Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 725. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1083  —  725. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    12. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu er felld úr gildi heimild búnaðarsambanda til þess að innheimta sérstakt gjald hjá mjólkurframleiðendum af allri innveginni mjólk í afurðastöð vegna sæðinga mjólkurkúa. Gjaldið er nú 1,7% af afurðastöðvarverði mjólkur. Í nýjum samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu sem tekur gildi 1. september 2005 er gert ráð fyrir því að ákveðnum fjármunum sé ráðstafað til kynbóta- og þróunarverkefna í nautgriparækt. Þá er jafnframt talið eðlilegt að þeir sem nýta sér þjónustu búnaðarsambanda greiði í auknum mæli beint fyrir veitta þjónustu.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á búnaðarlögum,
nr. 70/1998, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að hætt verði að innheimta 1,7% gjald af afurðaverði mjólkur sem greiðist af mjólkurframleiðendum til búnaðarsambanda vegna sæðinga mjólkurkúa. Alls innheimtust um 80 m.kr. árið 2004 vegna gjaldheimtunnar. Gert er ráð fyrir að veitt verði 100 m.kr. framlag í fjárlögum árið 2006 til kynbótaverkefna samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu sem tekur gildi frá og með 1. september 2005.