Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 448. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 999  —  448. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um íslensku og íslensk fræði erlendis.

    Í greinargerð með fyrirspurninni segir: „Miðað er við árið 1997 vegna þess að staða mála þangað til er ljós af svari ráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar á 122. löggjafarþingi (44. mál, skj. 44 og 187).“ Þó að spurningar séu ekki nákvæmlega eins orðaðar og í framangreindri fyrirspurn árið 1997 má af greinargerðinni ráða að hér sé a.m.k. að hluta til óskað eftir framvinduskýrslu um þessi mál.
    Í samningi ráðuneytisins við við Háskóla Íslands um tiltekin verkefni Stofnunar Sigurðar Nordals sem undirritaður var 6. september 2004 er kveðið á um að stofnunin hafi í umboði ráðuneytisins m.a. umsjón með málefnum íslenskra sendikennara við erlenda háskóla, umsjón með styrkjum til að efla bókakost sendikennarastóla og annist önnur verkefni á sviði íslenskukennslu erlendis, eftir því sem tilefni gefst til og samkvæmt nánara samkomulagi, sbr. fylgiskjal.

     1.      Við hvaða erlendar menntastofnanir á háskólastigi er kennd íslenska (nútímamálið) og íslensk fræði?
    Erfitt er að gera fulla grein fyrir kennslu í íslensku og íslenskum fræðum við þá háskóla erlendis þar sem ekki eru fastar stöður í greininni, enda mjög breytilegt frá ári til árs hvort boðið er upp á íslenskukennslu, hversu mikla, hver kennir og við hvaða námsefni er stuðst. Í því sambandi verður að treysta á stopular upplýsingar frá skólunum sjálfum eða kannanir. Þær verða þó aldrei einhlítar þar sem fyrst þarf að hafa haldgóða vitneskju um þá skóla um víða veröld sem hafa einhvern tíma boðið upp á íslenskukennslu og síðan þarf að afla svara frá þeim um kennsluna en það reynist ekki alltaf auðvelt. Árið 1998 gerði Stofnun Sigurðar Nordals könnun á kennslu í forníslensku og nútímamáli erlendis. Stofnunin sendi fyrirspurnir til tæplega 200 háskólastofnana og svöruðu 94 skólar sem buðu þá upp á reglulega íslenskukennslu, auk 12 skóla þar sem íslenska var einungis kennd óreglulega eða boðið upp á sjálfsnám undir handleiðslu kennara. Niðurstöður könnunarinnar er að finna á heimasíðu Stofnunar Sigurðar Nordals: www.nordals.hi.is. Þótt könnun þessi sé rúmlega sex ára gömul bendir ekkert til þess að meginniðurstöður hennar um kennsluna sem í boði er séu ekki enn í fullu gildi að mestu leyti; breytingarnar á kennsluframboði eru ekki það örar. Hins vegar hefur nemendum fjölgað sums staðar en heldur fækkað annars staðar. Ætla má að nú stundi árlega á annað þúsund nema nám í íslensku nútímamáli við erlenda háskóla.
    Kennslu í nútímaíslensku við háskóla erlendis má skipta í þrjá flokka. Í fyrsta lagi eru á nokkrum stöðum prófessorar og lektorar sem hafa íslenskt mál og bókmenntir sem aðalkennslugrein, í flestum tilfellum er um Íslendinga að ræða. Í öðru lagi kenna nokkrir erlendir háskólakennarar íslensku ásamt öðrum greinum. Í þriðja og síðasta lagi kenna Íslendingar, oft stúdentar sem búsettir eru erlendis, íslensku í stundakennslu. Þá er rétt að minna á að íslenska er kennd allvíða utan háskóla í einkakennslu, námsflokkum og hjá Íslandsvinafélögum. Samkvæmt könnun Stofnunar Sigurðar Nordals 1998 var nútímaíslenska kennd við 38 háskóla víða um heim: þ.e. á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Sviss, Austurríki, á Ítalíu, í Tékklandi, Ungverjalandi, Búlgaríu, Litháen, Rússlandi, Kanada og Japan. Þá var íslenskt nútímamál skylda fyrir þá sem stunduðu norræn fræði við átta háskóla af þessum 38 en valgrein annars staðar.

     2.      Í hvaða öðrum menntastofnunum erlendis er lögð stund á íslensku og íslensk fræði, svo kunnugt sé?
    Ekki eru til neinar kannanir á því hvar íslensk fræði eru stunduð annars staðar en þar sem þau eru kennd. Íslensk miðaldafræði og nútímamálfræði er þó stunduð víðar. Hins vegar má benda á að á milli 200 og 300 manns sækja að jafnaði alþjóðleg fornsagnaþing sem haldin eru þriðja hvert ár. Flestir þátttakendanna eru fræðimenn í íslenskum fræðum. Þá hefur Stofnun Sigurðar Nordals hátt í 800 manns á skrá yfir fræðimenn í íslenskum fræðum erlendis. Þessir fræðimenn starfa einkum í Evrópulöndunum, Norður-Ameríku og Ástralíu. Í Asíu er einkum áhugi á íslenskum fræðum í Japan.

     3.      Í hverjum þessara menntastofnana á háskólastigi eru íslenskir kennarar („sendikennarar“) að störfum?
    Núna eru þrettán Íslendingar í starfi sem íslenskukennarar við erlenda háskóla, í föstum eða tímabundnum stöðum, þrír í Frakklandi og Þýskalandi, tveir í Svíþjóð og einn í Noregi, Finnlandi, Danmörku, Austurríki og Kanada. Auk þess eru nokkrir íslenskir stundakennarar við erlenda háskóla.

     4.      Hvernig er háttað stuðningi Íslendinga við þetta starf?
    Á fjárlögum árið 2004 voru veittar um 5 millj. kr. til kennslu í íslensku við erlenda háskóla, þar af var um 2,6 millj. kr. varið til lektorsstöðu við Lundúnaháskóla sem ríkissjóður greiðir að hálfu, 2,5 millj. kr. til lektorsstöðu við Humboldt-háskóla í Berlín og 1 millj. kr. til að efla íslenskukennslu við Manitoba-háskóla. Því sem þá var eftir var varið til að greiða launauppbót til kennara í íslensku við fjórtán aðra háskóla erlendis, veita bókastyrki og ferðastyrki, kosta árlegan kennarafund og veita íslensku sendikennurunum heimflutningsstyrki við starfslok erlendis. Nú styðja íslensk stjórnvöld reglubundna kennslu í nútímaíslensku við fimmtán erlenda háskóla, þ.e. í Björgvin, Gautaborg, Uppsölum, Helsinki, Kaupmannahöfn, Kiel, Berlín, Erlangen, München, Vín, Lyon, París, Caen, London og Winnipeg. Auk þess fá Cambridge-háskóli og Waseda-háskóli í Tókíó nokkurn styrk til námskeiðahalds í íslensku.
    Á sínum tíma lögðu íslensk stjórnvöld fram fé til að koma á fót prófessorsstöðu í íslensku við Manitoba-háskóla. Sá skóli og Cornell-háskóli í Bandaríkjunum fá árlega nokkurn bókastyrk. Á árinu 2004 nam styrkurinn til Manitoba-háskóla 500.000 kr., en 300.000 kr. til Cornell-háskóla. Þá fékk norræna bókasafnið í París 60.000 kr. styrk á árinu 2004 til að bæta íslenskan bókakost sinn. Menntamálaráðuneytið hefur undanfarið veitt árlega hátt á þriðja tug erlendra námsmanna styrk til að stunda nám í íslensku við Háskóla Íslands. Árið 2004 var varið til þessara styrkja 20 millj. kr. og 22 millj. kr. eru ætlaðar til styrkjanna á yfirstandandi fjárlagaári. Margir erlendu námsmannanna nema íslensku eftir að hafa lagt grunn að því námi heima fyrir og að því leyti má þess vegna skoða námsstyrkina sem stuðning við íslenskukennslu erlendis.
    Á undanförnum árum hafa margs konar rannsókna-, nemenda-, og kennaraskipti milli Háskóla Íslands og annarra evrópskra háskóla aukist fyrir tilstuðlan norrænnar samvinnu og Evrópusambandsins. Hafa kennarar í íslensku fyrir erlenda stúdenta farið utan og kennt námskeið við erlenda háskóla, m.a. við Fróðskaparsetur Færeyja.
    Þá má geta þess að íslenskuskor hugvísindadeildar, Hugvísindastofnun, Stofnun Sigurðar Nordals, fimm háskólar í öðrum Evrópulöndum og Wisconsinháskóli í Madison hafa á undanförnum árum unnið að gerð kennsluefnis á netinu, sem m.a. er ætlað erlendum stúdentum til sjálfsnáms í íslensku, Icelandic Online. Hafa menntamálaráðuneytið, Rannís og Háskóli Íslands m.a. styrkt kennsluefnisgerðina. Fyrsti hluti var tekinn í notkun í ágúst 2004 og hefur notið mikilla vinsælda, ekki síst meðal þeirra fjölmörgu sem ekki eiga kost á að nema íslensku við skóla sína. Vonast er eftir að í framtíðinni verði unnt að koma á fjarkennslu í tengslum við þetta netefni.
    Ekki er kunnugt um að aðrir aðilar hér á landi en menntamálaráðuneytið og Háskóli Íslands styrki kennslu í íslensku og íslenskum fræðum erlendis með skipulögðum hætti.

     5.      Hefur kennsla af þessu tagi verið lögð niður við einhverja skóla síðan 1997? Hefur slík kennsla verið tekin upp við einhverja skóla síðan 1997?
    Á undanförnum árum hefur skipulögð kennsla í íslensku nútímamáli verið hafin við háskóla í Poznan í Póllandi og Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum. Hins vegar mun kennslu í íslensku hafa verið hætt við háskólann í Búdapest en eins og fram kemur í svari við 1. lið eru nákvæmar upplýsingar um þetta ekki tiltækar.

     6.      Hafa ráðherra borist óskir um stuðning við þetta starf frá árinu 1997? Hver hafa orðið viðbrögð ráðuneytisins við slíkum óskum?
    Síðan 1997 hafa verið gerðir samningar um stuðning við kennslu í íslensku við Humboldt- háskóla í Berlín og Manitoba-háskóla í Winnipeg. Þá var ákveðið árið 2002 að veita Waseda- háskóla í Tókíó 270.000 styrk árlega næstu þrjú árin til kennslu í íslensku og íslenskum fræðum. Á síðustu árum hefur verið óskað óformlega eftir að framlag til launa kennara við Vínarháskóla og Lyon-háskóla verði hækkað. Þá hefur verið óskað eftir stuðningi við íslenskukennslu við háskóla í Bonn og Freiburg í Þýskalandi, Búdapest í Ungverjalandi, Poznan í Póllandi, Zagreb í Króatíu og Rómaborg. Ákveðið hefur verið að forgangsraða og styðja frekar þá kennslu sem getið hefur verið um hér að framan

     7.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir auknum fjárveitingum til þess arna í kjölfar nýlegs samnings við Háskóla Íslands um íslenskukennslu erlendis og önnur verkefni hjá Stofnun Sigurðar Nordals?
    Íslenskukennsla erlendis er mikilvægur þáttur í kynningu á íslenskri menningu og eflingu íslenskrar tungu almennt. Menntamálaráðuneytið hefur á ýmsum sviðum beitt sér fyrir bættri aðstöðu sendikennara og annara sem að þessum málum starfa síðustu misserin, m.a. með ýmsum styrkjum eins og að framan greinir t.d. til íslenskukennslu í Manitoba og Japan svo og námsefnisins Icelandic Online sem miklar vonir eru bundnar við. Ráðuneytið hyggst halda stuðningi af þessu tagi áfram.
    Samningur menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands um tiltekin verkefni Stofnunar Sigurðar Nordals sem undirritaður var 6. september 2004, eins og að framan greinir, felur ekki í sér skilgreiningu verkefna er sjálfkrafa kalla á auknar fjárveitingar. Skv. 4. gr. samningsins mun menntamálaráðuneytið beita sér fyrir fjárveitingum í fjárlögum hverju sinni til að standa straum af kostnaði við verkefni þau sem tilgreind eru í samningnum að fenginni kostnaðaráætlun sem lögð skal fyrir ráðuneytið í tengslum við gerð fjárlaga. Mun ráðuneytið meta þörf fyrir fjárveitingar á grundvelli þessara kostnaðaráætlana hverju sinni.


Fylgiskjal.


Samningur milli menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands
um tiltekin verkefni Stofnunar Sigurðar Nordals.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.