Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 678. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Nr. 10/131.

Þskj. 1280  —  678. mál.


Þingsályktun

um ferðamál.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að stefna að eftirfarandi meginmarkmiðum í ferðamálum á tímabilinu 2006–2015 í samráði við ráðherra viðkomandi málaflokka:
     1.      Náttúra Íslands, sterk byggð, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.
     2.      Tryggð verði samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni.
     3.      Álagi vegna ferðaþjónustu verði jafnað á landið og íbúa þess og verði innan þolmarka í samræmi við niðurstöður rannsókna.
     4.      Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin.
    Enn fremur verði unnið að eftirfarandi markmiðum:
     1.      Ferðaþjónustunni verði sköpuð rekstrarskilyrði sambærileg við rekstrarskilyrði í samkeppnislöndunum.
     2.      Ísland verði í forustu í umhverfisvænni ferðaþjónustu.
     3.      Fylgt verði eftir uppbyggingu þjóðgarða með því að stuðla að ferðaþjónustu sem samþættir útivist og náttúruvernd.
     4.      Ábyrgð ferðamanna og fyrirtækja í ferðaþjónustu verði aukin í umhverfismálum.
    Til að ná markmiðum í ferðamálum verði m.a. beitt eftirfarandi aðgerðum:

I. Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar.
     1.      Opinber gjöld af aðföngum og búnaði til ferðaþjónustu verði sambærileg við gjöld í samkeppnislöndum.
     2.      Leitast verði við að fé til sameiginlegrar markaðssetningar verði tryggt til lengri tíma.
     3.      Unnið verði markvisst gegn leyfislausri starfsemi og skattsvikum.
     4.      Opinberir aðilar raski ekki samkeppnisstöðu einkarekinnar ferðaþjónustu.
     5.      Opinbert eftirlit með ferðaþjónustufyrirtækjum verði lágmarkað og einfaldað og eftirlit á vegum einstakra aðila sameinað þar sem hægt er.

II. Kynningarmál.
     1.      Áfram verði unnið að uppbyggingu ímyndar Íslands og hún varin með því að leggja áherslu á eftirfarandi þætti í kynningarstarfi ferðaþjónustunnar:
                  a.      einstaka og fjölbreytta náttúru,
                  b.      umhverfisvernd,
                  c.      menninguna og þjóðina,
                  d.      fagmennsku,
                  e.      gæði og öryggi,
                  f.      heilsu og hreinleika,
                  g.      gestrisni,
                  h.      myndræn auðkenni (lógó),
                  i.      slagorð.
     2.      Megináhersla í öllum kynningarmálum verði áfram lögð á Ísland, Norður-Ameríku, Bretland, norræn lönd og meginland Evrópu.
     3.      Aðgengi einkaaðila að opinberum framlögum til kynningar- og markaðsmála verði háð eigin framlögum þeirra til vel skilgreindra og vænlegra verkefna.
     4.      Samræmis verði gætt í allri kynningu á landinu í heild, sem og í aðlögun kynningarefnis og skilaboða fyrir einstaka markhópa eða markaðssvæði.
     5.      Aðferðafræðin sem notuð hefur verið við „Iceland Naturally“ í Norður-Ameríku (þ.e. sameiginleg kynning vöru og þjónustu) verði notuð við aðkomu opinberra aðila að kynningu Íslands á öðrum markaðssvæðum.

III. Nýsköpun og þróun.
    Stjórnvöld taki virkan þátt í nýsköpunar- og vöruþróunarstarfi ferðaþjónustunnar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

IV. Menntun.
     1.      Aukið tillit verði tekið til kostnaðar fyrirtækja í tengslum við starfsnám.
     2.      Námsbrautir framhaldsskóla og sérskóla tengist svo sem kostur er þannig að ekki myndist blindgötur eða óþörf skörun námsbrauta og skólastiga.
     3.      Háskólanám í ferðamálum byggist í vaxandi mæli á þeim grunni sem lagður er á framhaldsskólastigi þannig að við inntöku nemenda verði tekið tillit til menntunar og/eða reynslu á sviði ferðamála.
     4.      Tryggt verði aðgengi að háhraðaneti við fjarnám.

V. Rannsóknir.
     1.      Starfrækt verði gagnamiðstöð er vinni að söfnun, úrvinnslu og túlkun gagna til hagnýtingar bæði fyrir opinbera aðila og einkaaðila innan greinarinnar.
     2.      Hlúð verði að hvers kyns grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum í ferðamálafræði.

VI. Grunngerð.
     1.      Umferðarmiðstöðvar verði nýttar til að tengja og samræma allar tegundir almenningssamgangna og bættrar þjónustu við ferðamenn.
     2.      Upplýsingar um löggæslu, heilsugæslu, almenningssamgöngur og almannavarnir verði aðgengilegar á erlendum tungumálum auk íslensku.
     3.      Við gerð almannavarnaáætlana sé tryggt að upplýsingar um hættuástand og viðbrögð nái til fólks á ferð um landið.
     4.      Merkingar í samgöngukerfinu verði bættar og þess gætt að þær séu auðskiljanlegar fyrir erlenda ferðamenn.
     5.      Aðgengi að skilgreindum „seglum“ verði tryggt allt árið, sbr. skýrsluna Auðlindin Ísland.
     6.      Skilgreindar verði lágmarkskröfur til upplýsingamiðstöðva sem lúta opinberu eftirliti.
     7.      Upplýsingamiðstöðvar sem lúta opinberu eftirliti verði auðkenndar sérstaklega.

VII. Fjölþjóðasamstarf.
     1.      Alþjóðlegt samstarf beinist sérstaklega að vestnorræna svæðinu öðrum norrænum löndum, meginlandi Evrópu og OECD-löndum.
     2.      Áfram verði haldið sérstöku samstarfi við önnur norræn lönd.
     3.      Kynning og aðstoð verði veitt við aðgang að fjármagni erlendis til verkefna í ferðaþjónustu.
     4.      Samstarf við erlenda ferðaþjónustuaðila verði aukið og því viðhaldið.
     5.      Þátttaka í fjölþjóðlegu tengslaneti verði aukin og því haldið við.

VIII. Gæða- og öryggismál.
     1.      Rekstrarleyfi verði höfð sýnileg, bæði á íslensku og fleiri tungumálum og útlit þeirra verði samræmt.
     2.      Áfram verði unnið að eflingu flokkunarkerfis gististaða og það kynnt frekar fyrir rekstraraðilum og neytendum.
     3.      Unnið verði að því að koma á flokkunarkerfi ráðstefnuaðstöðu.
     4.      Unnið verði að því að koma á flokkunarkerfi fólksflutningabifreiða.
     5.      Ferðamönnum sem ferðast um Ísland verði gert ljóst að þeir beri fulla ábyrgð á eigin gjörðum og þeim beri að fylgja leiðbeiningum sem þeir fá eða eru settar fram á viðkomustöðum þeirra.

IX. Umhverfismál.
     1.      Ferðamönnum verði gerð betur grein fyrir ábyrgð sinni varðandi verndun umhverfisins.
     2.      Skilgreindum „seglum“ til að dreifa álagi á landið verði fjölgað og þeir gerðir aðgengilegir árið um kring.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 2005.