Kjaradómur og kjaranefnd

Föstudaginn 20. janúar 2006, kl. 13:44:13 (3430)


132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:44]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hún var vægast sagt athyglisverð sú ræða sem hv. þingmaður flutti þar sem hann reyndi af veikum mætti að bera blak af þeirri ríkisstjórn sem hann styður hér á hinu háa Alþingi. Hv. þingmaður notaði þá samlíkingu að það væri vont ef óvitar fengju völd eða börn hefðu byssur. Það er kannski þetta sem hv. þingmaður á við, þ.e. línurit yfir launaþróun opinberra starfsmanna og þeirra sem vinna hjá ríkinu. Það er kannski það sem hv. þingmaður átti við þegar hann sagði að það væri slæmt að óvitar hefðu völd eða börn hefðu byssur. Hv. þingmaður hefur nefnilega flutt þessa ræðu, þessa tilteknu ræðu, við hverja fjárlagagerð núna í mörg ár. Það kemur fram í þessum úrskurði Kjaradóms að hv. þingmaður hafði rétt fyrir sér. Ríkisstjórnin er algerlega búin að missa tökin á ríkisfjármálum og launaþróun hjá ríkinu. Þess vegna má segja sem svo að þessi niðurstaða Kjaradóms sé staðfesting á því að hv. þingmaður hafi haft rétt fyrir sér þegar hann hefur flutt sínar árlegu fjárlagaræður. En nú kemur hv. þingmaður með allt aðra ræðu. Allir aðrir eru nú tilnefndir sem sökudólgar og bera ábyrgð á því að launaþróun kunni að einhverju leyti hjá einhverjum hópum að hafa farið úr böndum.

En ég vil aðeins, áður en ég lýk þessu andsvari, leiðrétta hv. þingmann þegar hann leyfði sér að halda því fram að Eiríkur Tómasson og Sigurður Líndal hefðu talið nauðsynlegt að komast að þessari niðurstöðu. Sigurður Líndal sagði: Ef það á að fara þessa leið þá þarf að rökstyðja það sem þjóðarnauðsyn. Aðspurður í fjölmiðlum sagði hann meira að segja (Forseti hringir.) að hann sæi ekki að hér væri þjóðarnauðsyn. Það er afar mikilvægt að ekki sé farið með rangt mál um skoðanir þeirra sem vísað er til í (Forseti hringir.) meirihlutaáliti.