Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 279. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 301  —  279. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um nýjan þjóðsöng.

Flm.: Sigríður Ingvarsdóttir, Hilmar Gunnlaugsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða lög um þjóðsöng Íslendinga, nr. 7/1983, með það fyrir augum að taka upp nýjan þjóðsöng sem væri auðveldari í flutningi og hentaði betur til almennrar notkunar, svo sem í skólum, á íþróttakappleikjum og við önnur svipuð tækifæri.

Greinargerð.


    Á 121. löggjafarþingi var flutt tillaga til þingsályktunar (35. mál) um endurskoðun á lögum um þjóðsöng Íslendinga. Meðal annars var lagt til að tekið yrði til athugunar hvort rétt væri að taka upp annan þjóðsöng við hlið núverandi þjóðsöngs. Þingsályktunartillagan náði ekki fram að ganga.
    Í tillögu þessari er lagt til að kannað verði hvort rétt sé að skipta um þjóðsöng. Því til stuðnings má einkum benda á að þjóðsöngurinn, Ó, guð vors lands, er mörgum svo erfiður til söngs að afar hæpið er að hann geti að öllu leyti þjónað hlutverki sínu. Almenningur hefur því oft gripið til annarra ættjarðarsöngva til að minnast lands síns svo sem Ísland ögrum skorið, Þú álfu vorrar yngsta land, Öxar við ána, Ég vil elska mitt land, Yfir voru ættarlandi, Sjá, dagar koma, Hver á sér fegra föðurland, Land míns föður, Úr útsæ rísa Íslands fjöll og Ísland er land þitt. Einnig má benda á að við sum tækifæri hentar þjóðsöngurinn ekki alls kostar vel af því að hann þykir of hátíðlegur.
    Flutningsmenn telja rétt að nýr þjóðsöngur verði valinn úr hópi söngva sem þegar hafa unnið sér sess í huga þjóðarinnar sem ættjarðarsöngvar, þ.e. að ekki skuli efnt til samkeppni á meðal ljóðskálda og tónskálda um nýjan þjóðsöng. Flutningsmenn mæla einkum með tveimur af áðurnefndum ættjarðarsöngvum, þ.e. annars vegar Ísland ögrum skorið, ljóð eftir Eggert Ólafsson og lag eftir Sigvalda Kaldalóns, og hins vegar Ísland er land þitt, ljóð eftir Margréti Jónsdóttur og lag eftir Magnús Þór Sigmundsson, svohljóðandi:

        Ísland ögrum skorið,
        eg vil nefna þig
        sem á brjóstum borið
        og blessað hefir mig,
        fyrir skikkun skaparans.
        Vertu blessað, blessi þig
        blessað nafnið hans.
            
              
Prentað upp.


        Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
        Ísland í huga þér hvar sem þú fer.
        Ísland er landið, sem ungan þig dreymir,
        Ísland í vonanna birtu þú sér.
        Ísland í sumarsins algræna skrúði,
        Ísland með blikandi norðljósatraf,
        Ísland, er feðranna afrekum hlúði.
        Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

        Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir.
        Íslensk er tunga þín, skír eins og gull.
        Íslensk sú lind, sem um æðar þér streymir.
        Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
        Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur.
        Íslensk er lundin, með karlmennsku þor.
        Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
        Íslensk er trúin á frelsisins vor.

        Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma.
        Íslandi helgar þú krafta og starf.
        Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
        íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
        Ísland sé blessað um aldanna raðir,
        íslenska moldin er lífið þér gaf.
        Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
        Ísland sé frjálst meðan sól gyllir haf.

    Löngu eftir að Ó, Guð vors lands hafði hlotið almenna viðurkenningu sem þjóðsöngur var farið að nota Ísland ögrum skorið sem eins konar þjóðsöng og sýndu menn því þá virðingu að rísa úr sætum þegar lagið var flutt.
    Ljóðið Ísland er land þitt er ungt að árum, samið árið 1970. Í inngangskafla bókarinnar Ísland er land þitt, úrval ættjarðarljóða kemur m.a. fram: „Ánægjulegt er að finna hvað ættjarðarljóð eiga sterkan hljómgrunn hjá þjóðinni, jafnt ungum sem öldnum. Staðfesting fékkst á því nýlega þegar fram kom á sjónarsviðið gullfallegt lag og ljóð sem samstundis var á allra vörum. Boðskapur þess er skýr og lætur engan ósnortinn: Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma.“
    Eins og ljóðin bera með sér er um að ræða óð til landsins. Ekki þarf að fara mörgum orðum um fegurð laganna og hafa margir af helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar flutt þau á eftirminnilegan hátt. Það er mat flutningsmanna að söngvarnir hafi allt til að bera til að geta orðið þjóðsöngur Íslendinga. Þeir eru allt í senn hátíðlegir, auðveldir í flutningi og henta við fjölbreyttari aðstæður en núverandi þjóðsöngur. Þá eiga söngvarnir mjög vel við á íþróttakappleikjum, t.d. fyrir landsleiki, enda þess eðlis að bæði leikmenn og stuðningsmenn geta sameinast um að taka rösklega undir. Slíkt yrði til þess fallið að efla baráttuanda og fylla keppnisfólk eldmóði.
    Vissulega er lofsöngurinn Ó, Guð vors lands mörgum Íslendingum hjartfólginn enda er tæpast ágreiningur um tign og fegurð hans. Með tilliti til þess yrði hann að sjálfsögðu áfram sunginn við ýmis hátíðleg tækifæri þótt hann yrði aflagður sem þjóðsöngur Íslendinga. Mikilvægt er að þjóðsöngurinn sé auðlærður og auðfluttur auk þess að vera óður til landsins okkar.