Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 399. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 506  —  399. mál.




Frumvarp til laga



um stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Heimilt er Húsavíkurbæ að stofna einkahlutafélag um rekstur Orkuveitu Húsavíkur er nefnist Orkuveita Húsavíkur ehf.

2. gr.

    Heimili Orkuveitu Húsavíkur ehf. og varnarþing skulu vera á Húsavík, en heimilt skal vera að starfrækja útibú á öðrum stöðum.

3. gr.

    Tilgangur Orkuveitu Húsavíkur ehf. er orkurannsóknir, vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns og hvers konar annarra auðlinda, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.
    Orkuveitu Húsavíkur ehf. er heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.
    Tilgangi félagsins og verkefnum skal nánar lýst í samþykktum þess. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundum samkvæmt almennum reglum.

4. gr.

    Orkuveita Húsavíkur ehf. tekur við einkarétti Húsavíkurbæjar og Orkuveitu Húsavíkur til starfrækslu hita-, raf- og vatnsveitu á Húsavík og yfirtekur skyldur tengdar rekstri þeirra sem kveðið er á um í öðrum lögum. Farið skal að ákvæðum 4. gr. laga nr. 32/2004 varðandi ráðstöfun á einkarétti. Orkuveita Húsavíkur ehf. yfirtekur samninga sem gerðir hafa verið um sölu á rafmagni og heitu vatni eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum.
    Heimilt er öðrum sveitarfélögum að framselja Orkuveitu Húsavíkur ehf. leyfi og réttindi til reksturs veitna og dreifikerfa sinna ef samningar takast um það.
    Aðrir sem reka orkumannvirki eða vatnsveitu á starfssvæði Orkuveitu Húsavíkur ehf. við gildistöku laga þessara skulu halda þeim rétti sínum í samræmi við ákvæði laga.

5. gr.

    Stjórn Orkuveitu Húsavíkur ehf. setur gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda í samræmi við ákvæði orkulaga, nr. 58/1967, raforkulaga, nr. 65/2003, og laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004. Við setningu gjaldskrár fyrir sölu á heitu vatni skal gætt almennra arðsemissjónarmiða.

6. gr.

    Fastráðnir starfsmenn Orkuveitu Húsavíkur skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu áunnið sér.
    Um biðlaunarétt fastráðinna starfsmanna Orkuveitu Húsavíkur við stofnun Orkuveitu Húsavíkur ehf. fer eftir grein 11.1.1 í kjarasamningi Starfsmannafélags Húsavíkur og launanefndar sveitarfélaga f.h. Húsavíkurbæjar með gildistíma 1. janúar 2001 til 31. mars 2005.

7. gr.

    Stofna skal einkahlutafélagið Orkuveitu Húsavíkur á stofnfundi sem haldinn skal í desembermánuði 2004. Allur kostnaður af stofnun Orkuveitu Húsavíkur ehf. og yfirtöku þess á rekstri Orkuveitu Húsavíkur greiðist af einkahlutafélaginu.

8. gr.

    Orkuveita Húsavíkur ehf. skal taka til starfa 1. janúar 2005 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Orkuveitu Húsavíkur. Orkuveita Húsavíkur skal lögð niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórnar fyrirtækisins.

9. gr.

    Um skyldu Orkuveitu Húsavíkur ehf. til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt og um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og hafa slíkan rekstur með höndum. Þó skal Orkuveita Húsavíkur ehf. greiða til sveitarfélaga þau opinber gjöld sem gert er að greiða af fasteignum félagsins samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.
    Orkuveita Húsavíkur ehf. skal undanþegin stimpilgjöldum. Þá verða ekki greiddir skattar og opinber gjöld af eignatilfærslum milli Húsavíkurbæjar og Orkuveitu Húsavíkur ehf. við formbreytinguna.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Húsavíkurbær ber áfram ábyrgð á lánum sem tekin hafa verið fyrir 31. desember 2004 með ábyrgð bæjarsjóðs vegna Orkuveitu Húsavíkur.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að Húsavíkurbæ verði heimilað að stofna hlutafélag um rekstur Orkuveitu Húsavíkur. Um nokkurt skeið hefur staðið yfir undirbúningur að breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins og á fundi bæjarstjórnar Húsavíkurbæjar 26. október 2004 var tekin ákvörðun um að stofna einkahlutafélag um rekstur þess. Fór Húsavíkurbær þess á leit við iðnaðarráðherra að lagt yrði fyrir Alþingi frumvarp til laga þess efnis að heimilað yrði að stofna einkahlutafélag um rekstur Orkuveitunnar.
    Á undanförnum árum hefur rekstrarformi nokkurra orkufyrirtækja í eigu sveitarfélaga verið breytt. Árið 2001 voru stofnuð hlutafélög um rekstur Hitaveitu Suðurnesja og Orkubú Vestfjarða. Árið 2002 var stofnað sameignarfyrirtæki um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og árið 2003 var stofnað hlutafélag um rekstur Norðurorku. Í öllum tilfellum lagði iðnaðarráðherra fram frumvarp til laga um breytt rekstrarform að beiðni eigenda veitnanna.
    Frumvarpið er m.a. byggt á frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku og svipar í flestu til annarra laga um breytingar á rekstrarformi orkufyrirtækja.

II. Saga veitureksturs á Húsavík.
    Árið 1917 var byggð 50 kW rafstöð við Búðará. Raunverulegur rekstur stöðvarinnar er talinn hefjast 15. ágúst 1919. Árið 1946 hófst endurnýjun útikerfis með byggingu spennistöðva og 6 kV dreifingar. Sumarið 1947 var núverandi 30 kV lína lögð frá Laxárvirkjun til Húsavíkur. Orkustöð var tekin í notkun árið 2000 og framleiðir hún raforku úr 120°C heitu vatni frá Hveravöllum. Aflgeta stöðvarinnar er 1,9 MW, og getur stöðin framleitt um 90% af orkuþörf Húsavíkur.
    Vatnsveita var lögð árið 1926 á Húsavík en núverandi vatnsból var tekið í notkun 1947. Lögð var ný lögn frá vatnsbóli að Orkustöð á Kaldbaksleiti, árið 2000. Virkjað vatn í vatnsbóli er nú um 380 l/s, en virkjanlegt kalt vatn í landi Húsavíkur er talið vera 1.000–1.200 l/s. Affallsvatn frá Orkustöð er u.þ.b. 200 l/s og 25°C heitt.
    Hitaveita Húsavíkur var stofnuð 1970, en þá var lögð um 18 km löng asbestæð frá Hveravöllum til Húsavíkur. Í upphafi voru nýttir um 30 l/s af 100°C heitu hveravatni. Fljótlega kom í ljós að bora þurfti eftir meira vatni. Árið 1974 var boruð 450 m djúp hola sem gefur nú um 25 l/s, önnur 650 m djúp hola var boruð 1997 sem gefur um 65 l/s. Vatn úr borholum er 125°C heitt og sjálfrennandi. Vegna hæðarmunar milli Hveravalla og Húsavíkur er lítil þörf á dælingu hjá veitunni. Árið 1999 var lögð ný aðveituæð til Húsavíkur. Er um að ræða einangraða stálpípu sem getur flutt allt að 150 l/s af 125–130°C heitu vatni, til iðnaðarnota og húshitunar á Húsavík. Frá Orkustöð er hægt að afhenda vatn á bilinu 4–120°C.
    Rafveita, Vatnsveita og Hitaveita Húsavíkur voru sameinaðar 1. janúar 1996 undir nafni Orkuveitu Húsavíkur.

III. Helstu lykilstærðir 2003.

Hitaveita
Íbúar á veitusvæði 2.453
Veitur (mælitæki) 936
Fjöldi starfsmanna 4 stöðugildi
Fjöldi ársverka 4 ársverk
Uppsett afl á jarðhitasvæði 43,9 MW
Uppsett afl í dreifikerfi (aflgeta) 23,6 MW
Lengd safn- og aðveituæða 49,5 km
Lengd dreifikerfis 29 km
Vatnsmagn inn á dreifikerfi 3.000.000 m3/ári
Hámarksálag 18,7 MW
Smásala 1.490.698 m3
Heildsala 129.539 m3
Smásala (án vsk.) 80,2 millj. kr.
Þar af iðnaðarnotkun (án vsk.) 5,7 millj. kr.
Heildsala (án vsk.) 3,5 millj. kr.
Meðalverð (án vsk.) 1 kr./kWh
Vatnsveita
Íbúar á veitusvæði 2.353
Veitur (mælitæki) 20
Fjöldi starfsmanna sjá hitaveitu
Fjöldi ársverka sjá hitaveitu
Uppsett í vatnsbóli 300 l/s
Hámarksrennsli í dreifikerfi 100 l/s
Lengd safn- og aðveituæða 4 km
Lengd dreifikerfis 29 km
Hámarksálag á árinu 300 l/s
Smásala eftir mæli 1.381.027 m3
Smásala eftir mæli 11,7 millj. kr.
Álagning ársins 24,9 millj. kr.
Meðalverð á mældu vatni 8,5 kr./m3
Rafveita
Íbúar á veitusvæði 2.353
Veitur (mælitæki) 1.210
Fjöldi starfsmanna 3 stöðugildi
Fjöldi ársverka 3 ársverk
Dreifistöðvar, uppsett spennaafl 7 MW
Lengd háspennudreifikerfis 18 km
Lengd lágspennudreifikerfis 27,5 km
Orkukaup RARIK 8,24 GWh/ári
Orkukaup RARIK 31,0 millj. kr.
Rafmagnsframleiðsla Orkustöð 8,56 GWh/ári
Rafmagnsframleiðsla Dísilstöð 0,07 GWh/ári
Orkuframleiðsla inn á dreifikerfi 82 GWh/ári
Orkuöflun alls 16,47 GWh/ári
Hámarksálag á árinu 3,5 MW
Meðal innkaupsverð 3,76 kr./kWh
Smásala 14 GWh
Smásala (án vsk.) 105,7 millj. kr.
Meðalverð í smásölu (án vsk.) 7,55 kr./kWh

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er Húsavíkurbæ veitt heimild til að stofna einkahlutafélag um rekstur Orkuveitu Húsavíkur er nefnist Orkuveita Húsavíkur ehf. og leggja til þess eignir sem hlutafé.

Um 2. gr.


    Greinin fjallar um að heimili Orkuveitu Húsavíkur ehf. og varnarþing verði á Húsavík. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að starfrækja útibú á öðrum stöðum, en slíkt getur verið nauðsynlegt fyrir framgang einkahlutafélagsins. Rétt þykir að lögheimili og varnarþing félagsins sé á athafnasvæði þess, Húsavík. Ástæða þykir til að taka fram að heimilt sé að stofna útibú annars staðar.

Um 3. gr.


    Í greininni er megintilgangur Orkuveitu Húsavíkur ehf. skilgreindur. Samkvæmt greininni er tilgangurinn orkurannsóknir, vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns og hvers konar annarra auðlinda, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Sérstaklega er kveðið á um heimild fyrirtækisins til að gerast eignaraðili í öðrum félögum og fyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að tilgangi félagsins og verkefnum skuli nánar lýst í samþykktum þess og að samþykktum félagsins megi breyta á hluthafafundum samkvæmt almennum reglum.

Um 4. gr.


    Í greininni er kveðið á um að Orkuveita Húsavíkur ehf. taki við einkarétti Húsavíkurbæjar og Orkuveitu Húsavíkur til starfrækslu hita-, raf- og vatnsveitu.
    Í 30. gr. orkulaga, nr. 58/1967, er iðnaðarráðherra heimilað að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitur sem annist dreifingu eða sölu heits vatns eða gufu til almenningsþarfa á tilteknum veitusvæði. Á grundvelli þessa veitti iðnaðarráðherra Orkuveitu Húsavíkur einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu á Húsavík. Í 31. gr. orkulaga segir að sveitarfélag geti, með samþykki ráðherra, framselt einkaleyfið einstaklingum eða félögum að einhverju eða öllu leyti um ákveðið tímabil í senn með þeim skilyrðum og kvöðum sem ástæður þykja til.
    Á grundvelli eldri lagaheimilda veitti iðnaðarráðherra Orkuveitu Húsavíkur einkaleyfi til dreifingar og sölu á raforku í lögsagnarumdæmi Húsavíkur, sbr. 7. gr. reglugerðar um Orkuveitu Húsavíkur. Í raforkulögum, bráðabirgðaákvæði III, segir að þeir sem við gildistöku laganna hafi rétt til að reisa og reka kerfi til dreifingar raforku haldi þeim rétti sínum, enda uppfylli þeir skilyrði laganna. Þá segir í 35. gr. raforkulaga að leyfi samkvæmt lögunum megi hvorki framselja né setja til tryggingar fjárskuldbindingum nema með leyfi ráðherra.
    Samkvæmt 4. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, hefur sveitarfélag einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. 1. gr. Í greininni er jafnframt kveðið á um að sveitarstjórn sé heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt lögunum. Í 2. og 3. mgr. 4. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga segir að við slíka ráðstöfun skuli, eftir því sem við á, kveða á um eignarrétt á stofnkerfi vatnsveitu, verð til notenda veitunnar, innlausnarrétt o.fl. í samningi milli aðila. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að farið verði að þessum ákvæðum.
    Eins og áður hefur komið fram voru Rafveita, Vatnsveita og Hitaveita Húsavíkur sameinaðar í Orkuveitu Húsavíkur 1. janúar 1996. Í frumvarpinu er lagt til að Orkuveita Húsavíkur ehf. haldi þeim einkarétti til dreifingar og sölu raforku, heits vatns og gufu sem Orkuveita Húsavíkur hafði áður.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að Orkuveita Húsavíkur ehf. muni yfirtaka þá samninga sem gerðir hafa verið um vatnssölu eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum. Heimilt er öðrum sveitarfélögum að framselja Orkuveitu Húsavíkur ehf. leyfi og réttindi til reksturs veitna og dreifikerfa sinna ef samningar takast um það.
    Til að taka af allan vafa um réttarstöðu þeirra er við gildistöku laganna reka orkumannvirki á starfssvæði Orkuveitu Húsavíkur er kveðið á um að þeir skuli halda þeim rétti sínum.

Um 5. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að stjórn Orkuveitu Húsavíkur ehf. setji gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda. Í 17. gr. raforkulaga er kveðið á um tekjumörk og gjaldskrá dreifiveitna og gilda ákvæði laganna um gjaldskrá fyrir dreifingu á rafmagni. Í 6.–10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga er kveðið á um gjaldtöku fyrir vatnsnotkun, innheimtu, gjaldskrá o.fl. Skal farið að þessum ákvæðum hvað varðar rekstur vatnsveitu. Í 3. mgr. 32. gr. orkulaga segir að setja skuli gjaldskrá fyrir hitaveitu er ráðherra staðfestir.
    Þá er í greininni lagt til að við gerð gjaldskrár fyrir heitt vatn skuli gætt almennra arðsemissjónarmiða. Þetta er í samræmi við ákvæði annarra sérlaga um orkufyrirtæki, 32. gr. orkulaga og 5. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. þessararar greinar er kveðið á um réttarstöðu fastráðinna starfsmanna Orkuveitu Húsavíkur varðandi störf hjá hinu nýja félagi og áunnin réttindi. Ákvæðinu er ætlað að tryggja starfsmönnum Orkuveitu Húsavíkur sömu eða sambærileg störf hjá félaginu eftir formlega stofnun þess þannig að breytingar á rekstrarformi hafi ekki áhrif á stöðu þeirra, enda ekki um neina eðlisbreytingu á störfum eða starfaðstöðu að ræða. Starfsmenn Orkuveitu Húsavíkur eru sjö og greiðir einn í Lífeyrissjóð starfsmanna Húsavíkurbæjar, sem rekinn er af Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga, einn greiðir til Lífiðnar, einn til Lífeyrissjóðs Norðurlands, einn til Sameinaða lífeyrisssjóðsins, einn til Lífeyrissjóðs Verkfræðingafélags Íslands og tveir til Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Fimm þeirra eru í Starfsmannafélagi Húsavíkurbæjar, einn í Velstjórafélagi Íslands og einn í Stéttarfélagi verkfræðinga.
    Í 2. mgr. er fjallað sérstaklega um hvernig farið skuli með biðlaunarétt fastráðinna starfsmanna en vísað er til greinar 11.1.1 í gildandi kjarasamningi Starfsmannafélags Húsavíkur og launanefndar sveitarfélaga f.h. Húsavíkurbæjar. Greinin hljóðar svo:
              Um starfsmenn sveitarfélaga gilda neðanskráðar reglur um réttindi og skyldur þeirra, þó þannig að um þá starfsmenn sem ráðnir voru fyrir 1. mars 1997 gilda að auki eftirfarandi ákvæði um áunnin réttindi:
              „Nú er staða lögð niður, og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en í 12 mánuði, eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum ríkisins.
              Ef sama staða er aftur stofnuð innan 5 ára, á starfsmaður að öðru jöfnu rétt til hennar.
              Nú hefur maður verið leystur frá starfi vegna þeirra orsaka, sem um getur í grein þessari, eða annarra atvika, sem honum verður ekki sök á gefin, og skal hann þá í 5 næstu ár að öðru jöfnu sitja fyrir um starf í þjónustu ríkisins, er losna kann, ef hann sækir um það.
              Starfsaldur hans áður og eftir skal þá saman lagður og veitir þá sömu réttindi sem óslitin þjónusta.
              Nú tekur maður, er launagreiðslna nýtur samkvæmt 1. mgr., við starfi í þjónustu ríkisins, áður en liðinn er 6 eða 12 mánaða tíminn, og skulu þá launagreiðslur samkvæmt þessari grein falla niður, ef laun þau, er nýja starfinu fylgja, eru jöfn eða hærri en þau, er hann naut í fyrri stöðunni. Ef launin í nýju stöðunni eru lægri, skal greiða starfsmanni launamismuninn til loka 6 eða 12 mánaða tímabilsins.“


Um 7. gr.


    Lögin eru heimildarlög sem heimila Húsavíkurbæ að stofna einkahlutafélag um rekstur Orkuveitu Húsavíkur. Í greininni er ákvæði þess efnis að stefnt skuli að því að stofna einkahlutafélagið á stofnfundi í desembermánuði 2004 og að allur kostnaður af stofnun einkahlutafélagsins og yfirtöku þess á rekstri Orkuveitu Húsavíkur greiðist af félaginu.

Um 8. gr.


    Í greininni er kveðið á um að hlutafélaginu sé heimilt að taka til starfa 1. janúar 2005. Við stofnun þess mun það yfirtaka allar eignir, skuldir og skuldbindingar Orkuveitu Húsavíkur frá sama tíma.

Um 9. gr.


    Í greininni segir í 1. málsl. 1. mgr. að um skyldu Orkuveitu Húsavíkur ehf. til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fari á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og hafa slíkan rekstur með höndum. Ákvæðið á sér rót í því að flest fyrirtæki landsins sem annast dreifingu og sölu á heitu vatni, rafmagni og vatni eru í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og bera eigendur ótakmarkaða ábyrgð á rekstri þeirra. Í 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, eru fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga sem ríkissjóður eða sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á undanþegin skattskyldu. Í frumvarpsgreininni er lagt til að skattaleg staða Orkuveitu Húsavíkur ehf. verði sú sama og Orkuveitu Húsavíkur þrátt fyrir breytt rekstrarform. Með þessu er tryggt að fyrirtækið njóti sömu skattalegrar stöðu og önnur raforkufyrirtæki sem eru í sambærilegri stöðu. Þetta ákvæði frumvarpsins byggist á 80. gr. orkulaga, nr. 58/1967, með síðari breytingum, og er samhljóða ákvæði 9. gr. laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er kveðið á um skyldu félagsins til greiðslu opinberra gjalda af húseignum þess. Ákvæðið er samhljóða ákvæðum annarra laga um orkufyrirtæki, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 135/2003, um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði.
    Í 2. mgr. er Orkuveitu Húsavíkur ehf. veitt undanþága frá stimpilgjöldum með sama hætti og gert er í 9. gr. laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku. Þá er kveðið á um að nauðsynlegar eignatilfærslur á milli Húsavíkurbæjar og Orkuveitu Húsavíkur ehf. við formbreytinguna verði ekki andlag skatttöku. Sambærilegt ákvæði er að finna í 9. gr. laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku.
    Fjármálaráðherra hefur á þskj. 419 lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja. Í því er lagt til að fyrirtæki sem stunda vinnslu, dreifingu, flutning, sölu og afhendingu á raforku og heitu vatni skuli skattskyld skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Frumvarpið, sem tengist breytingum á skipulagi raforkumála, var samið af starfshópi sem fjármálaráðherra skipaði 11. desember 2000 um skattalegt umhverfi raforkufyrirtækja með það fyrir augum að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði í takt við almenn samkeppnissjónarmið. Í tengslum við þetta frumvarp fjármálaráðherra hefur iðnaðarráðherra lagt fram á þskj. 503 frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði. Í því er lagt til að öll ákvæði sérlaga um skattskyldu orkufyrirtækja falli brott í lok árs 2005 og gera verður ráð fyrir að sama gildi um þessa grein varðandi skattskyldu Orkuveitu Húsavíkur ehf. Verði frumvörpin að lögum verða öll orkufyrirtæki landsins skattskyld frá og með 1. janúar 2006.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að Húsavíkurbær beri áfram ábyrgð á lánum sem tekin hafa verið fyrir stofnun einkahlutafélagsins. Með þessu er tekinn af allur vafi um ábyrgð eigenda Orkuveitu Húsavíkur á þeim lánum sem tekin hafa verið vegna Orkuveitu Húsavíkur og hagsmunir núverandi kröfuhafa tryggðir.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um stofnun einkahlutafélags
um Orkuveitu Húsavíkur.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að heimila Húsavíkurbæ að stofna einkahlutafélag um rekstur Orkuveitu Húsavíkur. Allur kostnaður af stofnun einkahlutafélagsins og yfirtöku þess á rekstri Orkuveitu Húsavíkur greiðist af félaginu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.