Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 299. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 585  —  299. mál.




Breytingartillaga



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.

Frá Lúðvík Bergvinssyni, Jóni Gunnarssyni og Gunnari Örlygssyni.



    1. gr. orðist svo:
    3. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra skipar fimm menn og jafnmarga varamenn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Skulu fjórir stjórnarmanna skipaðir eftir tilnefningu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður sjóðstjórnar en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Fjármálaráðherra ákvarðar þóknun stjórnarmanna. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meiri hluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.

Greinargerð.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að innheimtuþóknun sjóðsins hækki úr 2% í allt að 4% vegna þess að kostnaður við innheimtur hefur verið meiri en ráð var fyrir gert. Flutningsmenn telja eðlilegt að um leið sé reynt að ná niður kostnaði þannig að hækkun á innheimtuþóknun verði ekki meiri en nauðsyn krefur. Því er lagt til að stjórnarmenn verði fimm í stað sex eins og lagt er til í frumvarpinu og í raun telja flutningsmenn ekki hafa komið fram nein haldbær rök fyrir því að fjármálaráðherra skipi tvo menn í stjórn sjóðsins.