Ríkisútvarpið hf.

Mánudaginn 23. janúar 2006, kl. 17:19:21 (3518)


132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:19]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson talar mjög um starfsmenn Ríkisútvarpsins og telur sig vera, hygg ég, að tala máli þeirra þegar við ræðum hér málefni Ríkisútvarpsins. Það vekur hins vegar athygli að hann virðist ekki taka undir ákall starfsmanna Ríkisútvarpsins um að það sé nauðsynlegt, beinlínis lífsnauðsynlegt fyrir Ríkisútvarpið að breytt verði um rekstrarform. Þannig segir í grein Páls Magnússonar, sjálfs útvarpsstjórans, með leyfi forseta:

„Einhverjum kann í fljótu bragði að þykja sem þetta skipti ekki miklu máli, formið sé aukaatriði en innihaldið aðalatriði. Ekkert er fjær lagi. Þvert á móti má færa fyrir því gild rök að óbreytt rekstrarfyrirkomulag beri í sér dauðann sjálfan fyrir þessa merku stofnun.“

Það sem sagt hefur komið ákall úr Efstaleitinu frá a.m.k. einum starfsmanni Ríkisútvarpsins um að rekstrarforminu verði breytt. Því spyr ég hv. þingmann: Hvernig ætlar hann og Vinstri hreyfingin – grænt framboð að bregðast við þessu ákalli? Hvernig vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð breyta rekstrarfyrirkomulagi RÚV? Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að rétt sé að halda rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins óbreyttu? Er það þetta sem hv. þingmaður vill þrátt fyrir að sjálfur útvarpsstjórinn sem rekur þessa stofnun nú telji að það eitt muni ganga af henni dauðri? Mér þætti vænt um að fá svör við þessum spurningum.