Siglingalög

Fimmtudaginn 19. janúar 2006, kl. 13:52:30 (3332)


132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Siglingalög.

376. mál
[13:52]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum. Frumvarp þetta er lagt fram m.a. vegna ábendinga frá siglingaráði síðasta vor. Markmið frumvarpsins er að stuðla að auknu öryggi til sjós með skýrari og víðtækari ákvæðum vegna hættulegrar hegðunar eða ástands skipstjóra eða annarra skipverja sem fara með stjórn skips. Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að sambærileg mörk gildi um skilgreint vínandamagn í blóði skipstjórnarmanna eða skipverja og eru í umferðarlögum. Hliðstætt ákvæði er jafnframt að finna í lögum um loftferðir.

Gengið er út frá því að viðkomandi sé óhæfur til starfsins reynist vínandamagn í blóði hans vera yfir 0,5 prómill eða nemi vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér 0,25 milligrömmum í lítra lofts. Gert er ráð fyrir að grandaleysi aðila um ástand sitt leysi hann ekki undan sök.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæðin gildi um fleiri áhafnarmeðlimi en eingöngu skipstjóra eins og nú er, þ.e. skipverja eða aðra starfsmenn sem hafa með hendi starfa í skipi, stjórni skipaferðum eða veiti öryggisþjónustu vegna skipaferða. Reynist framangreindir aðilar óhæfir til að rækja starfa sinn á fullnægjandi hátt, t.d. vegna neyslu áfengis, ofskynjunarefna eða annarra örvandi eða deyfandi efna vegna sjúkdóms eða þreytu eða af öðrum orsökum, skal það varða sektum eða fangelsi. Hafi framangreindir aðilar orðið valdir að skipstrandi, árekstri eða öðru sjóslysi með yfirsjónum eða vanrækslu í starfi varðar það jafnframt sektum eða fangelsi. Þá er gert ráð fyrir því nýmæli í frumvarpinu að tilraun til stjórnunar skips geti reynst refsiverð. Slíkur áskilnaður er nauðsynlegur vegna sönnunarörðugleika undir ákveðnum kringumstæðum.

Loks er í frumvarpinu byggt undir heimildir lögreglu og annarra sem með löggæsluvald fara til að taka á málum af því tagi sem hér um ræðir. Lögð er sú skylda á skipstjóra og aðra skipstjórnarmenn að gangast undir öndunarpróf að kröfu lögreglu eða annarra sem með löggæsluvald fara. Skyldan nær jafnframt til þess að hlíta kröfu sömu aðila um læknisskoðun, þar á meðal blóð- og þvagrannsókn. Lagt er til að ákvæðin gildi fyrir öll skip óháð stærð þeirra og lengd. Siglingalög gilda að öðru leyti um skráningarskyld skip, þ.e. skip yfir sex metra að lengd.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. samgöngunefndar.