Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 101. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 319  —  101. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um frávísanir framhaldsskóla og háskóla.

     1.      Hve mörgum var vísað frá námi í framhaldsskólum í haust, sundurliðað eftir skólum, og hve margir sem hugðust snúa aftur til náms eftir að hafa hætt tímabundið námi fengu ekki inni í neinum skóla?
    Á haustönn 2004 fengu allir nýnemar skólavist í framhaldsskólum. Ráðuneytið sendi bréf til allra nýnema sem ekki fengu skólavist í fyrstu umferð, þar sem þeim var boðið að hafa samband við ráðuneytið. Aðstoðaði ráðuneytið þá við að finna skólavist. Alls höfðu um 200 nýnemar samband við ráðuneytið síðastliðið sumar í því skyni og var þeim öllum fundin skólavist.
    Tölulegar upplýsingar um nema sem höfðu hætt í skóla og vildu hefja nám að nýju á haustönn 2004 liggja ekki fyrir. Upplýsingar um umsækjendur eru skráðar og afgreiddar í hverjum skóla fyrir sig en ekki er unnt að sjá á einum stað hverjir sækja um né hvað verður um umsóknir þeirra. Hér er einnig um persónurekjanlegar upplýsingar að ræða sem ráðuneytið hefur ekki kallað eftir hingað til.
    Af þeim ástæðum sem að framan eru raktar er ekki mögulegt að svara með sama hætti síðari lið fyrirspurnarinnar. Fyrir liggur að ýmsir eldri nemar, sem synjað var um dagskóla á haustönn 2004, hófu í staðinn nám í kvöldskóla eða í fjarnámi. Algengt er að nemendur sem skráðir eru í framhaldsskóla sæki um í öðrum skóla. Sé þeim synjuð skólavist þar, ganga þeir áfram að henni vísri í fyrri skólanum. Alltaf er talsvert um að nemendur sem sækja um sérhæft nám, t.d. í löggiltum iðngreinum, komist ekki inn í fyrstu atrennu þar sem fjöldinn takmarkast af aðstöðu, svo sem stærð skólaverkstæða. Fáir úr hópi eldri umsækjenda höfðu samband við ráðuneytið sl. sumar vegna synjunar á skólavist.

     2.      Hve mörgum var vísað frá námi í haust í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands, sundurliðað eftir deildum?

    Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar beint frá háskólunum þremur:

Háskóli Íslands
Fjöldi umsókna sem var hafnað
Guðfræðideild 3
Læknadeild 0 *
Lagadeild 4
Viðskipta- og hagfræðideild 13
Heimspekideild 43
Lyfjafræðideild 0
Tannlæknadeild 1
Verkfræðideild 3
Raunvísindadeild 13
Félagsvísindadeild 18
Hjúkrunarfræðideild 7
Samtals 105
* Að loknum inntökuprófum; þeim sem ekki komust í læknisfræði eða sjúkraþjálfun var gefinn kostur á að fara í annað nám.


Háskólinn á Akureyri Fjöldi umsókna sem var hafnað
Auðlindadeild 1
Félagsvísinda- og lagadeild 9
Heilbrigðisdeild 5
Kennaradeild 30 *.
Viðskiptadeild 27
Upplýsingatæknideild 0
Samtals 72
*. Af þessum 30 voru 4 umsækjendur sem uppfylltu skilyrði en sóttu um að stunda fjarnám en var hafnað vegna ónógrar þátttöku á þessu skólaári
*² Af þessum 27 voru 12 umsækjendur sem uppfylltu skilyrði en sóttu um að stunda fjarnám en var hafnað vegna ónógrar þátttöku á þessu skólaári

    
Kennaraháskóli Íslands Fjöldi umsókna sem var hafnað
Grunndeild:
Grunnskólabraut 351
Kennsluréttindabraut 205
Íþróttabraut 51
Leikskólabraut 154
Tómstundabraut 18
Þroskaþjálfabraut 36
Samtals 815
Framhaldsdeild:
Dipl. Ed. nám 114
Rannsóknartengt framhaldsnám til meistaragráðu 2
Samtals 116*
*Hafa ber í huga að nemendur í framhaldsdeild eru nemendur sem þegar hafa lokið háskólaprófi (kennarar með starfsreynslu).