Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 662. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1006  —  662. mál.

                        

Fyrirspurn



til félagsmálaráðherra um nýjan þjónustusamning við Sólheima og skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi þeirra.

Frá Rannveigu Guðmundsdóttur.



     1.      Eru stjórnir sjálfseignarstofnana, sem fá framlög úr ríkissjóði til að sinna verkefnum sem ríkið skal samkvæmt lögum sinna eða standa undir, óbundnar af því hvernig þær ráðstafa framlögunum ef ekki er sérstakur samningur þar um milli aðila?
     2.      Ef þjónustusamningur við Sólheima frá 1997 um framlög vegna þjónustustigs og magns var ekki í gildi gat þá ráðuneytið þrátt fyrir það greitt samkvæmt tilteknu mati og stofnunin ráðið að vild hvernig fjármagni væri varið?
     3.      Hefur ráðuneytið látið fara fram lögfræðilega athugun á réttarstöðu sinni í málum af þessum toga og hvort ríkið kunni að eiga lögvarin réttindi í skjóli framlaga sinna til Sólheima eins og Ríkisendurskoðun taldi eðlilegt að gera?
     4.      Hvernig bregst ráðuneytið við því mati Ríkisendurskoðunar að á árunum 2000 og 2001 hafi aðeins 17 stöðugildi verið í umönnun, búsetustuðningi og heimiliseiningum þótt samkvæmt þjónustumati eldri samnings hafi verið reiknað með 34 stöðugildum við þennan þjónustuþátt?
     5.      Hvað er gert ráð fyrir mörgum stöðugildum í nýjum þjónustusamningi?
     6.      Hvernig er tryggt að menntun starfsmanna og fjöldi þeirra sé í samræmi við þjónustumat?
     7.      Hvernig er tryggt að viðbótarframlög upp á 30 millj. kr. (og framlög alls 173,5 millj. kr.) renni til þeirrar þjónustu við fatlaða sem þeim er ætlað samkvæmt nýjum þjónustusamningi?
     8.      Fellst ráðuneytið á það álit Ríkisendurskoðunar að um 73% framlaga ríkisins til Sólheima hafi runnið til fatlaðra og að á árunum 1996–2001 hafi 158 millj. kr. runnið til umfangsmeiri atvinnurekstrar, viðhalds og stofnkostnaðar húsnæðis en samningur var um?
     9.      Telur ráðuneytið að því fé sem verja á í varasjóð samkvæmt nýjum samningi (4% af ríkisframlagi, eða 7 millj. kr.) verði einvörðungu varið til uppbyggingar á þjónustu við fatlaða? Fjallar skipulagsskrá Sólheima um einhverjar aðrar framkvæmdir sem þannig yrði unnt að veita fé til úr varasjóði?
     10.      Hvað þýðir samþykkt fulltrúaráðs Sólheima um að flestar eignir á svæðinu séu í eigu Styrktarsjóðs Sólheima? Á það bæði við stofnanir fatlaðra og aðra uppbyggingu á svæðinu?


Skriflegt svar óskast.