.

    Fagfélagi sem hlotið hefur aðild að skráningarkerfinu í samræmi við 3. gr. ber skylda til að senda þegar í stað tilkynningu til Bandalags íslenskra græðara ef skráður félagsmaður uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir því að vera á skrá.

5. gr.

Skilyrði fyrir skráningu græðara.


    Bandalag íslenskra græðara skráir græðara sem veitir heilsutengda þjónustu ef:
     1.      Viðkomandi græðari hefur lokið námi sem svarar að lágmarki til 6 eininga í líffæra- og lífeðlisfræði, 5 eininga í heilbrigðis- og sjúkdómafræði og 2 eininga í siðfræði og heilbrigðislöggjöf. Hér er átt við einingar á framhaldsskólastigi. Viðkomandi þarf jafnframt að hafa lokið starfsnámi undir handleiðslu viðurkennds leiðbeinanda í samræmi við kröfur þess fagfélags sem grein hans tilheyrir.
     2.      a)    Skjalfest er að græðarinn er fullgildur félagi í fagfélagi sem hlotið hefur staðfestingu í samræmi við 3. gr. og félagið mælir með skráningu hans.
Eða
                  b)      að fyrir liggur skjalfest staðfesting á því að hann hafi undirgengist þær samþykktir sem mælt er fyrir um í 1.–7. gr. 3. gr. þessarar reglugerðar. Landlæknisembættið og Bandalag íslenskra græðara mæli með skráningu hans og viðkomandi hefur undirritað yfirlýsingu þess efni að hann mun sæta eftirliti landlæknis og Bandalags íslenskra græðara.
     3.      Viðkomandi græðari hefur lagt fram staðfestingu á því að hann hafi gilda tryggingu vegna þeirrar fjárhagsábyrgðar sem kann að skapast gagnvart skjólstæðingum vegna starfa hans sem græðari.
     4.      Græðarinn hefur gefið upp kennitölu sína, nafn, lögheimili og starfsstöð.
     5.      Græðarinn hefur gefið upp starfsgrein sem hann óskar eftir að fá skráða.
    Unnt er að kæra til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins ef græðara er synjað um skráningu.

6. gr.
Skyldur skráðra græðara.

    Skráðum græðara er skylt:
     1.      að senda árlega staðfestingu til Bandalags íslenskra græðara um að hann hafi gilda ábyrgðartryggingu í samræmi við ákvæði 3. tölul. 5. gr.
     2.      að senda Bandalagi íslenskra græðara þegar í stað tilkynningu ef skilyrði skráningar, eins og þau koma fram í 5. gr. eru ekki lengur fyrir hendi eða ef viðkomandi óskar ekki eftir því að vera áfram á skrá.

7. gr.
Skráningargjald.

    Við skráningu skal græðari greiða Bandalagi íslenskra græðara sérstakt skráningargjald til að standa undir kostnaði af rekstri skráningarkerfisins.

8. gr.
Afturköllun skráningar.

    Ef græðari uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir skráningu í samræmi við reglugerð þessa skal Bandalag íslenskra græðara taka hann af skrá. Afskráning er kæranleg til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.
    Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, að fengnum tilmælum landlæknis eða Bandalags íslenskra græðara, ákveðið að græðari skuli tekinn af skrá, enda þótt skilyrðum fyrir skráningu sé fullnægt. Þetta getur átt við ef græðari brýtur gegn lögum um græðara eða aðhefst eitthvað annað í starfi sem er andstætt góðum starfsháttum.
    Gefa skal hinum skráða kost á að tjá sig um afskráningu sbr. 1. og 2. mgr. áður en hún er ákveðin.
    Græðari sem tekinn hefur verið af skrá í samræmi við 1. mgr. getur fengið sig skráðan aftur sýni hann fram á að hann uppfylli að nýju skilyrði fyrir skráningu. Greiðir hann þá skráningargjald að nýju, sbr. 7. gr.
    Græðari sem tekinn hefur verið af skrá í samræmi við 2. mgr. getur fengið sig skráðan aftur að fenginni umsögn landlæknis og Bandalags íslenskra græðara, sýni hann fram á að ástæður afskráningar eigi ekki lengur við.

9. gr
Upplýsingar skráningarkerfisins og upplýsingagjöf.

    Skráningarkerfi fyrir græðara skal innihalda upplýsingar um:
     1.      nafn, heimilisfang og kennitölu græðara sem skráður er, sbr. 5.gr.,
     2.      dagsetningu sem segir til um hvenær græðari var fyrst skráður í skráningarkerfið,
     3.      skráningarnúmer, nafn og heimilisfang á viðurkenndum fagfélögum sem hafa skráða félagsmenn í skráningarkerfinu, sbr. 3. gr.,
     4.      starfsgrein hins skráða, ásamt starfsstöð og skráningarnúmeri viðurkennds fagfélags sem hann er félagi í, sbr. 5. gr. ef það á við.
     5.      náms- og starfsferil.
    Allir hafa rétt til þess að kynna sér hverjir eru skráðir græðarar sbr. 1.–5. tölul.

10. gr.
Gildistaka.

    Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. mgr. 3. gr. laga nr. xx um græðara, öðlast gildi nú þegar.




Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um græðara.


    Markmið frumvarpsins er að stuðla að öryggi þeirra sem leita eftir heilsutengdri þjónustu græðara og skal í þeim tilgangi m.a. koma á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara í umsjá Bandalags íslenskra græðara. Bandalaginu verður heimilt að innheimta skráningargjald sem skal standa undir kostnaði við skráningu, rekstur og viðhaldi skráningarkerfisins. Sjúkratryggingar koma ekki til með að greiða eða taka þátt í kostnaði einstaklinga sem leita eftir heilsutengdri þjónustu græðara. Frumvarpið gerir ráð fyrir lítilsháttar eftirliti með umsýslu af hálfu landlæknis og heilbrigðisyfirvalda en kostnaður ríkissjóðs vegna þeirrar vinnu er óverulegur. Ekki er því talið að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.
    Frumvarpinu fylgja drög að reglugerð um frjálst skráningarkerfi fyrir græðara og verður ekki séð að gildistaka reglugerðarinnar leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.